Ég heiti Lilja, ég les Rauðu seríuna.

Ég er búin að ganga með þennan pistil í maganum í marga daga. Eða jafnvel í hálsinum. Þessi pistill er í raun eins og óþægileg hálsbólga sem vill ekki fara en verður samt ekki að einu né neinu. En nú skal ég. Það er þetta með ástarsögurnar. Þær vefjast fyrir mér, örlítið. Ekki misskilja mig samt. Ég er ástarsögufíkill svona í laumi. Og þarf að viðurkenna það hér og nú, að málið snýst um þetta „í laumi“.

Ég var sumsé fyrir nokkrum dögum, stödd í húsi skáldanna, Gunnarhúsi, sem er í hús í eigu rithöfundarsambandsins á Dyngjuveginum. Var ég þar í útskriftarveislu og átti samtal við mann um ástarsögur og Guðrúnu frá Lundi. Við vorum að ræða það virðingarleysi sem Guðrún þurfti að sætta sig við sem rithöfundur á sínum samtíma og veltum því fyrir okkur af hverju þetta virðingarleysi hafi stafað. Jú, sennilega af því að ástarsögur voru ekki og væru ekki enn taldar til bókmennta. Líkt og krimmar. „Þetta er bara alveg ótrúlegt bókasnobb í fólki“ sagði maðurinn. Og þarna kom hann við veikan blett hjá mér. Ástarsögur og krimmar hafa aldrei verið bókmenntir að mínu mati og því hef ég alltaf skammast mín fyrir að hafa lesið þessar óæðri bækur. Ég er með öðrum orðum bókasnobb.

Ég hef samt aldrei viðurkennt þessa skoðun á krimmum og ástarsögum, ég hef hreinlega aldrei viðurkennt að hafa lesið svoleiðis bækur. Laxness og Einar Kára, Friedrick Durrenmatt, Góði dátinn Svejk og Don Quixote prýða hillur og náttborð hjá mér með tilheyrandi glæsibrag en óæðri bókmenntir eru geymdar í náttborðsskápnum eða jafnvel í kassa út í bílskúr.

En nú ætla ég að láta af þessu ótrúlega snobbi og yfirborðsmennsku og viðurkenna það hér og nú að ég var áskrifandi af Rauðu seríunni í mörg ár! Og þar hafið þið það! Ás útgáfan hefur gefið út þessar sögur í rúm þrjátíu ár. Þetta eru mest seldu bókmenntir sem gefnar hafa verið út. Það er bara staðreynd og þó að femínistinn í mér argi og gargi við lesturinn þá samt sogast ég í þessar bókmenntir með reglulegu millibili þegar þunglyndi og drungalegheit þeirra háverðugu æðri bókmennta eru að kaffæra mig. Ég held ég hafi torgað sjö titlum úr Rauðu seríunni bara eftir að ég las Lolitu eina hér fyrr á árinu. Og ekki spillti fyrir að þegar bækurnar voru lesnar upp til agna og fjöldinn af bókakössunum fór að þrengja að jólaskrautskössunum í bílskúrnum þá tóku dætur mínar til og héldu bókasölu fyrir utan matvörubúðina og seldu stykkið af þessum eðalbókmenntum á hundraðkall við miklar vinsældir.

Ég veit að þetta eru ódýrar sögur, fjöldaframleiddar eftir ákveðinni formúlu en þessi formúla virkar. Hún selst. Hvað svo sem fólki kann að finnast um hana. Kona er hjálparvana, einhversstaðar í nágrenninu er einmana uppgjafa lögreglumaður eða læknir sem tekur þessa ósjálfbjarga kvensnift upp á sína arma og leysir öll hennar vandamál. Eða þá að karlmaður stendur uppi með lítið barn en konulaus og þá vitanlega algjörlega bjargarlaus og í nágrenninu vill svo vel til að stödd er hjúkrunarkona eða kennslukona sem aumkar sig yfir einstæðan ósjálfbjarga föðurinn og gengur þessu barni í móðurstað. Allt endar vel, alltaf. Best er ef það koma bækur í svona hálfgerðu framhaldi. Kannski þrjár bækur sem fjalla um þrjá bræður, ein bók um hvern og þá fær maður svona að fylgjast örlítið með persónunum í framhaldsbókunum.

Þetta eru eins og áður sagði, metsölubækur og myndu toppa alla metsölulista ef þær væru hreinlega teknar með í reikningsdæmið. Sem er ekki gert, af því að þetta er talið svo mikið rusl. Þetta hafa verið metsölubækur í Bandaríkjunum í áraraðir eða síðan um 1950. Og einhversstaðar heyrði ég að hægt væri að senda forlaginu Harlequin, Mills & Boons handrit og fá pening fyrir að skrifa slíka bók. Miðað við söluna var þetta talin örugg leið fyrir húsmæður að vinna sér inn ágæta upphæð. En þær urðu að skrifa eftir strangri formúlu sem þær fengu senda frá útgáfunni.

Þessi formúla er ekki ný af nálinni. Hún var með svipuðu sniði í bókum Sögusafns heimilanna, í bókum Barböru Cartland og í Rauðu ástarsögunum, þessum innbundnu sem voru eftir höfunda eins og Sigge Stark og Elsie-Marie Nohr.  Sögusafn heimilanna var til á mínu bernskuheimili. Þar inn á milli voru furðulegar bækur, eins og t.d Arabahöfðinginn. Sem fjallar um konu sem er rænt í eyðimörk af glæsilegum arabahöfðingja sem heldur henni fanginni dögum og mánuðum saman, misnotar hana á hræðilegan hátt en smám saman fella þau hugi saman og gifta sig svo. Og af þessu hafði maður gaman og hefur enn, í laumi að sjálfsögðu.

Aðalheiður er svo ein bókin í þessu sögusafni. Þar er kona sem klæðir sig og hagar framkomu sinni í þeim tilgangi að ganga í augun og þóknast manni sem hún neyddist til að giftast.  Hann vildi í raun ekkert með hana hafa en þurfti að ná sér í titill eða auðæfi, því var þetta svona hagkvæmishjónaband af hans hálfu en hún var hinsvegar að deyja af ást til hans.

Sögusafn heimilanna þyrfti eiginlega sér pistil. Þar er verið að ríghalda í eldgamla stéttarskiptingu, stelpugrey voru kannski öreigar og sáu ekki fram á neina framtíð þar sem ekki var beinlínis biðröð eftir bláfátæku kvonfangi.  En viti menn! Í gömlum kistli undir súð á handónýtu sveitasetri finnst svo fæðingarvottorð sem sýnir að þetta bláfátæka vonlausa stúlkutetur er laundóttir hertogans af Frekjuskarði, einkabarn manns sem er víst forríkur gamall karl á síðustu metrunum í lífinu og þá vænkast nú aldeilis hagur einhleypu og fátæku barónanna í nágrenninu.

Við viljum öll fá góðan endi. Ég er beinlíns komin á þá skoðun að það sé ljótt að tala niður til svona skáldsagna sem seljast dag eftir dag. Eitthvað er við þessar bækur, annars væru þær ekki svona vinsælar. Ég er eiginlega viss um að Ás útgáfan er sú bókaútgáfa sem hefur verið rekin á sömu kennitölunni lengst af öllum bókaútgáfum á Íslandi. Og geri aðrar útgáfur betur. Ég veit satt best að segja ekki hvað það er sem gerir bækur eftir Jón Kalman, Gyrðir Elíasson eða Auði Jónsdóttir eitthvað að meiri bókmenntum en Rauða serían.  Ættum við ekki bara að fara að hætta þessu bókasnobbi og kalla bækur bara bækur? Og segja eins og gamla kellingin í bókinni sagði: „það er sama hvaðan gott kemur“. Því viðurkenni ég vanmátt minn og segi: “Ég heiti Lilja, ég les Rauðu seríuna.”

Lestu þetta næst

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...