Galopin totthurð inn í firringuna

Listamaðurinn Sturlaugur er með frábæra hugmynd að listaverki. Eða er það sjálfsvíg? Með því að éta sjálfan sig mun hann ekki eingöngu uppfylla dauðaþrá sína heldur einnig verða ódauðlegur í lista- og heimssögunni. Hvað gæti farið úrskeiðis?

Miðgarðssvínið bítur í halann á sér

„Þetta var ekkert flókið. Mig langaði bara að hverfa.“

(Kjöt, bls. 3)

Kjöt er fyrsta bókin sem ég les eftir Braga Pál Sigurðarson. Þær sem á undan hafa komið náðu að renna sér fram hjá mér í fyrri jólabókaflóðum, en eitthvað við þessa greip athygli mína. Áður hafa komið út skáldsögurnar Austur og Arnaldur Indriðason deyr.

Kannski var það nafnið, stutt og laggott, eða kannski var það kápan, sem er nakin bringa með eins konar miðgarðssvíni sem bítur í halann á sér flúrað utan um bleika geirvörtu. Sennilega hvort tveggja. Ég ákvað að hlusta á bókina á Storytel og myndi sennilega fremur mæla með að lesa hana, og á sennilega eftir að gera það líka. Eftir tvær mínútur af hlustun gafst ég upp því bókin var of ógeðsleg. Það er í frásögur færandi því ég er venjulega manneskjan sem neytir ógeðslegustu afþreyingarinnar – hryllingsmynda, hryllingsbóka, morðsagna og alls kyns almenns viðbjóðs. En náin lýsing höfundar á ákveðinni sveppasýktri tánögl gekk hreinlega fram af mér. En ég er fagmaður fram í fingurgóma og táneglur og eftir stutta pásu hélt ég áfram að hlusta. Og mikið er ég ánægð að ég gerði það.

Hver étur hvern?

Bragi Páll hefur haft orð á sér fyrir að vera ógeðslegur höfundur og hann stendur svo sannarlega undir því í þessari bók. En það er eitt að vera eingöngu ógeð til að vera ógeð og annað að vera, jú, ógeðslegur, en um leið hæfileikaríkur penni og sögumaður sem nýtir ógeðið til að skapa ádeilu, og það gerir Bragi Páll gerir svo sannarlega í Kjöti.

Höfundur lýsir Sturlaugi á þann hátt að ljóst er að hann er ekki endilega með honum í liði – þetta er ekki saga þar sem aumingi fær uppreist æru því hann er svo góður strákur, heldur fylgjumst við með fyrrum listamanni sem hefur misst allt, hugsanlega verið slaufað, og er djúpt sokkin í vonleysi. Við kynnumst Sturlaugi á slæmum stað í lífinu, hann er hreint út sagt algjör lúser, eða jafnvel eitthvað verra en lúser – has been. Hann var þekktur um hríð fimmtán árum áður fyrir að hræra upp í listaheiminum með óhuggulegum gjörningi en allt hefur verið á niðurleið síðan. Hann býr í haugskítugri íbúð, klæjar í húðina af óþrifnaði og hefur bitið alla af sér nema eina eldri konu, gamlan gallerista sem hefur sopið ófáa fjöruna og líst ósköp vel á þessa hugmynd hans um að láta éta sig.

Spennandi sagnaheimur með ádeiluundirtón

Ég vil ekki skrifa of mikið um bókina en vendingar hennar eru áhugaverðar. Persónusköpun og bygging er góð og trúverðug, höfundur gerir grín að listaheiminum, elítunni, síðkapítalismanum og firringu samfélagsins án þess þó að hljóma predikandi. Bókin er snjöll og stíllinn hæfilega knappur, svolítið af enskuslettum er leyft að fljóta í gegn, og þó það sé óvanalegt þá virkar það því það gerir persónurnar sem nota þær trúverðugari. Forsögu persónanna er haldið í listilegu lágmarki – en lesandi fær að vita alveg nóg til að geta í eyðurnar.

Lýsingar á kjötáti og pælingar um endurfæðingu anda þess sem étinn er eru mjög hrífandi og áhugaverðar og vel er hægt að lesa bókina sem ádeilu á kjötát almennt. Ég velti því fyrir mér á meðan ég las hvort höfundur væri grænmetisæta, þó það eigi ekki að skipta máli, og hvaða heimsýn hann aðhyllist þegar kemur að áti, list og mörkum efnishyggju og ástar.

Hlutverk peninga í sögunni vekur mig einnig til mikillar umhugsunar, en höfundur nær að innlima ekki bara þörfina fyrir peninga til að lifa heldur firringuna sem fylgir auðæfum og svo ókennilegan tvískinnunginn sem skapast við að framleiða list peninganna og stöðutáknanna vegna fremur en listarinnar. Hlutverk listamannsins er til skoðunar rétt eins og hlutverk neytandans. Nú til dags telst það einungis velgengni að slá í gegn markaðslega, að vera „sell out“ sem var í den akkúrat það versta sem þú gast verið – það sem hrifsaði frá þér trúverðugleikann. Listamenn fá upphafningu út á peningana sem hópast að þeim og fjarlægjast um leið sjálfan sig, rætur sínar og aðdáendur sem komu þeim á þennan stað til að byrja með. Svo endar maður bara á að vera étinn. Eða hvað?

Mannætur allra landa sameinist

Ég mæli heilshugar með þessari bók, hún sameinar það sem ég elska mest, ógeð, hrylling, ádeilu og vel skrifaðan texta, vafinn inn í fallega ljóta kápu. Þó myndi ég ekki mæla með henni fyrir hvern sem er, ef einhver á jólagjafalistanum hefur til dæmis lifað af flugslys í Andesfjöllum eða ferðast vestur frá Independence, Missouri eftir lok aprílmánaðar gæti sá hinn sami viljað sleppa við þessa lesningu, sem og almennt viðkvæmir og klígjugjarnir. En þetta er þó, enn sem komið er, uppáhalds bókin mín í jólabókaflóðinu og frábær jólagjöf fyrir ógeðið í lífi ykkar. Lesist á fastandi maga.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...