
Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu hefur breyst í bandarískt smábæjarlandslag. Það hanga uppi skilti með coca-cola auglýsingum, rafmagnsstaur stendur skakkur en stæðilegur upp úr smádraslshrúgu. Það hefur verið tjaldað úti í horni, engu lúxus þjóðhátíðartjaldi heldur einföldu kúrekatjaldi. Það er eldstó, dósamatur, ryðgaður ketill og pottur, hjólalaus barnavagn, lekur vaskur og alvöru kúreki úti undir vegg. Aðalleikari verksins, Hjörtur Jóhann, sefur á vörubretti, með hálftóma viskíflösku sér við hlið. Áhorfendur ganga í salinn og setjast allt í kring um leikmyndina og kúrekann sofandi. Ljúfir tónar tilkynna okkur að sýningin sé að byrja, og Hjörtur, í hlutverki kúrekans Ennis, vaknar, klárað viskíið sitt og fer í föt. Sýningin er byrjuð.
Fjallabak á fjölunum
Höfundur leikgerðar Fjallabaks er Ashley Robinson, sem fæddist og ólst upp í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann starfaði sem leikari í áraraðir áður en hann snéri sér að skrifum. Fjallabak var frumsýnt í London árið 2023, og er nú sýnt á Nýja Sviðinu í Borgarleikhúsinu í íslenskri þýðingu Maríönnu Clöru Lúthersdóttur. Söngtextar í verkinu, sem samdir eru af Dan Gillespie Sells, eru þýddir af Sigurbjörgu Þrastardóttur.
Sagan segir að ýmsir hafi spurt Annie Proulx, höfund smásögunnar sem leikritið er byggt á, og haft samband við hana og beðið um leyfi fyrir að setja verkið á svið. Alltaf sagði Annie nei, þar til Ashley hafði samband við hana. Ashley virðist einmitt rétti maðurinn til að setja söguna á svið, verandi sjálfur hinsegin suðurríkjamaður sem þekkir sjálfur skömmina og vanlíðanina sem fylgir því að fela hinseginleika sinn af illri nauðsyn.
Smásaga Annie Proulx
Smásaga Proulx hefst heima hjá Ennis del Mar, manni á miðjum aldri sem býr í niðurníddu hjólhýsi. Hann lætur hugann reika aftur í tímann, til þess staðar sem hann var hamingjusamastur, fjallsins Brokeback, sem í íslensku þýðingunni kallast Fjallabak. Sumarið 1963 var Ennis ekki orðinn tvítugur og tók starfi sem kindahirðir á Fjallabaki. Með honum á fjallinu var Jack Twist, en báðir voru þeir ungir og fátækir, óskólagengnir og áttu litla framtíð fyrir sér aðra en hark á búgörðum. Og svo verða þeir ástfangnir.
Í íslensku uppsetningunni hefst verkið hjá Ennis, og má vel skilja það sem svo að hann sé eldri og líti til baka, en það er kannski látið liggja á milli hluta. Sagan fylgir smásögunni vel, þó aðeins sé endurraðað, þá gerast sömu hlutir og sömu setningar eru sagðar. Fyrir hlé sjá áhorfendur þá Jack og Ennis kynnast, opna sig hvor fyrir öðrum og hefja ástarsamband. Mikil togstreita er sýnd í líkamlegu samneyti þeirra, þá sérstaklega hjá Ennis sem á erfitt með að viðurkenna fyrir sér að hann laðist að öðrum karlmanni. Þegar sumri líkur liggja leiðir þeirra hvor í sína áttina, og þeir heyra ekki frá hvor öðrum í fjögur ár. Báðir giftast þeir konum, eignast börn og reyna að koma undir sig fótunum í hörðum heimi.
Í smásögunni er það sagt hreint út að Ennis hefur aldrei verið jafn hamingjusamur og með Jack, en á sviðinu virðast erfiðleikar hans með nánd alltaf skyggja aðeins á ástina. Þó er vert að nefna að í báðum útgáfum lemur Ennis Jack einu sinni, en honum hefur verið kennt að mæta óréttlæti heimsins og erfiðleikum með ofbeldi.
Tíminn flýgur áfram
Næstu tuttugu árin í lífi mannanna tveggja eru rakin í glefsum þar sem þeir ná að hittast af og til í veiðiferðum, og leyna því fyrir konum sínum hvernig sambandi þeirra er háttað. Ást þeirra er jafn forboðin og hún er tragísk. Í viðtali við Brooklyn Magazine er Ashley Robinson spurður hvort hann telji sögu Ennis og Jacks, hinsegin karla á síðustu öld, eigi erindi í dag, þá segir hann að hún eigi það svo sannarlega. Hann segir að hómófóbía sé ótrúlega víðtæk sé maður ekki í búbblu eins og New York borg. Hann telur að við höfum samfélagslega ábyrgð til þess að segja sögur af fólki eins og Ennis og Jack til þess að við getum séð hversu langt við erum komin, og hversu stutt. Robinson segist sjálfur hafa séð hvað það geri fólki að lifa inni í skápnum, að vera í óhamingjusömum hjónaböndum, að hefta langanir sínar og þrár dragi skaðlegan dilk á eftir sér. Hann minnir lesendur á að svona lagað eigi sér enn stað víða í Ameríku. Ég vil bæta við að þó margir hafi um árabil talið Ísland hinsegin útópíu þá eigum við ótrúlega langt í land og erum nú stödd í miðju bakslagi þar sem réttindi hinsegin fólks eiga á brattan að sækja. Það eru ekki bara trans fólkið okkar sem er í hættu þegar gömul og ljót gildi reyna að riðja sér rúms á ný, heldur mun allt hinsegin fólk vera útsett fyrir ofbeldi og hatri þegar við gleymum manngæskunni. Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í viðtalið við höfundinn sem segir í viðtali við Brooklyn Magazine:
“Á sama tíma og við sjáum allt fara aftur á bak í menningunni okkar, á sama tíma og við sjáum réttindi hrifsuð af fólki, á sama tíma og við sjáum allt þetta gerast er kynslóð að vaxa úr grasi sem heldur að allt sé í góðu lagi. En ég held að það sé á okkar ábyrgð að segja þessar sögur. Ef ekki vegna annars en mannkynssögunnar, en það að hunsa þær er rugl því þessar sögur eiga enn við í dag.”
Eitruð karlmennska
Nú er vinsælt að misskilja hugtakið um eitraða karlmennsku á þann hátt að það þýði að það að vera karlkyns sé neikvætt. En þeir sem vilja endilega misskilja hugtakið horfa þá fram hjá því að það að tala um eitraða karlmennsku er ekki það sama og að tala um karlmennsku, rétt eins og eitraður sveppur er ekki það sama og sveppur.
Í samtíma Ennis og Jack er það að vera hinsegin karlmaður dauðasynd, rétt eins og það er enn þann dag í dag víða um heim. Ennis er mjög bældur, og á virkilega erfitt með að sætta sig við það að hann beri tilfinningar til Jack. Þegar hann segir Jack meira frá æsku sinni kemst áhorfandi að því að Ennis er alinn upp af mjög hómófóbískum föður og er sýnt beint út að hinseginleiki sé verri en dauðinn. Þessi bæling Ennis gerir það að verkum að þeir Jack geta ekki verið saman í alvöru, heldur hittast þeir á laun í 20 ár, báðir giftir konum heima. Þessi feluleikur er sár og erfiður öllum sem eiga í hlut, bæði Ennis og Jack og eiginkonum þeirra, sem og börnum þessara bældu feðra.
Í smásögunni er það gert ljóst að Jack var myrtur fyrir hinseginleika sinn og Ennis situr eftir allslaus. Hómófóbía er einmitt ein af vogunum á skál eitraðrar karlmennsku, þar sem það að „vera ekki nógu karlmannlegur“ með því til dæmis að vera hommi, er forboðið og smánað. Það er mikil synd að nútímasamfélagið okkar, sem virtist í örstutta stund vera að opnast og skána fyrir hinsegin fólk, sé að reyna af öllum mætti að loka sér aftur og kasta hinsegin fólki, með þau jaðarsettustu í fararbroddi, á bálköst brennandi, drepandi, eitraðrar karlmennsku.
Mikilvægi þess að setja þessa sögu á svið
En horfum nú beint á þessa uppsetningu Borgarleikhússins. Í fyrra var málþing á vegum Borgarleikhússins og Samtakanna ´78 um stöðu hinsegin fólks og sagna í leikhúsinu. Fjallabak er ekki eina sýningin þar sem hinsegin saga kemur fyrir, en að því að ég veit best er hún sú eina sem setur hinsegin ást í forgang. Rétt eins og aðstandendur verksins úti segja, þá er ósköp mikilvægt að þessi saga sé sögð, eins og hinsegin sögur almennt. Eins og margir aðrir spurði ég mig samt hverju væri hægt að bæta við þessa vel þekktu sögu með sviðsetningu.
Smásagan Brokeback Mountain á sérstakan stað í hjarta mínu, en þegar hún kom út var ég bara lítið barn. Þegar kvikmynd eftir sögunni með Jake Gyllenhaal og Heath Ledger kom út 2005 var ég unglingur, og sá myndina sem heillaði mig mjög. Fór ég þá að leita að smásögunni og fann hana á netinu og las. Hún er nú aðgengileg í lestri á Storytel og ég hlusta reglulega á hana. Leikritið er mjög trútt sögunni, sem og kvikmydnin, og fyrir hlé hugsaði ég með mér að það væri enginn tilgangur í að setja þetta verk upp, því myndin er alveg eins nema betri. En svo kom hléið og ég heyrði helling af ungum áhorfendum tala um hversu óvænt þeim fannst framvindan og hversu spenntir þeir væru að sjá hvort Jack og Ennis myndu kyssast. Og þá skildi ég mikilvægi þess að setja þessa sögu svona á svið. Það er ekki fyrir mig og þá eldri áhorfendur sem muna smásöguna og bíómyndina, heldur fyrir þá sem hafa ekki kynnst verkinu og fá að gera það á þennan hátt. Þannig er ég persónulega ekki markhópurinn, enda kann ég bæði myndina og söguna utan af.
Þrátt fyrir það skemmti ég mér á verkinu, mér fannst leikurinn nokkuð góður og gaman að sjá tvo karlmenn í aðalhlutverki í ástarverki, en það gerist alltof sjaldan. Búningar, umgjörð, ljós og tónlist, allt var fagmannlega sett saman og leikstjórnin heldur vel utan um söguna. Persónur Hilmis Snæs og Estherar Talíu fá ekki úr miklu að moða en skila leikararnir sínum hlutverkum mjög vel. Íris Tanja, sem leikur eiginkonu Ennis, hana Ölmu, og gerir það mjög vel. Samband hennar og Ennis er styrt og togstreitan innra með henni að vera föst í ástlausu hjónabandi eru gerð góð skil. Aðalleikararnir, Björn Vilhjálmsson og Hjörtur Jóhann standa sig vel og lifa sig inn í hlutverk sín. Það truflaði mig smá að þeir Jack og Ennis eigi að vera 19 ára þegar þeir kynnast og leikararnir eru mun eldri, en í leikgleði þeirra, og þá sérstaklega Bjarnar, gleymdi ég alveg að það væri einhver aldusmunur á leikendum og persónum.
Í heildina er ferð á Fjallabak kvöldstund vel varið og mæli ég sérstaklega með því að skella sér með einhverjum ungum, einhverjum sem þekkir efnið ekki vel eða einhverjum sem hefur gott af að horfa á hinsegin ást.