Hvar kaupir þú bók í jólapakkann?

Jólabókaflóðið er hafið. Bókatíðindi eru mætt í hús og fyrir bókafólk er þetta besti tími ársins. Á hverjum degi bætast við nýjir titlar og auglýsingar í fjölmiðlum minna okkar á hinar og þessar æsispennandi bækur. En þó svo að þetta sé besti tími ársins hjá okkur bókafólki þá eru bækur gefnar út allt árið, vetur, sumar, vor og haust. Og það er alltaf eitthvað nýtt að sjá í bókabúðum, lyktin af nýrri bók er öðruvísi en af eldri bókunum og þó svo að ég hafi bara rétt ætlað að skjótast inn í bókabúðina örstutt þá teygist á tímanum, hann jafnvel stendur í stað og út kem ég klukkutíma síðar og oftast með einhverja bók í poka.

Hin árlega vertíð

Bókabúðir eru ljómaðar töfrum, ilmandi af prentsvertu, pappír og einhverju framandi sem erfitt er að útskýra. Þannig er það allavega fyrir okkur sem erum forfallnir bókaunnendur í gegn. Þess vegna eru bókabúðir mikilvægar fyrir lesendur, kaupendur bóka og svo auðvitað mest af öllu fyrir þá sem skrifa bækur. Þá myndi eflaust einhver spyrja: Er einhver enn að kaupa bækur? Er þetta ekki allt komið á netið? Hljóðbækur, Storytel og svo framvegis. En sú er staðan svo sannarlega ekki! Bókasala er ekki að lognast útaf og að prentaðar útgáfur er ekki barn síns tíma. Meira að segja Storytel er farið að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu með útprentuðum bókum!

Bóksala þenst út og dregst saman í samræmi við árstíðirnar. Hún er stundum mikil, stundum minni en alltaf einhver. Því er það sorglegra en tárum taki að einmitt þegar salan er í hámarki og bækur eru á innkauplista nánast allra landsmanna þá skuli matvörubúðir taka jólabækurnar í sölu og selja á heildsöluverði og jafnvel lægra en það, innan um jólasíld, laufabrauð og hamsatólg. Já, hér er verið að tala um blessaða jólabókaflóðið. Sem er sá tími sem bókabúðirnar treysta á að að fleyti sér í gegnum miserfiða tíma restina af árinu.

Hin faglega ráðgjöf

Matvörubúðir bjóða upp á jólabækurnar, illa uppsett blöð með verðupplýsingum hanga einhversstaðar í kring. Enginn starfsmaður getur hinsvegar gefið upplýsingar um bækurnar, skilafrestur stuttur ef einhver og því kemur það til kasta bókabúðanna þegar uppi er staðið að þjónusta þessa viðbót á vöruúrvali matvörubúðanna. Það er nefnilega staðreynd að hluti viðskiptafólks matvörubúðanna fer í bókabúð með jólagjafalistann sinn og vill fá tillögur að bókum fyrir ömmuna á áttræðisaldri eða barnabókum fyrir 10- 12 ára. Þessi sami hluti fólks þrammar svo í matvörubúðina með  tillögurnar frá starfsmannni bókabúðarinnar og kaupir bókina á lægri verði þar.

Ábyrgð kaupandans

Auðvitað þurfa margir að huga að því að spara sinn pening, að nóg sé eftir svo allir geti fengið gjöf. En hafið í huga gott fólk að þetta gerir það að verkum að bókabúðir berjast í bökkum og margar standast ekki þetta áhlaup matvöruverslananna. Gerist það verður fátt um fína drætti varðandi ráð um bókakaup. Þá gæti farið svo að bóksalinn á horninu, sem hefur selt bækur allt árið, gæti þurft að loka sinni bókabúð. Í sinni verstu mynd gætu afleiðingar orðið þær að við gætum ekki keypt bækur nema í tvo mánuði á ári. Elsku bókaunnendur, hafið þetta í huga þegar þið farið að kaupa í jólapakkann. Þessi tími er mikilvægur fyrir bóksalann sem hefur tækifæri til að rétta við sinn rekstur eða safna til mögru mánaðanna sem eru yfirleitt fram á vorið. Ekki kaupa bækur í matvörubúð. Og ef þið hafið ekki ráð á öðru, reynið að kaupa allavega eina og eina bók í bókabúð.

Reynum að styðja við bóksalann sem er alltaf til í að þjónusta, ráðleggja, ræða um bækurnar og sjá til þess að framboðið sé gott allt árið um kring en ekki bara í nóvember og desember.

 

Lestu þetta næst

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...

Gratíana fullorðnast

Gratíana fullorðnast

Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu...

Héragerði yfir páskana

Héragerði yfir páskana

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til...

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll...

Edinborg í aðalhlutverki

Edinborg í aðalhlutverki

Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði...