Hvernig ilmar söknuður eiginlega? Fyrir mér er það þung og svolítið sæt lykt, eins og ilmvatn sem situr eftir í fatnaði, gamlar bækur og píputóbak. Í nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilmi, skapar hún eins konar ilmheim sem liggur sem rauður þráður í gegnum bókina. Hennar saknaðarilmur er blanda af líkamslykt, sítrónum, sælöðri og reykelsi, lykt af húsum, við og bárujárni, saffran, rósum og mörgu fleira sem blandast saman í eitt og túlkar söknuðinn.

Ljóðræn sannsaga

Elísabet Jökulsdóttir hefur gefið út fjölmargar bækur og sló rækilega í gegn í jólabókaflóðinu 2020 með bókinni Aprílsólarkulda. Bókin hlaut svo Íslensku bókmenntaverðlaunin. Í Aprílsólarkulda var samband sögupersónu við föður hennar ákveðið meginstef, en Saknaðarilmur fjallar hins vegar um samband móður og dóttur.

Í Aprílsólarkulda fór Elísabet jafnframt þá leið að skrifa eins konar sjálfsævisögulega nóvellu í þriðju persónu, sem hefur þau áhrif að lesandinn skilur aðeins á milli raunveruleikans og frásagnarinnar.

Með Saknaðarilmi má segja að Elísabet fikri sig meira í áttina að sannsögu, en þar lýsir hún með ljóðrænum hætti í fyrstu persónu sambandi sínu við móður sína og móðurmissinum.

Míkrókosmós áfalla

Kaflar bókarinnar bera allir titil og eru mislangir, sumir ekki nema 2-3 setningar. Frásögnin er ekki línuleg heldur flakkar Elísabet á milli tímabila og fjallar ýmist um sjálfa sig sem dóttur eða sem móður og móður sína sem móður eða sem dóttur. Úr verður hispurslaus og falleg flétta, sem er um leið eins konar míkrókosmos áfalla sem ganga þvert á kynslóðir.

Framsetningin gerir það jafnframt að verkum að bókin verður næstum því eins og örsagnasafn sem er hægt að grípa niður í af handahófi og suma kaflana hef ég lesið oftar en einu sinni.

Bókin lýsir sambandi þeirra mæðgna með mjög opinskáum hætti og hlífir hvorugri þeirra. Eins og sambandið birtist lesanda fyrir sjónum einkennist það af áföllum, ofbeldi, misskilningi og samskiptaörðugleikum, en líka umhyggju, eftirsjá, söknuði og ást.

Fyrstu kynni lesandans af móður Elísabetar eru þegar hún stormar inn í söguna strax í fyrsta kafla og það gustar einhvern veginn um hana í gegnum alla frásögnina, en inn á milli glittir líka í móður sem vill dóttur sinni vel og tekur erfiða ákvörðun með hennar hag fyrir brjósti.

Að sama skapi er lýsing Elísabetar á sjálfri sér í senn lýsing dóttur sem skilur ekki af hverju sambandi hennar við móður sína er ekki öðruvísi háttað en gerir um leið sjálf kannski ekki tilraun til þess að breyta því, enda of margt búið að gerast og á milli þeirra einhver ósýnilegur veggur. Boðskapurinn kristallast í lokaorðum bókarinnar:

“ég skil það allt í einu þegar ég skrifa þessa bók, að til þess að við næðum sambandi hefði heilt samfélag þurft að breytast.”

Streymi meðvitundar

Saknaðarilmur er hrá og filterslaus og frásagnastíllinn er einhvern veginn flæðandi, næstum eins og að lesa hugsanir höfundar um leið og þær kvikna. Elísabet hefur sjálf lýst stílnum í bókinni sem lækjarnið og ég tek undir þá lýsingu, en mig langar að prjóna við myndlíkinguna og lýsa honum sem eins konar streymi meðvitundar. Þótt það virðist við fyrstu sýn ákveðin óreiða í því hvernig er flakkað á milli, þá er samt um leið svo sterk heild í bókinni að ég átti hreinlega mjög erfitt með að leggja hana frá mér.

Ég þurfti að melta bókina svolítið eftir að ég las hana í gegn, sem mér þykir eftir á að hyggja til marks um hvað hún hafði mikil áhrif á mig. Það er nefnilega eitthvað alveg sérstakt við sannsögur Elísabetar, eitthvað sem talar beint inn í kvikuna á manni og hreyfir við öllum tilfinningaskalanum.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...