Segulmagnaður einleikur

19. janúar 2025

Ífigenía var dóttir Agamemnon konungs í grískri goðafræði. Samkvæmt sögunni var henni fórnað af föður sínum til að friða Artemis eftir að Agamemnon drepur einn af hjörtum gyðjunnar. Þessi fórn var nauðsynleg Agamemnon til þess að sigra í Tróju stríðinu. Í sumum útgáfum af sögunni er hún drepin en í öðrum er henni bjargað af Artemis. 

Ífigenía í Ásbrú, í samnefndri uppsetningu á verki Gary Owens í Tjarnarbíó, færir heiminum einnig ákveðna fórn, þó að sú fórn sé af eilítið öðrum toga. En á sama hátt og hjá fyrirmyndinni er fórn Ífigeníu á 21. öldinni færð í kjölfar atburða sem urðu vegna mannlegra mistaka. Verkið var fyrst sett upp árið 2015 og heitir það á uppruna málinu Iphigenia in Splott. Í upprunalegu útgáfunni  býr aðalpersónan í Cardiff í Wales. Hér hafa Þórey Birgisdóttir og Anna María Tómasdóttir, leikstjóri, staðfært Ífigeníu í Ásbrú í Keflavík og út frá búsetu hennar og klæðaburði spilast óhjákvæmilega inn í verkið ákveðin ádeila um stéttaskiptingu.

Litrík tragedía

Verkið hefst á því að Ífigenía stormar inn í salinn með brussugangi og látum. Hún heilsar kumpánlega, það sést strax að hún er litríkur og stór karakter. Áhorfendur skynja samt líka frá upphafi að þetta verk verði tragedía. Fas hennar gefur það samt ekki endilega til kynna, hún er létt í skapi og grínast mikið. Húmorinn er hennar gríma. En það er samt eitthvað melankólískt á bak við fasið og við það hvernig hún sér samfélagið í kringum sig. Smátt og smátt fá áhorfendur meiri innsýn í líf Ífigeníu, eða Ífi eins og hún er kölluð, og þeir soga hvert orð í sig með öndina í hálsinum. 

 Skelfileg og heillandi á sama tíma 

Verkið er ákveðin rússíbanareið sem fer upp og niður tilfinningaskalann og spilar hljóð- og ljóshönnun þar mikilvægt hlutverk til að undirbúa áhorfendur fyrir það sem koma skal. Kristín Hrönn Jóndóttir sér um hljóðhönnun og hefur hún passað sig að hafa hana  einfalda til að undirstrika, en ekki yfirgnæfa, rödd Ífigeníu. Ljósahönnunin í höndum Ástu Jónínu Arnardóttur gerir það að verkum að hár Ífigeníu sem er hátt upp í tagli vekur oft og tíðum hugrenningartengsl til fjallkonunnar þegar á það skín í dramatískustu senunum –  eitthvað sem gæti verið tilviljun en minnir á hversu kvenleg saga hennar er. Þó Ífigenía sé kannski ekki þokkafull á saga hennar erindi. 

Í fyrstu eru áhorfendur óvissir hvert förinni er heitið en orkan verður sífellt meiri og aðdráttaraflið sterkara þegar líður á. Þórey Birgisdóttir hefur lagt allt sitt í hlutverkið og er Ífigenía í höndum hennar mjög marglaga og eftirminnileg. Hún er brotin og beygð en á sama tíma er kraftur í henni og segulmögnun. Ífi er bæði skelfileg og heillandi á sama tíma. Sagnagleði persónunnar og vel mótað handritið skapa heildstæða mynd sem skilur mikið eftir sig, bæði vangaveltur eftir sýningu og djúpan trega.

Staðsetningin mikilvæg

Staðsetning Ífigeníu í Ásbrú er mikilvæg og hvernig hún staðfestir strax hvernig áhorfendur sjá hana út frá stereótýpískum hugmyndum samfélagsins. Hluti af tragedíunni er auðvitað hvernig Ífi lætur undan og gefur sig á vald þess umhverfis sem hún hrærist í. Hún sér enga leið út, svo hún verður hluti af hnignandi umhverfinu. Lokahnykkur tragedíunnar verður síðan vegna þess ójafnvægis og misréttis sem samfélagið hefur skapað.

Án þess að segja of mikið að þá mun saga Ífigeníu stuða marga og þarna er sterk ádeila á heilbrigðiskerfið og stöðu einstaklinga eftir stétt sem talar einstaklega vel inn í íslenskan samtíma. Þetta er virkilega beitt leikhús, með ótrúlega vel skrifuðu handriti sem heldur taktinum allan tímann, sjokkerar, lætur fólk hlæja og talar til samfélagsins. Þarna er einnig frábær persónusköpun og leikur Þóreyjar er innilegur og kröftugur. Það er unun að hlýða á sagnamátt Ífigeníu þó örlög hennar séu hræðilega sorgleg. 

Lestu þetta næst

Elsku leg

Elsku leg

Yerma eftir Simon Stone í Þjóðleikhúsinu Jólasýning Þjóðleikhússins 2024, Yerma, kemur svo...

Ótti vekur alltaf upp hatur

Ótti vekur alltaf upp hatur

Ótti vekur alltaf upp haturAriasman í Tjarnarbíó Sýningin Ariasman er 80 mínútna einleikur þar sem...

„Kona verður að velja“

„Kona verður að velja“

Leikritið Ungfrú Ísland var frumsýnt í Borgarleikhúsinu föstudaginn 17. janúar síðastliðinn. Um er...