Rómantískar fantasíur (e. romantasy) eru ákveðin nýjung í bókmenntaflórunni á Íslandi. Þetta eru ævintýrabækur þar sem ást og samböndum er gert hátt undir höfði í söguþræðinum. Þessar bækur eru ört vaxandi bókmenntaflokkur erlendis og eiga sér gríðarstóran lesendahóp. Þær hafa sprungið út á samfélagsmiðlum á methraða og má hér nefna bækur eftir höfundana Sarah J. Maas og Rebecca Yarros. Bókin Norðanvindurinn er því góð viðbót á íslenskan markað.

Höfundur Norðanvindsins er Alexandria Warwick. Hún býr í Flórída og er fiðluleikari sem skrifar bækur í frítíma sínum. Sólveig Sif Hreiðarsdóttir þýddi bókina og Kver gefur hana út.

Ung kona og ódauðlegur guð

Bókin fjallar um Músu frá Jaðarskógi. Lífsbaráttan í skóginum er erfið enda hefur eilífur vetur tekið yfir. Einn daginn kemur Norðanvindurinn, ódauðlegur guð, til Jaðarskógar í leit af eiginkonu. Þegar hann velur tvíburasystur Músu fórnar hún sér fyrir systur sína og fer með guðinum. Músa telur sig feiga enda eru sögusagnir um að guðinn fórni eiginkonum sínum en í ljós kemur að það eina sem stoppar Skuggann, tálmann sem verndar íbúa landsins frá Dauðalöndunum, er blóðið úr mennskri eiginkonu Norðanvindsins. Músa á erfitt með að venjast nýja lífi sínu. Hún hatar eiginmann sinn í fyrstu en kemst fljótt að því að hjarta hans er ekki jafn frosið og hún hélt.

 

Dystópísk fantasía

Norðanvindurinn er dystópísk fantasía með rómatísku ívafi. Höfundur sækir innblástur frá sögum líkt og Fríða og dýrið og goðsögnunni um Hades og Persefónu og það skín í gegn í söguþræðinum. Ég myndi ekki segja að þetta sé léttlestur þar sem bókin getur verið langdregin og flókin á köflum en sagan hélt mér engu að síður.

Þetta er fyrsta rómantíska fantasían sem er þýdd á íslensku að mér vitandi, allavega síðustu ár. Ég var því mjög spennt að sjá hvernig þýðingin heppnaðist. Það getur verið erfitt að ná sömu stemmingu í bók þegar hún er ekki lesin á frummálinu en mér finnst það hafa heppnast ágætlega enda flæðir textinn áreynsluslaust.

 

Frábært framtak!

Ég hafði gaman af lestrinum. Heimurinn er áhugaverður og sagan hrífur mann með sér inn í kalda veröld. Persónurnar eru margslungnar, breyskar og þurfa að kljást við erfiða hluti. Músa er klók og ákveðin og lætur ekki segja sér fyrir verkum á meðan Norðanvindurinn er þrjóskur og vanur að fá sínu framgengt. Samband þeirra er því stormasamt framan af og eru þau óvinir sem enda sem elskendur.

Norðandindurinn er hluti af seríu og mér skilst að það sé von á næstu bók fljótlega sem heitir Vestanvindurinn. Það er gat á markaðnum fyrir þessar bókmenntir á íslensku og Norðanvindurinn er því frábært framtak. Ég mæli með bókinni fyrir alla sem vilja hverfa inn í framandi heim með ást og hasar.

Lestu þetta næst

Skotheld höfundarrödd

Skotheld höfundarrödd

Það er alltaf spennandi að lesa fyrstu skáldsögu nýs höfundar. Ester Hilmarsdóttir gaf út bókina...

Fortíðin sækir á

Fortíðin sækir á

Nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur, Syndafall, er sjálfstæð spennusaga. Bókin er styttri en margar...