Ógeðslegir hlutir eftir Sunnevu Kristínu Sigurðardóttur er nett bók sem ég hélt að væri blá en er í raun svört, eða kannski djúpfjólublá. Rétt eins og kápunni er erfitt að skera innihaldi bókarinnar þröngan stakk. Verkið er allt í senn nóvella, smásaga, ljóðabók og prósasafn.
Ógeðslegir hlutir er önnur bók Sunnevu Kristínar, sem gefur út undir merkjum Pirrandi útgáfu.
Svartir ferhyrningar
Lesandi hverfur inn í heim ógeðslegra hluta sem byrjar að því virðist í raunheimum en tekur á sig æ ævintýralegri blæ eftir því sem á líður. Við kynnumst Jean-Luc, sem er leiður á lífinu og fer að sækja tíma hjá sálfræðingi með undarlegum afleiðingum.
Við kynnumst ástkonu (ástveru?) Jean-Luc, og fylgjumst með sambandi þeirra ganga fullan hring í kring um sólina og yfir í myrkrið. Við sjáum erfiðar æskuminningar, líkama í nýju ljósi, og vinnum með ógeðið sem við erum öll inn við beinin.
„Segðu mér frá því hvernig þér leið eftir að þú varðst að engu í síðasta sinn, biður þerapistinn.
Það tekur þrjár vikur að púsla mér aftur saman. Allar holur eru bættar upp með leir, ljósgullnum.“ Bls 66
Epísk ljóðsaga á 67 síðum
Þrátt fyrir að bókin sé nokkuð stutt í hinu stóra samhengi eru margir fullmótaðir heimar inni í sögunni, sem höfundur hefur ofið af tilfinninganæmi úr vef töfraraunsæis, húmor, raunsæis og angistar. Persónur eru dýr eða menn, hlutir eru ekki bara hlutir, flíkur eru faratæki inn í nýjan heim ef maður kann að horfa með innri augum frekar en þeim ytri.
Bókin er mjög grípandi og ég las hana alla í einu, því ég hreinlega varð að vita hvað gerðist næst. Bæði er stíllinn ófyrirsjáanlegur en einnig tekst höfundi að halda þráðum frásagnarinnar á sínum stöðum svo lesandi villist aldrei í ranghölum hugmyndaflugsins.
Frábær, frumleg og falleg bók, þó ógeðsleg sé, og ég er rosalega spennt að lesa meira eftir höfundinn.