Voðagerði: Lilja er einmitt bók sem hefði heillað mig sem krakki. Þegar ég komst fyrst í kynni við bókaseríuna Úr bálki hrakfalla eftir Lemony Snicket var ég alveg húkkt. Það eru einmitt bækur sem eiga margt skylt við Voðagerði, það er allt drungalegt, engum hægt að treysta, samsæri á hverju strái og myndlýsingar sem vekja upp óhug! Eina sem er ólíkt er að Voðagerði fer lengra inn á yfirnáttúrulega svæðið, í bænum Voðagerði búa nefnilega ófrýnilegar ófreskjur sem bæjarbúar þurfa að kunna að forðast líkt og martraðaglyttur og kveinfætlur.
Skaparar Voðagerðis eru Hilmar Örn Óskarsson og Blær Guðmundsdóttir, Hilmar skrifar texta og Blær teiknar myndir. Svo virðist sem hér sé um að ræða fyrsta bindi í bókaflokki þar sem fyrsta bókin er kennd við Lilju, sem er framan af gjörsamlega þögul aðalpersóna. Það er auðvitað góð útskýring á því, hún mætir í skólann með límband fyrir munninn. En hvað er innan í Lilju? Hvað er svo hræðilegt að það megi ekki sleppa út úr henni?
Háskalegt ævintýri og óvæntur rússíbani
Í bókinni er alvitur sögumaður sem flakkar á milli huga mismunandi persóna, í fyrstu fá bekkjarsystkini Lilju í Svarteikarskóla aðallega orðið þar sem þau velta fyrir sér af hverju Lilja hefur límt fyrir munninn á sér. Þetta er ekki algeng frásagnaraðferð í íslenskum barnabókum og því var virkilega hressandi að hefja lestur á þessari bók. Við fáum að kynnast skrautlegum íbúum bæjarins betur með þessum hætti og ég velti fyrir mér hver fái að vera í aðalhlutverki í næstu bók.
Ég vissi strax að ég mætti gleyma öllum fyrirfram ákveðnum væntingum, hér er eitthvað alveg nýtt, skrítið og skemmtilegt á ferðinni. Sjónarhornið ferðast svo til Lilju sem lendir í háskalegu ævintýri eftir að hún býðst til að hjálpa skólastjóranum að komast að því hvað varð um konuna hans sem hvarf sporlaust stuttu áður. Það þýðir ekkert fyrir mig að fjalla meira um söguþráð bókarinnar því ég vil auðvitað ekki eyðileggja þennan óvænta rússíbana fyrir tilvonandi lesendum.
Ekkert sparað í myndlýsingunni
Myndirnar eru vægast sagt STÓRKOSTLEGAR! Ég dýrka þennan stíl hjá henni Blæ, hér gengur hún lengra en hún hefur nokkurn tímann áður gert í hryllingnum. Og rosalega á þetta vel við hana. Sumar myndirnar fannst mér sjálfri svo ógeðslegar að ég fékk hroll, sem er ekkert nema jákvætt, þannig á þetta að vera í svona bók. Óhugnaðurinn og gotneski fílingurinn skín í gegn í þessum svarthvítu teikningum sem er alveg glás af. Það er ekkert verið að spara myndirnar, textinn er brotinn upp sí og æ, og stundum er ekki bara ein mynd á síðunni, heldur tvær eða þrjár. Myndirnar passa einstaklega vel við litríkan og leikandi ritstíl Hilmars.
Voðagerði: Lilja er fullkomin blanda af ævintýri og hrollvekju þar sem höfundur passar að detta aldrei í gildru klisjunnar, heldur vinnur skemmtilega úr minnum sem við þekkjum úr þessum sagnahefðum. Þetta er bók sem hitti í mark hjá mér. Ég vildi að ég væri með yngri útgáfu af mér sjálfri mér við hlið svo ég gæti otað að henni bókinni og fylgst með henni heillast af þessum ófrýnilega og spennandi heimi þar sem svo margt kraumar undir yfirborðinu. Ég væri strax búin að panta framhaldið í jólagjöf á næsta ári, sem fullorðna ég gerir bara í staðinn.







