Í jólabókaflóðinu bar Brynhildur Þórarinsdóttir fram margra kynslóða örlagasögu í formi ungmennabókarinnar Silfurgengið. Brynhildur er verðlaunahöfundur sem er þekkt fyrir fjölda barna- og ungmennabóka, þar á meðal stuttu hrollvekjuna Smáralindar-Móra og endursagnir á Íslendingasögunum. Sjálf las ég Leyndardóm ljónsins þegar ég var unglingur og fannst hún æðisleg.
Silfurgengið fjallar um hina fimmtán ára Sigríði Lei, sem er alltaf kölluð Sirrýlei, en hún er að kljást við hversdagsleg vandamál unglingsins, mikilvægt afmælispartý er á döfinni sem hún er að skipuleggja með bestu vinkonum sínum en þær byrja að læðupúkast og hittast án hennar. Mamma Sirrýleiar er í skóla í Boston en pabbi hennar sér um heimilishaldið á meðan en þegar hann var unglingur þurfti hann að flýja fyrrum Júgóslavíu og endaði sem fótboltastjarna á Íslandi.
Inn í þetta allt fléttast amma Dídí sem er orðin frekar kölkuð, hún ákveður að gefa Sirrýlei eldgamla silfurnælu í afmælisgjöf í staðinn fyrir Nike úlpuna sem Sirrýlei hafði haft augastað á. Í ljós kemur að saga nælunnar er töluvert merkilegri en Sirrýlei hafði gert ráð fyrir. Amma Dídi fer að segja dótturdóttur sinni sögur af formæðrum þeirra beggja og örlögum þeirra. Til að grafast enn meira fyrir um fortíðina skráir Sirrýlei sig í ættfræðival í skólanum. Það er frekar magnað hvað Brynhildur nær að flétta marga þræði saman í þessari bók. Við flökkum á milli tímabila og kynnumst Sigríði, fyrstu formóður og nöfnu Sirrýleiar árið 1887, en hún er skilin eftir á Íslandi á meðan fjölskylda hennar fer öll vestur til Kanada. Svo er það dótturdóttir hennar, Sigga, sem eignast barn með hermanni á ástandsárunum og flyst til Bandaríkjana með öðrum kana.
Frásögn sem rífur í hjartað
Upphaf bókarinnar náði mér ekki alveg nógu vel en eftir að hafa fengið svakalega góð meðmæli með bókinni ákvað ég að byrja aftur með trukki. Þegar ég var búin að lesa aðeins inn í bókina átti ég erfitt með að leggja hana frá mér. Það var eitthvað við frásagnarröddina í upphafi sem náði mér ekki alveg en síðan flæddi bókin vel. Sögur formæðra Sirrýleiar heilluðu mig alveg upp úr skónum og ég varð að vita örlög þeirra. Fyndið að nútíminn hafi ekki náð taki á mér en ég varð rosalega forvitin að kafa ofan í fortíðina með Sirrýlei.
Frásögnin rífur í hjartað, maður var oft gráti næst við að lesa um örlög þessa kvenna og byrjaði að hræðast um hvað yrði um Sirrýlei í nútíðinni. Manni varð mjög annt um persónurnar og umhugað að það yrði í lagi með þær. Persónusköpun formæðra Sirríleyar stendur upp úr og finnst mér frábært að sjá svona sterkar konur á blaðsíðunni sem láta ekki berja sig niður þrátt fyrir að lífið leiki þær grátt. Það er einn þráður sem ég hefði viljað sjá vinna aðeins meira úr en það er samband Sirrýleiar við mömmu sína. En vegna fjarlægðarinnar frá Boston verður samband þeirra bara nokkur myndsímtöl, en það helst reyndar í hendur við rofið sem á sér stað í mæðgnasamböndum allra formæðranna.
Marglaga skáldsaga
Þetta er marglaga skáldsaga sem tekur á fjölda málefna, það er í raun ótrúlegt hversu mörgu er snert á í þessari bók. Hrakfarir vesturfara, konur í ástandinu og fordómar gagnvart þeim, kynþáttafordómar, borgarastyrjöldin í Júgóslavíu og svo auðvitað ástarmál og vinátta unglinga dagsins í dag. Bókin er vel uppbyggð og kemur lesandanum oft á óvart, það eru allskyns snúningar og óvæntar fléttur sem koma lesandanum að óvörum. Silfurgengið á erindi við bæði ungmenni og fullorðna, hún hélt mér gjörsamlega, það er langt síðan ég hef lesið sögu á borð við þessa sem teygir þræði sína í svona margar áttir.





