Mikil gleði fyllir hjarta mitt sem áhugamanns um náframtíðarvísindaskáldskap (e. speculative fiction) við lestur skáldsögunnar Breiðþotur sem kom nýlega út og kítlar spekúleringartaugarnar.

Breiðþotur er fyrsta skáldaga Tómasar Ævars Ólafssonar sem áður hefur gefið út ljóðabókina Umframframleiðsla (2021) og starfar við dagskrágerð á Rás 1. Bókin ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur kastar fram spurningunni: Hvað hefði gerst og myndi gerast í kjölfar svaðalegs gagnaleka sem setur allan heiminn á hliðina?

Hvað ef heimsbyggðinni yrðu veitt tíu ár til að sporna við hlýnun jarðar á almennilegan hátt, og takist það ekki muni annar gagnaleki skekja stoðir veruleikans. Hvað gera þrír ungir vinir í litlu þorpi á Austurlandi í kjölfarið? Litla þorpið þeirra springur, fjölskyldur splundrast, skólakerfið fellur, uppgangur fasisma, trúarofsi og sáluhjálp, skilnaðir, söknuður, vinátta og ást eiga sögusviðið í þessari spennandi bók.

Börn á tímamótum

Í upphafi bókar er þorpslífið hversdagslegt en þau Loftur, Umbi og Fransiska eru lengi í paradís. Einn daginn eru vinirnir að ráfa um bæinn og leika ímyndunarleiki, en þann næsta hefur allt gjörbreyst. Internetið hefur verið flett klæðum og öll persónuleg samskipti allra á netinu eru nú ekki lengur einkamál. Nektarmyndir, daður, fjárglæfrar, fjölskylduleyndarmál – allur pakkinn er uppi á borðinu. En það áhugaverða er að lesandi fylgist með þessum atburðum í gegnum augu táninga, ekki hinna fullorðnu, og áhrifin sem þessi afhjúpun hefur á fjölskyldulíf barnanna er í brennidepli.

Í áranna rás

Bókinni er skipt í hluta, sem hver og einn fjallar um sína persónuna. Í upphafi hittum við fyrir Loft, ungan dreng, sem á besta vininn Umba, og vinkonuna Fransisku. Þegar lekinn skellur á bregðast þau hver og eitt við á sinn hátt. Svo líða árin. Þá er sjónsviði Lofts skipt út fyrir vini hans, og annað sjónarhorn veitir lesanda aukna innsýn í heim bókarinnar. Lesendur fylgjast með því hvernig heimurinn reynir að sporna við því að lenda í öðrum gagnaleka, stjórnvaldaástandið stendur, fellur, riðar og allt þar á milli, og fasismi og andóf skjóta upp misljótum hausum. Einstaklingshyggja tekst á við fasískt hópefli, gömul gildi eru upphafin, lönd verða að einhverju sem þau voru ekki áður.

Allt sem rafmagnið huldi og allt sem varð þögninni að bráð, átti eftir  að koma æðandi upp á yfirborðið. Opinberast. Afhjúpast. Gögnin voru  á leiðinni. Stafræn, í hljóði og mynd, rituð. Svart blek á hvítum pappír.  Svartar bylgjur á pólýester filmum. Svartir stafir á upplýstu gleri.  Forleikur að söngvum eldsins. 

Verkið verður ekki leiðigjarnt þar árunum er skipt upp á óvæntan hátt, og höfundur kann vel að fylgja þeim þráðum sem vekja athygli og skilja aðra eftir órannsakaða. Þá eru skiptin á sjónarhornum góð og vel tímasett og þó vísað sé í sömu atburði er aftur passað að fara ekki að endursegja um of. Lýsingin á internetinu og þeim óskapnaði sem kynslóð höfundar gróf upp þar á mótandi árum raunsæ og áhrifarík, sem og lífið sem barn á undarlegum tímum yfirvofandi hamfara og heimsenda, hlýnunar jarðar og loftslagsváar.

Þá fannst mér vinasamband Jóku og Fransisku mjög fallegt og vel skrifað, gallar og kostir Fransisku sem manneskju virka einnig sannfærandi og vel. Vináttu er lýst sem marglaga og fallegu fyrirbæri, og það hvernig hún þróast eða stendur í stað eru listilega gerð skil. Það er aðdáunarvert að sjá höfund gefa vinaást og samböndum svona mikla nánd og hafa þau jafn mikilvæg og við þekkjum úr raunheimi en sjáum ekki alltaf á prenti.

Fleiri Breiðþotur

Það eina sem ég myndi vilja er hugsanlega að fá að eyða meiri tíma með Lofti um miðbik bókar, en það er svosem græðgi í mér. Það er alltaf betra að vilja meira en er í boði en að fá leið á því sem býðst. 

Breiðþotur eru löng og djúsí bók sem ég las hratt, hún rennur vel, er skemmtileg og launfyndin, sem og átakanleg og djúp. Orðalagið er fallegt, málið sannfærandi og vel nýtt, og ný hugtök eru kynnt áreynslulaust inn í textann.

Til hamingju Tómas Ævar með frábæra fyrstu bók, ef þú ert að pæla í að skrifa framhald mæli ég eindregið með því. 

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...