Ég hitti Jenny Colgan!
Já, kæru lesendur þetta var ein af stóru stundum lífs míns og mér finnst mikilvægt að deila þessu með ykkur. Okkar allra besta Jenny Colgan kom til landsins til að taka þátt í Bókmenntahátíð í apríl á þessu ári. Hún tók þátt í nokkrum viðburðum en náði ég einungis einum: panel umræðum að kvöldi 21. apríl með Benný Sif Ísleifsdóttur og Pedro Gunnlaugi García undir öruggri stjórn Björns Halldórssonar. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hafi verið einn besti panel sem fram hefur farið á bókmenntahátíð. Einhvern veginn virkaði þetta fjóreyki afar vel á sviði og verð ég að hrósa Birni fyrir frábæran undirbúning og stórkostlegar umræður! Umræðurnar enduðu svo vel að þau ákváðu að stofna nýtt ABBA band og Jenný mín (sem við höfum í ljósi yfirlýsingu hennar íslenskað nafnið á) fullyrti að hún ætlaði að flytja til Íslands.
Þegar hún gekk framhjá mér á leið út úr Iðnó hoppaði ég ansi langt fyrir utan þægindarammann og tilkynnti henni: Ef þú flytur til Íslands skal ég verða vinkona þín! Mikilvægt er að íslenskir útgefendur hennar, Angústúra, viti af þessu ef flutningar hennar verða að veruleika. Tilboðið stendur!
Við höfum margoft hrósað Jenny Colgan á þessum miðli enda eru bókmenntirnar sem hún skrifar mjög vanmetnar. Í viðtali við hana í Kiljunni kom fram að Colgan hefur selt tæplega 10 milljónir eintaka af bókum sínum, sem er magnað! En í því sama viðtali, sem ég mæli mikið með, gagnrýndi hún hve rómantískum bókum sem eru skrifaðar af konum er mismunað.
Ást undir áhrifum Covid
En að nýjustu bókum Jennýjar, nýverið kom út íslensk þýðing á bókinni Sólarupprás við sjóinn, bókin segir frá Marisu Rossi sem missir tökin á lífi sínu eftir að afi hennar deyr, hún fær gríðarlegan kvíða og víðáttufælni. Þetta endar með að hún þiggur boð um að jafna sig á afskekktri eyju úti fyrir ströndum Cornwall. Þar er þó enginn friður, hún heyrir stöðugt í rússneska píanókennaranum sem býr við hliðina á henni og amma hennar ráðskast með hana gegnum Skype alla leið frá Ítalíu. En aðstæðurnar neyða líka Marisu til að fara að takast á við lífið á ný og hætta að fela sig innandyra. Hún endar á að hjálpa Polly að blása nýju lífi í Litla bakaríið.
Bókin var skrifuð á Covidtímum og kom upphaflega út þegar lokanir voru við lýði. Þó að faraldurinn komi ekki fram í bókinni segir höfundur að hún hafi verið undir áhrifum faraldursins við ritunina og þess vegna er smá Covidlegt hvernig til dæmis Marisa og Rússinn eiga í samskiptum án mikilla snertingar.
Bókin er sjálfstætt framhald af bókaflokknum Litla bakaríið við Strandgötu sem kom skoska metsöluhöfundinum Jenny Colgan á kortið á Íslandi. Þó að ég hafi notið lestursins fannst mér efnið þó keimlíkt því sem ég hafði lesið fyrr í þessum bókaflokki.
Ný efnistök
Mig þyrsti í einhver ný efnistök hjá Colgan og hún nefndi á Bókmenntahátíð að nýjasta bók sín fjallaði um unga flugkonu. Það varð úr að ég forpantaði þessa bók og fékk hana á lesbrettið fyrr í mánuðinum. The Summer Skies hreif mig meira en Sólarupprás við sjóinn. Hún segir frá Morag MacIntyre ungri skoskri flugkonu sem í kjölfar áfalls í flugi er fengin til að aðstoða afa sinn með flugleið á milli lítilla eyja á nyrstu slóðum Skotlands. Hún á að leysa hann af í veikindum og ætlar að nýta tímann til að hugsa um framtíðina, möguleikann að flytja með kærastanum Hayden til Dúbaí og hvernig flugkona hún ætlar sér að verða.
Meðan Morag íhugar möguleika lífs sína lendir hún í slæmri lendingu á Inchborn eyjunni og festist þar um ókominn tíma einsömul með eina íbúa eyjunnar, hinum einræna fuglafræðingi Gregor. Hver verður framtíð hennar þá?
Ég spændi í gegnum þessa nýjustu bók á Colgan og hló margoft. Ég fílaði að Jenny tók lesandann á ferskar slóðir með innsýn í líf flugkonu. En hún hélt sig jafnframt við gamla og góða takta úr rómantískum bókum með dyggri aðstoð sérlundaðra húsdýra. Ég trúi ekki öðru en að þessi bók sé fljótlega væntanleg í íslenskri þýðingu en annars er þetta frábær sumarlestur fyrir þá sem treysta sér til að lesa á frummálinu.