Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég efni fyrirheit mín til nokkurra mánaða; að skrifa lestrarpistil um reynslu mína af því að lesa heildarverk Juliu Quinn, höfundar Bridgerton. Sá lestur tók um hálft ár og fór fram á símanum mínum, meðfram búferlaflutningum milli landa, endurteknu áhorfi á þáttinn Fílsi og vélarnar, sem börnin mín eru afar hrifin af, og löngum dvölum í þvottahúsinu meðan yngri sonur minn horfði dáleiddur á þvottavélar snúast í hringi og beið spenntur eftir því að þær kláruðu og segðu bíp.

 

 

Þegar ég segi að ég hafi lesið þær allar að þá meina ég allar, fyrir utan bækur sem hún hefur skrifað með öðrum, aukaefnisbækur um karaktera og fyrstu bókina í Bridgerton seríunni, af því að ég hataði þættina og langaði ekki að lesa neitt um hið vemmilega par, Daphne og Simon. (Ég tek það fram að ég var svo til í þetta þegar ég byrjaði að horfa, ég elska froðu. En, bara, nei, og það væri efni í annan pistil sem á kannski ekki heima á Lestrarklefanum.)

Mikill ánægjulestur, svona mestmegnis

Bækur Quinn eru vissulega margar en þær eru stuttar, ég held ég sé kannski sirka 5 klukkutíma að lesa hverja en það er þó erfitt að meta, vegna ofangreindra kringumstæðna við lesturinn. Þetta er kannski ein helsta ástæða þess að ég er hissa á því að bækurnar hafi verið gerðar að sjónvarpsþáttum, seríur þurfa mörg samtvinnanleg plott og ákveðinn fjölda karaktera. Bækur Quinn eru í hæsta máta einfaldar, það er aldrei neitt hliðarplott, bara lauslegur bakgrunnur fyrir aðalplottið. En það gerir þær afar ákjósanlegar til aflestrar meðan maður hefur annað augað á einlægum en síkvikum aðdáanda þvottavéla. Ég myndi segja að þetta hafi verið mikill ánægjulestur, svona mestmegnis, fyrir utan síðasta hluta lestrarferðalagsins. Þá fannst mér ég þurfa að klára það sem ég hafði byrjað á, að lesa allar bækur höfundar, og las þá þessar 5-6 bækur sem hún skrifaði á undan Bridgerton seríunni. Og guð minn góður, þær voru svo slæmar að þær ollu mér vanlíðan. Mæli ekki með.

Ef þið hafið áhuga á að demba ykkur út í þetta þá er lykilatriði að draga mörkin við bækur skrifaðar eftir aldamótin 2000. (Sem er annar ókostur við þessar bækur. Margar þeirra eru bara orðnar mökkgamlar).

Mistækar seríur

Að öðru leyti get ég ekki gefið neinar skýrar línur fyrir lestrarævintýri ykkar með Juliu Quinn. Það undarlega er nefnilega að hún getur skrifað bara mjög fína bók og svo er næsta bók í seríunni glötuð. Að mínu mati á hún enga seríu sem er skotheld í heild sinni, sú sem kemst næst því er kannski Bevelstoke serían. (Í henni voru samt engar bækur sem mér fannst endilega framúrskarandi skemmtilegar, svo kannski jafnast þetta út.) Hluti af vandamálinu er kannski að Julia Quinn virðist dálítið hrifin af karlkarakterum sem eru óþolandi. En það sést oftast auðveldlega á bókarlýsingunni hvort bókin sé líkleg til að vera skemmtileg eða ekki, en hvað get ég sagt, mér leiddist herfilega í þvottahúsinu og þessar rafbækur kosta ekkert á amazon. Það var því alltaf auðvelt að réttlæta eina bók í viðbót og svo aðra.

Er þetta gott-vont, eða vont-vont?

 Julia Quinn er sérstakur höfundur að því leyti að hennar helstu styrkleikar og veikleikar eru nátengdir. Hún er tæknilega séð ekki mjög góður höfundur (karakterar standa tvisvar upp úr sama stólnum til dæmis) en henni tekst samt að láta bækurnar rúlla og lesandann fletta. Hún er alls ekki hnyttin, sem er skelfilegur ókostur því hún er alltaf að reyna að gæða persónur sínar hnyttni, en hún hefur sjarmerandi og skemmtilegan aulahúmor.

Hún hefur engan, alls engan, skilning á fortíðinni í sögulegu ljósi og allir karakterarnir eru nútímafólk í gamaldags aðstæðum. Það sem kannski pirrar mig mest og ítrekað er viðhorf til samkynhneigðar karlmanna í þessum bókum. Stundum eru aukapersónur samkynhneigðar og gagnkynhneigðu körlunum finnst það mjög skrítið (því þeir eru uppi í gamla daga) en sýna því samt virðingu og skilning (því þeir eru góðir gæjar). Sömu gagnkynhneigðu karlar vísa oft og ítrekað til æsku sinnar í einkynja heimavistarskólanum Eton og hvað þeir eignuðust góða vini þar. Eins og ég segi þá eru bækurnar orðnar nokkuð gamlar og það var kannski ekki jafn almenn vitneskja árið 2003 og 2023 hvað gekk á í þessum skólum. (Kynhneigð fyrir nútímavæðingu var ekki hluti af sjálfsmynd heldur aðstæðum, en einnig aldri. Söguhetjur Juliu Quinn hefðu því haft mun meiri reynslu af kynlífi og líkamlegri nánd með öðrum karlmönnum en meðalmaðurinn á Tinder í dag). Styrkleiki Juliu Quinn liggur hins vegar í því að hún er læknismenntuð og hefur greinilega mikinn áhuga á þróun læknavísinda í sögunni. Það er því alltaf skemmtilegt nördatvist þegar persónur glíma við slys eða veikindi.

 

Hún hefur líka greinilega áhuga á að skrifa bækur um sjálfstæðar konur í heftandi samfélagi en það má deila um hversu vel það takist. Elstu bækur hennar eru illa haldnar af syndróminu „not like other girls“ þar sem söguhetjan er gædd ýmsum góðum eiginleikum sem setja hana skör ofar öðrum ungum konum sem eru, „empty  headed debutantes“. Þeim leiðist auðvitað líka að sauma enda algjör tímasóun. Julia Quinn má þó eiga það að bækur hennar breytast í takt við tímann og þetta er ekki lengur jafn áberandi í nýjustu bókum hennar. Í fjórðu Rokesby bókinni er til dæmis handavinnu einnar konunnar hrósað mjög og gefið í skyn að þetta séu sömu listrænu hæfileikar og birtast í sonarsyni hennar sem er ein af söguhetjum Bridgerton seríunnar og verður mikilsverður listmálari.

Í bókunum felst líka ákveðin rómantík í því að vera varnarlaus kona. Karlhetjurnar ávíta kvenhetjurnar reglulega fyrir það að vera einar á ferli, þær gætu lent í klóm nauðgara. Þetta vita þeir betur en þær því þeir eru búnir að sofa hjá milljón óperusöngkonum og öðrum léttúðardrósum sem þeir tengdust ekkert tilfinningalega en þær vita ekki einu sinni hvað kynlíf er. Þetta finnst mér afskaplega ósjarmerandi. Juliu Quinn til afsökunar fjallar þó ein af nýrri bókum hennar um konu sem er beinlínis rænt af valdasjúkum vonbiðli um hábjartan dag í fylgd siðgæðisvarðar og missir svo orðspor sitt þrátt fyrir að takast að sleppa með hetjulegum hætti. Konur geta gert allt „rétt“ en það er aldrei nóg. 

Konurnar í bókum Juliu Quinn geta ekki keypt bækur sem þær langar í, því þær eru eingöngu seldar í bókabúðum fyrir karlmenn, eða stundað nám. Þetta reddast þó allt því að karlmennirnir sem þær elska eru svo næs að þeir kaupa bara bókina fyrir þær eða lána þeim námsbækurnar sínar. Óréttlæti samfélagsins gefur karlhetjunum tækifæri til að sýna göfuga hegðun gagnvart konum, rétt eins og þeir eru skilningsríkir gagnvart samkynhneigð. Þó að Quinn hafi losað sig við „not like other girls“ klisjuna er vel hægt að lýsa karlpersónum sem „not like other boys.“ 

 

Kynlífslýsingar á mörkum hins þolanlega

Svo er það auðvitað þetta með kynlífslýsingarnar. Bridgertonþættirnir eru frægir fyrir að vera uppfullir af kynlífssenum og þó þær séu ekki jafn ótrúlega margar í bókunum (enda stuttar) þá eru kynlífslýsingar óneitanlega kjarninn í þessari bókmenntagrein. Það sem háir þeim allverulega hjá Juliu Quinn er forsenda bóka hennar, sem eru reynslulausar og ofverndaðar konur og karlmenn sem eru hoknir, já hoknir, af reynslu. Þetta er óneitanlega endurtekningarsamt og auðvitað líka meira en lítið perralegt. Einnig notast Julia Quinn ítrekað við skelfilegar orðahækjur í kynlífslýsingum sínum og það eina sem gat bjargað mér frá að deyja úr aulahrolli þegar frasinn „primitive rythm“ réðist á sjónhimnur mínar var að skima lauslega yfir þessa hörmung, með annað augað kyrfilega á Fílsa og snjóblásaranum.

Já, þegar það er slæmt er það ansi slæmt eins og heyra má en Julia Quinn á sér samt sína góðu spretti og henni hefur einnig tekist að skrifa ágætis kynlífssenur. Eins og áður er sagt er frekar auðvelt að sjá það á blörbinu hvort bókin sé skemmtileg eða ekki en til gamans ætla ég að taka hér saman nokkrar bækur hennar eftir tveimur þemum. Annar flokkurinn nær yfir bækur þar sem elskendurnir eru EKKI reynslulaus ofvernduð kona og sjálfsöruggur kvennabósi og hinn tekur saman bækur þar sem persónurnar lesa skáldsögur eftir uppskáldaðan gotneskan metsöluhöfund að nafni Sarah Gorely.

Bækur þar sem þær eru ekki að gera það í fyrsta sinn eða hann er ekki hokinn af reynslu:

  • To Sir Philip, With Love (Bridgerton 5).
    Ókei jú, hún er að gera það í fyrsta sinn en mig minnir að hann hafi haft frekar takmarkaða kynferðisreynslu sjálfur, verandi ekkill úr óhamingjusömu hjónabandi

 

  • When He Was Wicked (Bridgerton 6).
    Hérna er hún ekkja og hann, eins og titillinn gefur til kynna, hinn versti flagari.

 

  • First Comes Scandal (Rokesby 4).
    Ein af mínum uppáhalds, Nicholas er svo mikið krútt og Georgie skemmtileg. Á mjög Juliu Quinn-legan hátt gerist eiginlega ekkert í bókinni annað en að þau glíma við ferðalag í hestvagni með ólmum heimilisketti og hann hlustar á hennar eigin álit á heilsufari sínu, þvert á álit kennarans hans í læknisfræði. En einhvern veginn er það bara alveg nóg.

 

  • A Night Like This (The Smythe-Smith Quartet 2).
    Þessi fannst mér ekkert svo skemmtileg en kvenhetjan er fallin kona og uppfyllir því skilyrði flokkunarinnar.

Humm ég held að þær bækur sem uppfylli þessi skilyrði séu í alvörunni ekki fleiri en 4, af þeim 27 bókum sem ég hef lesið. Vandræðalegt. Tek samt fram að það er svona hálft ár frá því að ég las herlegheitin og ég gæti vel hafa gleymt einhverju!

Bækur þar sem persónur ýmist hneykslast eða skemmta sér yfir skáldsögum Söruh Gorely
(Miss Butterworth and the Mad Baron er þeirra frægust):

  • It‘s in his Kiss (Bridgerton 7)

 

  • Just Like Heaven (The Smythe-Smith Quartet 1)

 

  • The Secrets of Richard Kenworthy (The Smythe-Smith Quartet 4). Eða mig minnir að þau lesi smá…

 

  • What Happens in London (The Bevelstoke Series 2)

 

  • Ten Things I Love About You (The Bevelstoke series 3)

Ef ég ætti að súmmera upp bækur Juliu Quinn þá myndi ég gefa þeim stimpilinn fín en mistæk skemmtun. En mikið óskaplega á hinn enskumælandi heimur bágt ef þetta er þeirra Margit Sandemo…

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...