Innbundnar bækur hafa yfirleitt þótt sitja hærra í virðingarstiganum en kiljurnar. Mjög mörgum þykir til dæmis ekki smart að gefa kiljur í jólagjöf, þess vegna koma bækur oft út innbundnar fyrir jól og svo korteri eftir jól koma út kiljuútgáfur af sömu titlum. Við sem elskum bækur og elskum að eiga bækur (jú við erum þarna nokkur úti enn), eigum kannski safn af Íslendingasögunum, erfðum Laxnesssafnið eftir ömmu og safn Guðrúnar frá Lundi eftir afa og þessar bækur hafa fylgt okkur, foreldrum okkar og ömmum og öfum í gegnum tíðina.
Margar eru þær vel með farnar, varla hægt að sjá að Guðrún frá Lundi hafi verið lesin í leyni hér áður fyrr af afa og vinum hans, verið lánuð á hina og þessa bæi. En kaffiblettóttar blaðsíður segja ákveðna sögu um vinsældir þessara bóka, allavega í mínu bókasafni.
Snjókorn falla, eins og blaðsíður
Fyrir nokkrum árum, fjórum eða fimm, keypti ég inn bók á skólabókasafnið þar sem ég vinn. Dagbók Kidda klaufa, innbundin eins og allar bækurnar um hann Kidda. Ég held ég hafi gert þrjár tilraunir með þessa bók, alltaf hrundu úr henni síðurnar við fyrstu opnun, allur fyrsti kafli lá í höndunum á mér og hrundi niður á gólf. Sömu sögu mátti segja um Dagbók Lindu sem mig minnir að hafi komið út sama ár. Nú glími ég við sama vandamál með nýja, mjög vinsæla barnabók sem börnin keppast um að lesa. Og vandamálið einskorðast að sjálfsögðu ekki við þá bók. Bækur nú til dags eru nefnilega ekki innbundnar.
Glötuð starfsstétt
Starfsheitið bókbindari er fallið í gleymsku og fáir sem kunna þessa list, bækur eru sendar erlendis í prentun og þar eru þær límdar saman með misjöfnum árangri. Við, sem vinnum á skólabókasöfnunum teljum þetta orðið vandamál, bækur og þá sérstaklega barna og unglingabækur losna í sundur við fyrsta lestur, ná jafnvel ekki ofan í skólatöskuna hjá krökkunum.
Ég ákvað að heyra í útgefanda og hringdi í Bjarna Harðarson á Selfossi en Bjarni er orðinn afar afkastamikill útgefandi í gegnum bókaútgáfuna Sæmund. Og ég varð ýmsu nær. Fram á miðja síðustu öld voru bækur handbundnar inn en síðan tóku vélarnar við og bækurnar urðu vélsaumaðar. Bókband lagðist svo næstum alfarið af í upphafi þessarar aldar. Ekki var endilega því um að kenna að útgefendur væru í sparnaðargírnum heldur voru fáar prentsmiðjur eftir sem áttu saumavélar í þessi verk. En Bjarni sagði þó að auðvitað væri kostnaður töluvert lægri við að senda bækurnar erlendis í prentun. Og þá spyr maður hvort prentsmiðjurnar þær íslensku hafi gefist upp þar sem krafta þeirra við þessa framleiðslu hafi ekki lengur verið óskað.
Gölluð upplög
Dröfn Vilhjálmsdóttir er bókasafnsfræðingur í Seljaskóla og hún harmar þessa þróun. “Sérstaklega kom upp mjög bagalegt mál fyrir fimm árum þegar mjög margir titlar voru með gölluðu lími og allt hrundi í sundur. Þá voru líka útgáfurnar misduglegar að láta endurprenta og sumar ætluðu bara að humma þetta fram af sér. Eins koma reglulega upp vandamál varðandi galla í prentun hjá þeim sem eru að gefa út sjálf og það er alltaf töluvert um slíkar útgáfur.“
En hvað verður um þessar bækur? Og er þróunin virkilega orðin þannig að sumar bækur ná varla að endast í gegnum fyrsta lestur? Já, því miður og þessar bækur enda alltof fljótt í endurvinnslutunnunni. Og af hverju finnst mér eins og barna og unglingabækur séu verr staddar en bækur fyrir okkur sem eldri erum? Staðreyndin er sú að barnabækur hafa staðið skör lægra í virðingarstiganum en bækur fyrir okkur fullorðna fólkið. Ekki eru mörg ár síðan að þekktur þáttastjórnandi á RÚV spurði Yrsu Sigurðardóttur hvort hún hafi þurft að byrja á að skrifa barnabækur til að geta orðið „alvöru“ rithöfundur. Staðreyndin er líka sú að barnabækur eru lesnar oftar en margar fullorðinsbækur, þær enda á skólabókasöfnum og þar er þeim ýtt að börnunum. Þær þurfa því að endast lengur en einn lestur.
Bókmenntaarfurinn?
Við státum okkur af að vera bókmenntaþjóð, þjóð með hinn mikla bókmenntaarf. Hvað hefði orðið um þennan mikla arf ef ekki hefði verið lagður metnaður í að koma þessu í sómasamlegt form? Ég á í hillu bækurnar um Nonna og Manna sem pabbi minn fékk að gjöf 1942. Síðan eru liðin 80 ár og enn eru bækurnar hér, fastar í bandinu og jafn læsilegar og þær voru þegar hann fékk þær í hendurnar. Ég stórefa að ömmustelpan mín geti erft þessa nýju vinsælu barnabók sem ég nefndi hér að ofan og lesið hana eftir 80 ár. Ætlum við þá ekki að skilja eftir okkur neinn bókmenntaarf? Jú, mögulega gætu fullorðinsbækur haldið það út en klárlega ekki barnabækur. Getum við þá ályktað sem svo að krónan sé enn meira spöruð þegar kemur að útgáfu fyrir börnin? Já vitið þið, við getum klárlega ályktað á þann veg. En ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér. Við ættum að hætta að tala um „innbundnar bækur“ því ekkert gæti verið fjarri sannleikanum, bækur eru límdar saman og margar með mjög misjöfnum árangri. En svo ég sé sanngjörn þá má ekki skella skuldinni eingöngu á bókaforlögin. Við sem neytendur kvörtum sí og æ yfir hækkandi verði bóka, viljum versla ódýrt og hlaupum meira að segja í stórmarkaði til að versla ódýrari bækur, innan um fiskflök og ofnahreinsa. En það er annar pistill sem ég hvet ykkur eindregið til að lesa.
Frágangur bóka er áhyggjuefni og ég, sem er bókasafnsvörður, bóksali, lesandi og kaupandi bóka, mér finnst þetta afskaplega sorgleg þróun. Svo ekki sé meira sagt.