Skilnaður sólar og skýs

19. desember 2025

Hvað gerist þegar skýið og sólin geta ekki lengur búið saman?

Barnabókin Neistar sem skrifuð er af Hugrúnu Margréti og myndlýst er af Sólveigu Evu segir frá ungu blómi í umsjá foreldra sinna, skýsins og sólarinnar. Allt leikur í lyndi, en svo kemur að því að skýið og sólin geta ekki lengur búið saman. Það þýðir ekki að þau elski blómið sitt neitt minna en áður, það þýðir eingöngu að nú verður uppröðunin á lífinu svolítið öðruvísi.

Merkingarþrungin myndasaga 

Bókin er í myndasöguformi og fyrir unga lesendur. Ég las hana með þriggja ára syni mínum sem leist mjög vel á myndirnar og söguna, en dýpri merking bókarinnar fór alveg fram hjá honum. Það er þó ekki við höfund að sakast, hann er bara svolítið yfirborðskenndur lesandi enn sem komið er. Sagan segir frá því hvernig blómið og skýið kynnast og hvernig orkan á milli þeirra þróast, allt frá því þegar ástin kviknar og þar til þeim fer að líða illa saman. Þessi vanlíðan hefur áhrif á elsku blómið þeirra og þá er bara eitt í stöðunni.

Sólin og skýið ákveða að skilja en hvernig í ósköpunum eiga þau að sjá um blómið sitt í sundur? Þau ákveða að skiptast bara á, taka nokkra daga í einu og á meðan hitt sinnir blóminu getur það sem er stikkfrí nýtt tækifærið og ræktað sig sjálft. Það virðist sem allir komi út á toppnum í þessu fyrirkomulagi, þar sem nú er aldrei þrumuveður af rifrildi foreldranna og blómið fær að njóta sín.

 Barnvænn boðskapur

Í stuttu máli sagt er þetta krúttleg og fallega myndlýst útskýringarsaga um skilnað.  Spurningunni um hvað verður um barnið þegar foreldrar þess skilja er svarað á fallegum síðum bókarinnar og má ætla að þetta sé þörf saga því það er sennilega hægara sagt en gert að útskýra skilnað fyrir ungum börnum og passa að þau viti að allir elski það enn. Bókin er líka svolítið fyndin, með skemmtilegum upphrópunum og teikningum, svo jafnvel þó að barn sé ekki að ganga í gegn um skilnað er bókin skemmtileg og hressandi lesning með góðum boðskap. Það er þess utan sennilega sniðugt að lesa bókina fyrir börn hvort sem þau eiga fráskilda foreldra eða ekki, þar sem þau lifa og hrærast í samfélagi þar sem hjónaskilnaðir eru ekki óalgengir.

Lestu þetta næst

Morðið í brúðkaupinu

Morðið í brúðkaupinu

Sleggjudómur er þriðja glæpasaga Ragnheiðar Jónsdóttur. Hún sigraði glæpasagnasamkeppnina...