Ótti vekur alltaf upp hatur

10. febrúar 2025

Ótti vekur alltaf upp hatur
Ariasman í Tjarnarbíó

Sýningin Ariasman er 80 mínútna einleikur þar sem sagt er frá Baskavígunum sem áttu sér stað á Vestfjörðum á 16. öld. Þrátt fyrir að vera eina fjöldamorð íslandssögunnar, þar sem 31 maður var drepinn á einu bretti, er lítið fjallað um atburðinn í skólum og almennri sagnfræði, svo margir íslendingar þekkja atburðina ekki.

Verkið er byggt á samnefndri skáldsögu Tapio Koivukari, og hefur heppnast mjög vel að þjappa langri og flókinni frásögn saman í þó ekki lengra leikverk.

Aldagamalt útlendingahatur

Elfar Logi Hannesson bregður sér í gervi bæði Ara í Ögri, sýslumannsinns sem fyrirskipaði morðin, sem og Jóns Lærða Gvendssonar, sem vingaðist við baskana sem komu til íslands í hvalveiði. Með þessari tvískiptingu sjáum við tvö sjónarhorn, bæði þeirra sem hræðast hið óþekkta, sem og þeirra sem sækjast til að vingast við fólk af ólíkum bakgrunni. Kenningar um hvers vegna Ari í Ögri fyrirskipar grimmdarverkin er velt upp , en svo virðist vera sem yfirhylming, hugmynd um hagnað, og hið gamla góða útlendingahatur sem ráðamenn eru gjarnir á að ýfa upp af sjálfselskum ástæðum hafi verið grunnundirstaða voðaverkanna.

Marsibil G. Kristjánsdóttir  leikstýrir og sér um leikmyndina, og gerir hvort tveggja af mikilli fagmennsku. Lýsing Sigurvalds Ívars Helgasonar þjónar sýningunni einnig á góðan hátt og búningarnir sem hannaðir eru af Þ. Sunnefu Elfarsdóttir tala skemmtilega við tíðarandann og leikmyndina í heild.

Þarft verk

Verkið er vel skrifað og vel unnið, en það er Tapio Kouvikari, höfundur bókarinnar,  sem gerir sviðssetninguna einnig. Þá fer Elfar, eini leikari verksins, með öll hlutverkin og skiptir á milli karaktera með einföldum en þó vel skiljanlegum hætti, svo áhorfendur eiga auðvelt með að fylgja söguþræðinum. Elfar leikur af næmni og innlifun og heldur áhorfendum spenntum frá upphafi til enda. Mér fannst tónlistin einnig vel nýtt, ekki of mikið, bara aðeins til að skerpa á mesta dramanu. Þá er sögulegi þátturinn virkilega áhugaverður, og persónusköpun einföld en áhrifarík. Mér finnst þetta vera sýning sem ætti mikið erindi við menntaskólanemendur, og væri til dæmis tilvalið verk sem íslenskuáfangar eða söguáfangar myndu sækja heim með nemendur sína, og kynna þannig bæði áhugaverðan og ljótan hluta íslandssögunnar sem mætti vera betur þekktur, og gildi þess að segja söguna á lifandi og leikandi hátt.

Þá talar verkið augljóslega inn í nútímann, þar sem stórir karlar ala á hatri til að halda völdum og ota sínum tota, og mætti vel senda allnokkra fyrr- og núverandi ráðamenn þjóðarinnar á verkið með menntskælingunum.

Lestu þetta næst

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...