X eftir Alistair McDowall
Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur sínar af því að ekkert hafi heyrst frá jörðu í þrjár vikur. Ray bendir henni á að auðvitað komi einhver að sækja þau, enginn myndi senda allar þessar dýru græjur til Plútó til þess eins að yfirgefa þær og áhöfnina með.
Við erum úti í geimi, í geimskipi sem er lent á Plútó. Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu hefur á magnaðan hátt breyst í nútímalegt geimskip, með stórum glugga sem vísar út í tómið, tölvum og mælum, átthyrndu borði og stórri stafrænni klukku. Heima á jörðinni eru fuglar hættir að fljúga, og tré hætt að vaxa. En á geimskipinu hættir tíminn að líða þegar endalaus bið er það eina sem stendur geimförunum okkar til boða. Okkur birtist X á vegg, á munni, í stærðfræði og tölum. Tíminn teygir úr sér.
X
X er hin óþekkta stærð, hið ósagða. X er tíminn sem líður eða líður ekki, X er allt sem við vitum ekki og munum aldrei vita. X fylgir okkur frá upphafi og út yfir endalok verksins. Eftir því sem hringiða ranghugmynda og óráðs eykur spennuna er áhorfandi hrifinn með þar til hann sjálfur veit ekki hvað klukkan er, hvort hann komist aftur heim og hvað bíður hans þegar heim er komið.
X
Sviðsmyndin er mikið listaverk, en Sigríður Sunna Reynisdóttir sér bæði um hana og búningana. Sigríður Sunna hefur á undanförnum árum boðið upp á hvað fallegustu og fjölbreyttustu sviðsmyndir í nútímaleikhúsi, sem eru jafn fjölbreyttar og þær henta vel efni hvers verks fyrir sig. Ekki þarf að leita lengra en í uppsetningu Borgarleikhússins á 1984 eða Tvískinnungi til að sjá fjölbreytni og túlkunarhæfni sviðshöfundar. Búningarnir eru líka glæsilegir, en áhöfnin er klædd akkúrat eins og almenningur ímyndar sér að geimfari myndi klæðast, en þeir eru um leið fallegir. Örlítil fjölbreytni í fatnaði leikara hjálpar áhorfendum svo að tímasetja sig og stökkva á milli sena með einföldum og áhrifaríkum hætti.
„Ekkert bragðast betur en hugsandi vera á fæti“
X
Textinn er vel þýddur og rennur vel, samtöl eru ótrúlega raunveruleg. Verkið er í grunninn einnig vel skrifað og passar höfundur að sýna það sem áhorfandi þarf að vita í gegnum samtöl en ekki með því að útskýra um of. Marianna Clara Lúthersdóttir skrifar svo um Alistair McDowall á vef Borgarleikhússins: „sem ungur drengur hafði hann gríðarlegan áhuga á bíómyndum og dreymdi um að verða kvikmyndagerðarmaður.“ Þessi áhugi höfundar á kvikmyndum sést vel í verkinu en ómögulegt var að hugsa annað en að þetta leikrit væri eins og bíómynd á sviði. En það að setja upp hrollvekjuverk á Nýja sviðinu er algjör snilld. Rýmið er lítið, realisminn er sterkur og manni rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar áhöfnin fór að sjá undarlegar sýnir, missa tengsl við raunveruleikann og enginn vissi hvað var og var ekki að gerast í raun.
X
Leikarar standa sig ótrúlega vel, ekki eitt feilspor er stigið í leik og orkustigi. Björn Stefánsson hrífur áhorfendur með sér strax frá byrjun sem hinn dólgslegi Clark, ungur maður sem tekst á við einangrunina í geimnum með því að vera eins pirrandi og hann getur til að fá samferðafólk sitt til að sýna viðbrögð. Bergur Þór Ingólfsson er sannfærandi í hlutverki reynslumikla Rays, sem er hræddari við að hafa ekkert að snúa heim til en að vera fastur á Plútó. Þá er Sveinn Ólafur Gunnarsson góður í hlutverki hins kassalaga Cole, og dýptin sem hann veitir persónunni er áhrifarík. Sólveig Arnarsdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir standa upp úr í hlutverkum sínum, sérstaklega þegar þær leika hvor á móti annarri. Leikstjórn Unu Þorleifsdóttur mótar verkið í þétta og spennuþrungna upplifun, og ljóst er að sýn leikstjóra er sterk og fylgt vel eftir af leikurum og listrænum stjórnendum. Þá er vert að nefna að lýsing Fjölnis Gíslasonar og hljóðmynd Þorbjörns Steingrímssonar eru ómissandi partur af verkinu, en ókennilegt andrúmsloftið sem skapast rammar sálfræðitryllingslega upplifunina inn og fylgir henni eftir út í gegn.