Prinsessur geta verið alls konar

3. febrúar 2025

Prinsessur geta verið alls konar
Hver vill vera prinsessa? í Tjarnarbíó

Sönghópurinn Raddbandið setur upp söngleikinn Hver vill vera prinsessa í Tjarnarbíó. Raddbandið skipa söng- og leikkonurnar Auður Finnbogadóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir, og fara þær með hlutverk prinsessanna í söngleiknum sem Sara Martí leikstýrir. Verkið er eftir Raddbandið, Söru Martí og Stefán Örn Gunnlaugsson

Verkið segir frá þremur prinsessum, þeim 7, 9 og 13, sem allar eru ósköp ólíkar en eiga sé allar einn draum heitastan – að finna prins og gifta sig. Og sem betur fer berast þeim öllum bréf sem boða þær á stefnumót við framtíðareiginmenn sína.

 

 

 Prinsessuleikar

Prinsessa 7 býr í höll með foreldrum sínum og vill giftast því það er það sem búist er við af henni. Prinsessa 9 er fátæk öskubuska sem er haldið í þrældómi af vondri stjúpu. Hún vill flýja heimilisaðstæður sínar með giftingu. Prinsessa 13 er svo kjarnakvendi sem býr í skóginum og kann að verja sig og bjarga sér sjálf, en hún er ofsalega einmana, og telur að það að giftast prinsi gæti leyst þann vanda sinn. Allar eiga þær það sameiginlegt að vera vongóðar um framtíðina, en þegar þær koma á áfangastað tekur við meira krefjandi verkefni en þær bjuggust við.

 

Ævintýri í söng og leik

Sýningin er mjög grípandi og er tónlistin sérlega stór partur af því hversu vel tekst að halda áhorfendum áhugasömum um efnið. Hvert einasta lag er litríkt og fallega sungið, og kómískar tímasetningar leikaranna eru virkilega góðar. Bæði börn og fullorðnir skemmta sér við áhorf, en börn frá 2-3 ára skemmtu sér vel, sem og eldri krakkar, og auðvitað foreldrarnir. Þá er boðskapurinn góður og fjölbreyttur, allar prinsessurnar velja sér þau örlög sem henta þeim best og sýna að prinsessur geta verið allskonar.

 

Töfrandi umgjörð

Leikmyndin er falleg, sviðið er ævintýralegt með hjálp skjáa sem sýna ferðalag prinsessanna í gegnum galdraheiminn, og það er gert fallega og skilvirkt. Búningarnir eru einnig skemmtilegir, en kjólar þeirra minna allar á ákveðnar prinsessur sem við þekkjum úr Disney heiminum, en í stað þess að prinsessurnar séu staðalmyndir koma þær á óvart og sýna á sér margar hliðar. Sérstaklega er gaman að sjá þær bera sig saman og ákveða að þær séu allar jafn miklar prinsessur, burt séð frá hversu fína kjóla þær eiga, eða hvaða áhugamál þær hafa. Prinsessur geta nefninlega verið allskonar.

 

Frábær fjölskylduskemmtun

Ég mæli eindregið með þessari sýningu fyrir fólk með ung börn, en hún er aðeins klukkustund án hlés, og heldur hún krökkunum vel við efnið. Vert er að hafa í huga að ef barnið sem á að fara með á sýninguna er viðkvæmt, þá er eitt ógnvekjandi atriði með vondri norn, en flest börnin virtust alveg þola þessa miklu ógn. Barnið mitt var í það minnsta mjög hrifið, og klappaði mikið, dansaði með og vildi fara aftur. Og eru það ekki bestu meðmælin?

 

Lestu þetta næst

Elsku leg

Elsku leg

Yerma eftir Simon Stone í Þjóðleikhúsinu Jólasýning Þjóðleikhússins 2024, Yerma, kemur svo...

Ótti vekur alltaf upp hatur

Ótti vekur alltaf upp hatur

Ótti vekur alltaf upp haturAriasman í Tjarnarbíó Sýningin Ariasman er 80 mínútna einleikur þar sem...

„Kona verður að velja“

„Kona verður að velja“

Leikritið Ungfrú Ísland var frumsýnt í Borgarleikhúsinu föstudaginn 17. janúar síðastliðinn. Um er...

Segulmagnaður einleikur

Segulmagnaður einleikur

Ífigenía var dóttir Agamemnon konungs í grískri goðafræði. Samkvæmt sögunni var henni fórnað af...