Skinheilög goð í samtímasnúning

Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri býður nú upp á nýja uppfærslu af Snorra – Eddu í Þjóðleikhúsinu en handritið skrifaði hann ásamt Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Jóni Magnúsi Arnarssyni, en þau hafa áður skrifað leikgerð Rómeó og Júlíu árið 2021. Edda var frumsýnd annan í jólum en þarna er á ferðinni skemmtileg útfærsla og óður til okkar merkilega menningararfs; norrænu goðafræðinnar og sagnanna sem litað hafa þjóðina og sem tala ennþá svo sterkt til okkar, enda goðin svo lík okkur á margan hátt.

Þorleifi virðist líða best við að skapa stórar uppfærslur þar sem allt er dregið upp til að skapa sem mestan viðburð, ákveðið sjónarspil. Í Eddu bregður hann ekkert út af vananum.

Tónlistin í hlutverki

Salka Valsdóttir sér um tónlistina í verkinu ásamt Agli Andrasyni. Egill Andrason rammar verkið fagurlega inn með söng sínum við upphaf heimsins í ginnungagapi og svo í endalokunum, ragnarökunum óumflýjanlegu. Rödd hans er hljómmikil og tær en hann er á sviðinu allan tímann í hlutverki söngvaskálds þar sem hann leikur á hin ýmsu hljóðfæri og skapar rétt andrúmsloft hverju sinni með töfrum tónlistarinnar. Það er skemmtileg viðbót við slíkt verk að gefa tónlistinni sitt rými, gera hana sýnilega, ef svo má segja, því hún leikur lykilhlutverk.

Edda þjóðleikhúsið

Heimurinn fullkomnaður í samspili

Það er þó ekki einungis tónlistin sem skapar ákveðna stemmingu heldur nýtir teymið sér reykvélar, ljós og svo heljarinnar snjókomu til að gefa áhorfendum nístandi og dulúðlega innlifun á örlögum, baksögu og átökum norrænu goðanna. En það eru þau Vytautas Narbutas og Ásta Jónína Arnardóttir sem skapa umgjörðina í samspili sín á milli ásamt búningahönnuðunum Kareni Briem og Andra Unnarssyni. Búningarnir bera það með sér að vera úthugsaðir í gegn og tekst hönnuðum oft fullkomlega að skapa sterka ímynd, þá sérstaklega má nefna búning Loka sem er eftirminnilegur og óþægilegur og búning Friggjar, en hún er íklædd fagurmótuðu blúnduverki sem tónar  síðan við soninn Baldur, en sá vekur hugrenningartengsl til raunveruleikastjörnunnar Patreks Jaime. Síðan má einnig nefna búning Þórs sem er svo innilega lúðalegur í hermannalitum og buffaló skóm og gefur persónusköpuninni sérstaka og mikilvæga dýnamík.

Umhugsunarverð málefni borin á borð

Verkið og umfjöllunarefnið er umfangsmikið enda mikið í það spunnið. Mér líður samt í raun eins og ég þyrfti að sjá það aftur til þess að ná öllum tengingunum og skilaboðunum. Mér finnst ég nánast ekki ná að rýna í verkið almennilega þar sem sýningin er svo margslungin, en þarna er litið inn á margar persónur og stór málefni.  Stundum læðist vottur af prédikun en  vegna breysku goðanna rennur hún í betri árfarveg.  Þarna er áhorfendum ýtt í umhugsun um málefni á borð við heimilisofbeldi, ofbeldi í víðari skilningi, stríð, feminísma, móðurhlutverkið og náttúruspjöll. Þá má nefna mjög sterkar og áhrifamiklar senur eins og þegar Þór slátrar öllum jötnunum og Loki spyr hann hvort það hafi verið nauðsynlegt að drepa börnin líka, sena sem stingur og minnir okkur óþægilega og óneitanlega á morðin á ungum börnum og öðrum saklausum borgurum í Palestínu sem eiga sér stað akkúrat þessa stundina. Þarna taka höfundar hetjuna og snúa henni snilldarlega við. Einnig má nefna lokaeinræðu Óðins sem er einnig gríðarlega áhrifamikil og skilur áhorfendur eftir með vangaveltur í marga daga eftir á.

Edda þjóðleikhúsið

Persónumótun stórgóð og athyglisverð

Leikhópurinn er góður og augljóst að reynt hefur verið að nýta styrkleika hvers leikara. Þá ber Atli Rafn af sem Loki Laufeyjarson, og kannski hjálpar það einnig að þar er á ferðinni ein skemmtilegasta persóna sem hægt er að fá að túlka. Að auki var Þuríður Blær mjög grípandi Sif, en sársauki hennar og óöryggi snerti hjartastreng. Síðan má nefna Guðrúnu Gísladóttur sem Frigg en hún sogaði til sín athygli og áheyrn með firnasterkri túlkun, en ég held mér hafi aldrei þótt Frigg jafn áhugaverð og eftir þessa sýningu. En túlkun á öllum persónum var góð og má segja að viss dýpri skilningur fáist á goðunum okkar með þessari sýningu en þarna má sjá mörg þeirra eins og við höfum aldrei séð þau fyrr. Þá er mótunin á Þór alveg sérstaklega áhugaverð og spila þar inn í margir þættir, bæði túlkun Hallgríms Ólafssonar, samleikurinn við Þuríði Blæ sem leikur Sif eiginkonu Þórs , búningurinn og  svo leikstjórn og handrit auðvitað. Breyskleiki Þórs er hér í forgrunni en hann fær í þessu verki að endurspegla eitraða karlmennsku.  Arnar Jónsson er auðvitað frábær Óðinn, rödd hans kraftmikil og skýr en Óðinn fær kannski enga nýja vídd á sig í þessu verki, hann kemur okkur fyrir sjónir á nokkuð klassískan hátt. Almar Blær Sigurjónsson leikur Baldur og hugrenningartengsl mín til Patreks Jaime þótti mér einkar vel til kominn sem vísun í fegurðarstaðla nútímans. Kjartan Darri var mjög skemmtilegur Heimdallur sem hélt sögunni saman mjög yfirvegaður og kúl en þó með dass af innra ógeði þar sem hann minnir helst á einhvern spilltan athafnamann beint upp úr norsku Exit seríunni. María Thelma er Iðunn og Hel, Ólafía Hrönn leikur Sigyn og  skrímslamóðurina Angurboðu, Vigdís Hrefna er Freyja og túlkar hana mjög kalda og klækjótta, Sigurbjartur Sturla er bróðir hennar Freyr, Pálmi Gestsson og Þröstur Leó eru ýmis dúó eins og Huginn og Muninn og dvergarnir Brokkur og Eitri og síðan er það höfundur sviðshreyfinganna sjálfur Ernesto Camilo Aldazábal Valdés sem túlkar Fenrisúlf, sem að mínu mati hefði mátt fá enn stærra pláss þegar hann dansar ragnarökin í lok verksins.

Edda þjóðleikhúsinu

Stórmerkileg og stórfengleg en ekki fullkomin

Sumt hefði mögulega mátt missa sín vegna umfangs efnisins en ég skil að teymið hafi verið að reyna að létta á þungum umfjöllunarefnum með nokkrum húmorískum augnablikum hér og þar, þetta er jú þungavigtarverk og einræðurnar margar, sumar eru frábærar og kraftmiklar en aðrar falla í valinn og gleymast vegna þess hve mikið er í gangi á sviðinu og í sögunni.  Mér þótti léttu augnablikin mjög skemmtileg í augnablikinu en eftir á að hyggja þá skekktu þau örlítið heildarmyndina. Ég hefði þar að auki viljað heyra meira af frumsaminni tónlist, en tilraun leikstjóra til að tengja meira við nútímann með þekktum dægurlögum verður á stundum smá hjákátlegt og stingur í stúf við aðra umgjörð verksins.

Lifandi leikhús

Annars fékk ég þær innherja upplýsingar að Þorleifur vinni á þann hátt að verkið skuli ávallt vera í stöðugri mótun, jafnvel eftir að æfingarferlinu lýkur. Engin sýning er því eins og það er því í raun ekki fyrr en á lokasýningunni sem að verkið hefur verið fullkomnað, eða endanleg útkoma fæst. Hann á það til að breyta ýmsum atriðum og því er ekki víst að þið sjáið sömu sýningu og ég. Leikhúsið er lifandi.

Edda er grípandi og margbrotið verk sem að talar sterkt til áhorfenda en mótunin á efniviðnum er merkilega unnin. Þetta er sýning sem verður í huga þér í marga daga eftir áhorf.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.