
Innkaupapokinn í Borgarleikhúsinu
Leikhópurinn Kriðpleir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Nú horfast meðlimir hans í augu við verkefni sem engum leikhóp hefur áður tekist. Þau ætla að setja á svið verk sem hefur skriðið ráðvillt manna á milli í 33 ár án þess að líta dagsins ljós. Nú mun leikverkið Mundu töfrana eftir Elísabetu Jökulsdóttur loks verða að veruleika. Og þau eru alls ekki að þessu af því að höfundur verksins er frænka eins meðlima leikhópsins. Sko alls ekki.
,,Innkaupapokinn er svo hversdagslegt nafn að mig langar að drepa mig”
Hversdagsfasismi
Leikritið er svokallað meta-verk, eða verk um verk, þar sem leikhópurinn leikur leikhópinn sem er að setja leikritið á svið. Þá leika meðlimir Kriðpleirs þau Árni, Ragnar, Saga, Sigrún, Ragnheiður Maísól og Friðgeir sig sjálf, en það í ýktum útgáfum, þar sem þeirra verstu hliðar eru blásnar upp svo úr verður drepfyndinn hrærigrautur egóa.
Allir sem hafa sett leikrit á svið kannast við stemninguna sem ríkir í upphafi verks. Enginn er að fylgjast með, nema þeir sem eru að fylgjast með án þess að eftir því sé tekið. Einn er í fílu sem enginn veit af hverju stafar, einn er allt of hress og einhver verður skyndilega fasisti. Það er Ragnar sem flækist inn á brautir óhóflegrar stjórnsemi, en ljóst er frá upphafi sýningarinnar að hann, sem frændi Elísabetar, er mun spenntari fyrir verkinu en nokkur samleikara hans. Friðgeir er fýlupúki, og leikur það af stakri snilld og Saga reynir að vera jákvæð og koma þessu í gang. Árni er vinalegur kjáni, Sigrún á að vera í pásu frá drykkju sem tekst ekki sem skyldi og Ragnheiður vill bara komast í að vinna vinnuna og hætta þessu hangsi. Samböndin á milli meðlima hópsins eru augljós, skemmtileg og áhrifarík. Friðgeir og Sigrún eru par, sem og Ragnar og Ragnheiður, og spenna innan heimila þeirra lekur inn á vinnustaðinn. Árni og Saga muna ekki hvort þau deituðu einu sinni, en það skiptir svo ekki máli. Þó týpurnar sem hópurinn leikur séu ýktar þá verða þær ekki að algjörum staðalmyndum heldur skemmtilega raunsannar.
Metarúnk
Eins og áður sagði er sýningin sýning um sýningargerð, og það langskemmtilegasta við þessa uppsetningu er að áhorfandi er innlimaður í hópinn, hann kemst á bak við tjöldin og sér hvað þarf til að setja upp sýningu. Hann veit hvað hver og einn vill og þráir. Hvers vegna þetta fólk er í þessum leikhóp og hvað það vonast til að geta sannað með þátttöku sinni í verkinu, því öll hafa þau eitthvað að sanna. Eftir hlé er leikritið sem hópurinn barði saman sett á svið og þá getur áhorfandinn skellihlegið að ruglinu á sviðinu, því verkið sem þau setja saman er mikil hringavitleysa.
Þar sem áhorfandinn hafði fylgst með í uppsetningarferlinu verður lélega verkið virkilega fyndið. Það hvernig þrár leikhópsins gleymast og mást út í vitleysunni kitlar hláturtaugarnar. Þá hittir hópurinn á alls kyns húmor byggðan á klisjum úr leikhúsheiminum sem gleður áhorfendur. Margir hverjir hafa einmitt upplifað það að borga 8000 krónur til þess eins að sitja undir hringrúnki leikara sem fengu styrk fyrir að setja upp sýningu sem hljómaði eins og góð hugmynd í upphafi en kom í ljós að gekk ekki upp. Þessi sama sýning er samt sem áður sett á svið því það var búið að gera auglýsingar og selja miða fram í tímann. En í þetta sinn fær áhorfandinn að rúnka sér með, hann er þátttakandi í brandaranum, og mikið er það ánægjulegt.
,,Hvað er þessi ógeðslega tilgerðarlegi maðkur að vilja upp á dekk?”
Búningar, leikstjórn, sviðsmynd ofl.
Leikritið er sett upp á litla sviðinu, og hentar það mjög vel til að ná nándinni sem áhorfandi þarf að upplifa til að finnast hann partur af leikhópnum. Búningarnir eru sérlega skemmtilegir, og mér fannst hver karakter vera klæddur fullkomlega fyrir týpuna sem hann lék. Ragnar var í miklu outfitti; í merkjafötum þó kósý væru, sem náðu að fanga alvarleikann sem hann setti í allt sem hann gerði. Friðgeir leit út fyrir að vera bara í einhverju, sem er akkúrat það sem ég myndi telja hans týpu klæðast. Árni var að reyna að vera kúl með því að þykjast vera að reyna að vera svo ekki kúl að hann sé kúl. Ég velti því meira að segja fyrir mér hvort húðflúrin á honum væru teiknuð á fyrir verkið, þau voru svo fullkomlega raunsæ fyrir karakterinn hans. (Eftir að hafa starað vandlega ákvað ég að þau væru alvöru). Hárið á Sögu, Sigrúnu og Ragnheiði var að mínu mati mjög fullkomlega sett upp, því ég trúði því að þeirra persónur myndu vera með hárið nákvæmlega svona á leikæfingu, og inniskómenningin hitti í mark. Þær Sigrún og Ragnheiður halda hópnum svolítið saman, en þeirra karakterar eru til mun minni vandræða en karlarnir. Ragnheiður fer í umsjónarhlutverk og passar bæði upp á Ragnar og hópinn í heild og reynir að halda hópnum á beinu brautinni, en Saga er fagmannleg og kann reglur leikhússins.
Verkið er samið af leikhópnum og Elísabetu Jökulsdóttur, það er síðan leikstýrt af Bjarna Jónssyni og leikhópnum. Benni Hemm Hemm sér um tónlistina, Snæfríður Sól Gunnarsdóttir um dramatúrgu og Ólafur Ásgeir Stefánsson um lýsingu. Þær Ragnheiður og Sigrún sjá um búninga og leikmynd, og leika sjálfar sig að reyna að vinna í búningum og leikmynd á meðan á verkinu stendur, með skemmtilegum afleiðingum.
Uppsetning
Fyrir hlé eru leikarar í hlutverki leikhópsins og eftir hlé eru þeir í hlutverkum sínum í verkinu Mundu töfrana. Þar leikur Sigrún barnið, Ragnheiður Töfrakonuna, Saga leikur Ellu, Árni bróðurinn, Ragnar tárið, Benni Hemm Hemm strætóskýli og söngvara, og Friðgeir leikur titilhlutverkið; innkaupapokann. Hann gerir það á svo ótrúlega fyndinn hátt að ég hélt að ég myndi deyja úr hlátri. Sem gerist ekki oft í leikhúsi því ég er svo fúl týpa. Listin að setja lélegt verk á svið án þess að fólki leiðist að horfa á það er mikil, og tókst hópnum að hitta nákvæmlega réttan tón í uppfærslunni innan uppfærslunnar. Það er einkahúmor úr æfingaferlinu, hæfilegur hátíðleiki, orðasamsetningar sem enginn skilur, tíðarugl, tímaflakk, hlutverkaskipti, vitleysa og smá kabarett. Og hvað þarf maður meira?
Á heildina litið er verkið ferskt og skemmtilegt, húmorinn er bæði beittur og vel nýttur, persónusköpunin góð og raunsönn og innlitið sem áhorfenda er boðið í heim leikhússins er virkilega vel heppnað.
