deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur
(úr Hávamálum)
Feminísk bókaútgáfa
Rauða serían hóf göngu sína á Íslandi snemma á 90 áratugnum þegar Kári Þórðarson og Rósa Vestmann Guðmundsdóttir, er ráku prentsmiðjuna Ásprent á Akureyri, ákváðu að hrista upp í rekstrinum og gerðu samning við kanadísku bókaútgáfuna Harlequin Intrigue. Í upphafi var einn flokkur gefinn út en fljótlega urðu bókaflokkarnir fleiri, Örlagasögur, Ástarsögur, Sjúkrahússögur og Spennusögur voru sendir til áskrifenda einu sinni í mánuði og þegar mest var, voru flokkarnir sex. Bækurnar hafa í gegnum tíðina verið þær mest seldu á landinu, lesnar í bílförmum en hafa aldrei fengið þá virðingu sem þær eiga skilið. Harlequin Intrigue var stofnað um 1950 en árið 1971 gekk breska bókaútgáfan Mills&Boon til liðs við Harlequin Int. Og með þeim fylgdu þeir höfundar sem höfðu skrifað fyrir breska markaðinn. Í dag eru gefnir út um 100 titlar í hverjum mánuði, bæði prentaðir sem og í rafbókaformi í alls 17 löndum og á 16 tungumálum. Ég ætla svosem ekki rekja sögu þessarar kanadísku útgáfu og útgáfu bókanna, sú saga er falleg og feminísk, höfundarnir hafa alltaf verið aðeins konur (fyrir utan einn) og útgáfan gaf konum tækifæri til að skrifa og fá greitt fyrir. Og sem dæmi má nefna þá gaf Ásútgáfa út fyrstu bækur Söru Morgan á íslensku.
Allt fer vel að lokum
Ég var 14 ára þegar kynni mín hófust af þessum bókum. Þar með var ekki aftur snúið, ég pantaði mér áskrift af Rauðu Seríunni, með mömmu á kantinum á meðan ég talaði við konuna hjá Ásútgáfunni í símann. Því ég var bara barn og mamma varð að samþykkja þessa skuldbindingu og ganga í ábyrgð fyrir greiðslu áskriftarinnar. Ég hef áður skrifað pistil um þessar bækur þar sem ég hálfpartinn viðurkenndi þessa „veikleika“ mína og gekkst við því að lesa líka þessar „sorpbækur“ sem sumir hafa svo ranglega kallað þær.
Bækur Rauðu seríunnar hafa lækningamátt. Þær sefa, svæfa, eru hvíld frá óhugnanlegum raunveruleikanum. Þær vekja vellíðan, gefa von, lækna sorgir (ástarsorgir sjáið til) og umfram allt gefa okkur þá fullvissu um að allt endi vel að lokum.
Takk fyrir allt!
Núna er komið að leiðarlokum hjá Rauðu seríunni hér á Íslandi. Ég kveð þessa vinkonu mína með söknuði og eftirsjá, bið hana hér með afsökunar á að hafa ekki komið hreint fram í gegnum tíðina og hampað henni meira og upphátt sem mínum allra besta vin. Og ef einhver grípur keflið og tekur til við þessa útgáfu á ný, kem ég til með að panta mér áskrift um hæl.
Takk Rósa og Kári, fyrir að hafa með þrautseigju haldið þessari útgáfu á floti í þó þetta langan tíma, í nýju og breyttu umhverfi bókaútgáfu og þrátt fyrir alla fordómana sem þessar bækur þurftu að þola.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.