Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri, japanskri fjölskyldu, þar sem allir biðu þess að þú hegðaðir þér rétt? Þú kannt ekki allar reglurnar, og þær sem þú kannt skilurðu ekki, en þú verður samt að fylgja þeim. Hvað myndirðu gera? Stúlkubarnið/geimveran Natsuki stendur frammi fyrri þessari miklu þraut, en hvað er til ráða?
Geimverustelpa
Þetta var skrítin bók. Mjög skrítin. En líka góð. Hún fjallar um japönsku konuna Natsuki, sem trúir því staðfastlega að hún sé í raun geimvera og bíður þess að móðurskipið komi og fari með hana heim. Frá barnsaldri hefur henni liðið svona, en í stað þess að þetta eldist af henni er hún staðföst í trú sinni um sinn rétta uppruna. Við byrjum að fylgjast með Natsuki sem barni, en þegar hún fullorðnast og lesandinn hittir hana á ný er hún gift manni sem hún hitti á netinu og hefur, líkt og hún, ekki áhuga á kynlífi. Pressa samfélagsins á þau bæði að gifta sig gerði það að verkum að þau ákváðu að leika par, en í raun eru þau bara herbergisfélagar, ekki hjón í eiginlegum skilningi. Natsuki fer að eiga sífellt erfiðara með að þykjast vera manneskja, þykjast passa inn í þennan ruglaða heim þar sem allir bíða stöðugt eftir að hún eignist barn. Natsuki rifjar upp erfiða æsku og trámatísk atvik sem spila rullu í hvers vegna hún einangrar sig frá heiminum. Þegar hún segir manninum sínum að hún sé í raun geimvera, og að hún vilji finna löngu týndan frænda sem hún telur að sé líka geimvera, fara óvæntir atburðir af stað.
“Magical powers. I have to summon my magical powers. The power of darkness, the power of wind—any magical power will do, but I need something. I have to use my magical powers on my whole body before my heart feels anything.”
Samfélagslegt fangelsi
Höfundur gagnrýnir áherslu samfélags síns á þá kröfu að allir eigi að falla í hópinn og fara eftir óskrifuðum reglunum samfélagsins, og tekst mjög vel að sýna fáránleika þess sem krafist er af konum í dag. Þá er auðvelt að yfirfæra tilfinningar Natsuki á konur á Íslandi, þar sem pressa á barneignir, rétta gerð af fjölskyldueiningu, starfsframa og útliti er einnig hörð, svo hörð að margar konur eru að bugast undir pressunni að vera fullkomnar á öllum sviðum eftir þröngt sniðnum stakk kapítalismanns. Í Japan, sem og víðsvegar um heiminn eru konur sem falla ekki að skilgreiningunni um „konu“ í hinu samfélagslega samhengi að bugast undir kröfum um fullkomnun. Meira að segja konur sem langar að eignast mann og börn eru undir pressu að þær séu samt ekki að eignast nógu mörg eða flott börn, að íbúðin þeirra sé ekki nógu hrein og að þær séu ekki með flottan frama á kantinum, og konur sem eru kannski hinsegin eða hafa bara ekki áhuga á barneignum eða frama eða íbúðarkauðum og þrifum eru svo gott sem fucked. Þá er allt eins gott að vera bara geimvera og bíða móðurskipsins.
Tráma
Burt séð frá því, þá fara fæstar þeirra leið Natsuko, að verða í eigin huga geimverur til að skýra hvers vegna þær eru öðruvísi, en það er kannski ekki það vitlausasta sem maður getur ímyndað sér. Við lestur bókarinnar kemst lesandi að því að Natsuko er að öllum líkindum með varnarviðbrögð sem hún hefur þróað með sér vegna heimilisofbeldis og misnotkunar. Þessi bók er öðruvísi nálgun á hvernig börn bregðast við ofbeldi og hvaða aðferðum þau breyta til að blokka út atvik til að ná að lifa af, og hvað getur gerst ef ekki er tekist á við trámað.
Fullkomin fyrir: Skrítinn lestur. Súrrealíska stemningu, kannski eitthvað að lesa í útilegu eða á undarlegum, nýjum stað. Þetta er líka, að ég held, góð bókaklúbbsbók, því það er í það minnsta áhugavert að ræða hana við aðra.