Ætlar þú að lesa hrollvekjur í október?

13. október 2024

Hann er genginn í garð. Annað árið í röð býður Lestrarklefinn ykkur að rúlla með okkur inn í ógnina .. inn í hinn eina sanna .. Hrolltóber.

Rétt eins og í fyrra höfum við tekið saman leslista með alls kyns ógeði og hryllilegheitum til að fagna árstíðinni. Haldið ykkur fast, læsið hurðinni, dragið fyrir og pakkið sænginni þétt að ykkur.

Þegar velja skal hrollvekju

Að mínu mati er mjög vandasamt að velja góða hrollvekju, því þær eru oft bara svo fáránlega lélegar. Ég veit ekki hversu margar bækur ég hef lesið sem hafa verið settar á lista yfir „bestu hryllingbækur aldarinnar“ til þess eins að verða fyrir miklum vonbrigðum. 

Kannski er hugmyndin góð en höfundur skrifaði svo bókina sjálfa mjög hratt og eða af vankunnáttu og enginn fór yfir hana fyrir útgáfu. Eða þetta er svo margtuggin klisja að hún virkar eingöngu á afkomendur Jósefs Fritzls, sem voru fangar í kjallara allt sitt líf og höfðu ekki aðgengi að bókum. Maður spyr sig hvers vegna þetta kom út og hver sé að múta fólki til að þykjast fíla þetta.

Góð dæmi um ömurlegar bækur sem hljómuðu vel (fannst mér) eru: Haunted Forrest Tour (rosalegir fitufordómar og lélegur stíll), Things Have Gotten Worse Since We Last Spoke (Svo góður titill svo lélegt concept) og versta af þeim öllum Somebody needs to do something sem er ein versta bók sem ég hef lesið, og er ekki virði rafmagnsins sem ég eyddi í að lesa hana af símaskjá.

Þá er þetta rant búið, forðist þessar fyrrnefndu bækur sem heitan eldinn. Aðrar sem skal varast eru: I‘m Thinking of Ending Things (svo góð uppbygging bara til að enda í lélegum endaslepptum endi sem dregur úr gæðum sögunnar) og Tell me I‘m Worthless (fín fyrsta tilraun að fyrstu bók með fullt af flottu efni en þarf svo ótrúlega á slípun að halda). 

Snúum okkur nú að listanum sem skiptir máli, þeim yfir bækur sem við mælum með:

Óþægilegar

Poor Deer eftir – Claire Oshetsky 

Margareth Murphy drap bestu vinkonu sína þegar hún var fjögurra ára. Eða hvað? Nú er Margareth orðin fullorðin en hefur allt frá dauða Agnesar vinkonu sinnar verið ásótt af Poor Dear, sem situr á öxl hennar og kúrir í rúminu hennar og hvíslar djúpt í eyru hennar að hún sé morðingi og ógeð. En hversu sek getur fjögurra ára stúlka verið í raun? Og hvernig tekst samfélagið á við hörmulegt slys í litlum verksmiðjubæ þar sem allir þekkja alla og allir vita að Margareth Murphy er morðingi? Hræðilega vel skrifuð bók sem brýtur hjartað og dregur fram ótrúlega ógnvekjandi útgáfu af tráma sem afturgöngu sem sest á herðar þeirra sem lifa af.

Foe – Iain Reid

Undarlegur maður kemur að tómlegum bæ seint um kvöld. Hann vill bjóða hjónunum sem þar búa ótrúlegt tækifæri sem þau geta ekki sagt nei við. Nei, sko í alvöru, þau geta ekki sagt nei. Það er ekki í boði. Þau hjónin eru útvalin í merkilegt verkefni sem teygir anga sína lengra og dýpra en þau gætu ímyndað sér. Þessi saga er stutt og auðlesin og leikur sér með rittækni á skemmtilegan hátt sem mun efalaust kitla þá sem vinna með hið ritaða orð.

Let the right one in – John Ajvide Lindqvist

Sænsk karlkyns vampíra sem hefur lifað í mörghundruð ár í líkama barnungrar stúlku eftir kynfæralimlestingar og gerði samning við barnaníðing til að útvega sér fersk lík í staðinn fyrir kynferðislega greiða. Hinn ungi Óskar býr í nútímanum í sænskum bæ og er lagður í einelti. Mamma hans hefur lítinn tíma fyrir hann og honum líður almennt ekki vel. Þegar dularfull stúlka birtist í bænum hans um svipað leiti og morðum fjölgar finnur Óskar ekki eingöngu nýjan vin heldur einnig hugrekki til að hefna sín á plögurum sínum.

It – Stephen King

Trúðar og barnaorgía? Hvað er óþægilegra en það? Nei án djóks, það hryllilegasta við bækur Stephen King er hversu mikið af skrítnu kynferðislegu dóti er í kring um börn og ungmenni. It er samt frægust fyrir trúðinn Pennywise, sem býr í holræsi og lokkar til sín lítil börn. Hópur barna sem hafa lifað af árásir hans vex úr grasi og vakna einn daginn upp við þann hryllilega veruleika að trúðurinn er kominn aftur, tilbúinn að gæða sér á næstu kynslóð. Og einungis þessi fyrrum börn geta stoppað hann.

Heimsendir

Severance – Ling Ma

Candice Chen er áhugaljósmyndari í New York og vinnur á skrifstofu. Hún hefur misst báða foreldra sína og gæti lifað á arfinum en velur að vinna, fer í vinnuferðir til Kína og er einmana. Þegar vírus herjar á borgina skilur hún ekki hvers vegna hún smitast ekki. Áður en hún veit af er hún ein eftir í borginni. Hvað gerir kona sem er sú síðasta í New York, og kannski í öllum heiminum? Hún tekur myndir af auðri borg og reynir að lifa af. Ef ekki fyrir sig, þá fyrir komandi kynslóð, því þrátt fyrir að vera kannski ein síðasta manneskjan í heiminum er hún ekki kona einsömul.

I am Legend – Richard Matheson

Árið er 1976 og vampírufaraldur hefur skekið mannkynið. Læknirinn Robert Neville stendur einn eftir í borginni. Kannski er hann meira að segja eini maðurinn í öllum heiminum. Eini mennski maðurinn sem hefur ekki umbreyst í hræðilega vampíru. Robert reynir að nota læknisfræðina til að lækna vampírufaraldurinn, skilja hvernig hann gerðist og á daginn drepur hann vampírur hvar sem hann finnur þær. En hvað ef vampírurnar eiga alveg jafn mikinn tilverurétt og Robert? 

Bird Box – Josh Malerman

Góð hugmynd og grípandi saga sem fer mjög hratt af stað. Ég kann að meta að höfundur eyðir engu óþarfa púðri í neitt, okkur er bara hent út í hryllinginn. Aðalpersonan er ólétt, einstæð kona sem býr með systur sinni þegar heimurinn gjörsamlega fer á hliðina. Allt í einu missir fólk sem horfir út vitið og drepur sig þar sem það stendur. Eina leiðin til að lifa af er að sjá aldrei út. Að fara ferða sinna blindandi eða vera innandyra með dregið fyrir.

Í næstu viku birtum við nýjan lista bóka sem eiga líka vel við í hrollköldum mánuðinum. Hvaða bækur hefur þú lesið af þeim sem hafa verið taldar upp hér? 

Lestu þetta næst

Valkyrjur valda óskunda

Valkyrjur valda óskunda

Þegar ég var krakki sótti ég rosalega mikið í ævintýrabækur og furðusögur. Það voru bækurnar sem...

Upp og niður stiga

Upp og niður stiga

Ljóðakollektívið Svikaskáld er orðið flestum kunnt enda hafa nú fæðst fimm skáldverk frá þessari...