Stelkur.is er smásagnavefútgáfa í umsjón Kára Tuliniusar og Þórdísar Helgadóttur. Árið 2023 hugsuðu Kári og Þórdís að það vantaði vettvang fyrir smásögur á íslenskum miðli eftir ólíka innlenda höfunda. Í kjölfarið ákváðu þau að láta að verða að miðlinum. Nú eru tölublöðin orðin sex talsins en það nýjasta var að koma út fyrr í vikunni. Kári og Þórdís eru bæði rithöfundar og hafa víðtæka reynslu af ritstjórn og útgáfu en þau fengu síðan Reykjavík Bókmenntaborg til liðs við sig svo að útgáfan yrði að veruleika.

Með fjölbreytnina að leiðarljósi
Smásögurnar sem birtast í tölublöðunum eru valin af ritstjórunum en hver sem er getur sent inn sögu á stelkur@stelkur.is. Stelkur kemur út árfjórðungslega og fjórar sögur birtast í hverju tölublaði en viðmiðið er að þær séu um fjögur þúsund orð. ,,Okkur fannst vanta vettvang fyrir íslenskar smásögur í lengri kantinum’’, segja þau Kári og Þórdís í samtali við Lestrarklefann. Þau segjast leitast við að birta bæði sögur eftir þekkta höfunda og síðan blanda þeim við nýrri, óþekktari en jafnframt spennandi röddum. ,,Við sækjumst eftir fjölbreytni og reynum að halda kynjahlutfallinu tiltölulega jöfnu. Annars er mælikvarðinn auðvitað fyrst og fremst gæði. Ritstjórnarstefnan er að birta gott stöff sem lesendur geta notið.“
Aðgengilegt bókaform þar sem tilraunir eiga sér stað
Kári og Þórdís telja smásöguna vera mjög aðgengilegt bókmenntaform og segja að þar leynist ákveðinn vaxtabroddur þar sem tilraunir í stíl og viðfangsefni eiga sér stað. Þau segja það hollt fyrir íslenskan bókmenntaheim að eiga blómlegan vettvang fyrir smásögur. ,,Eðli smásögurnar er að vera innbyrt í einu lagi. Lesendur kynnast persónum og söguheim og skilja við hann á stuttum tíma. Sem form er smásagan ekki ósvipuð níutíu mínútna bíómynd eða þriggja mínútna popplagi – fullkomin eining! Hið takmarkaða umfang þýðir líka að hún er frjó og opin í alla enda, höfundur getur til dæmis skilið mikið eftir ósagt og leyft ímyndunarafli lesandans að fylla í eyðurnar. Eða leikið sér með sjónarhorn og frásagnarmáta á hátt sem væri ómögulegt að gera í heilli skáldsögu.“
Óendanleg dreifing með vefútgáfu
En afhverju varð vefútgáfa fyrir valinu? ,,Vefútgáfa er léttari í vöfum, ódýrari í framkvæmd og býður svo tæknilega séð upp á óendanlega dreifingu. Með þessu móti getum við líka haldið tímaritinu ókeypis fyrir lesendur, og gert sögurnar aðgengilegar til frambúðar.” Aðspurð hvort Stelkur yrði einhverntímann gefinn út á prenti svara þau Kári og Þórdís því þannig að þau séu alltaf opin fyrir þróun á útgáfunni sérstaklega þegar hún hefur fest sig í sessi. ,,Við elskum prentaðar bækur og blöð og það er meira en mögulegt að Stelkur muni eiga viðkomu á prenti í einhverju formi í náinni framtíð”
En fyrst og fremst segja þau framtíð Stelks vera bjarta. ,,Stelkur er á blússandi ferð og mun halda áfram í fyrirsjáanlegri framtíð.“