Leikritið Þegar ég sé þig sé ég mig var upphaflega samið sem útskriftarverkefni Ernu Kanema Mashinkila úr sviðshöfundabraut í LHÍ og sýnt árið 2023. Nú, þremur árum seinna, er verkið komið á nýja sviðið í Borgarleikhúsinu, svolítið breytt frá upphaflegu formi, og ég var þess heiðurs aðnjótandi að sitja frumsýningu þess.
Þegar gengið er í salinn er leikari á sviðinu, hin unga og efnilega Viktoria Dalitso, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem Fía Sól í sama leikhúsi. Sviðið sem hún situr á er sett upp eins og íbúð með mörgum herbergjum, þar sem mismunandi áhugamál íbúanna fá að njóta sín í skreytingum og munum. Viktoría býður okkur velkomin inn á heimili sitt og svo hefst verkið af alvöru.
Marglaga mósaík
Verkið er einskonar mósaíkverk þar sem hæfileikar flytjendanna eru vafðir saman svo úr verður marglaga og djúpt listaverk þar sem brestir og brot eru ekki gallar heldur óvænt fegurð, styrkleikar leynast í glufunum og sorgin er gullbrydduð með ást og djúpum skilningi á mannlegu eðli.
Verkið er hlaðið dansi, en danshöfundur verksins er Indy Yansane í samstarfi við Þórdísi Nadiu Semichat og Luis Lucas, sem dansa bæði í verkinu og gera það með ótrúlegum glæsibrag. Luis Lucas dansar svo fallega að dans hefur öðlast nýja merkingu fyrir mér. Líkami hans varð að vatni og vatnið að uppsprettu lífsins, dansinn liðaðist eftir honum og það eitt að sjá svona sterka túlkun á fegurð í gegn um líkamann og svipbrigði er ótrúleg upplifun.
Þórdís Nadía er ekki einungis að dansa í verkinu heldur segir hún áhorfendum áhrifaríka sögu af því hvernig hún reyndi að finna ömmu sína og hvernig hjartað hennar þekkti tónlist frá heimalandi föður hennar jafnvel þó hugur hennar áttaði sig ekki á tengingunni. Viktoria les textabrot eftir Töru Sóleyju Mobee, sem flytur lag eftir sjálfa sig, sem og texta eftir aðra og hleypir áhorfendum inn fyrir skinnið, djúpt inn í holdið og enn innar, inn í sammannlega hjartað sem slær og berst um eins og fugl í búri í þeirri veiku von að einhver heyri í því.
Hæfileikar og húmor
Stjarna sýningarinnar er engin einn flytjandi því þau eru öll mögnuð, en Skúli Isaaq Qase snerti streng í hjarta mínu og allra í salnum þegar hann opnaði sál sína og sagði frá missinum, þránni og heiminum sem hann gæti ímyndað sér að byggja upp, heimi þar sem umönnun og natni er í aðalhlutverki og hljómar miklu betur en þetta skítapláss sem við köllum veröld þessa dagaana. Söngur hans opnaði einnig táraflóðgáttir víða um salinn enda óendanlega fallegur og nístandi sár. Ég hef þess utan aldrei tengt jafn mikið við neinn á sviði og við Skúla að reyna að þurfa ekki að dansa með hinum. I see you girl. Tara Mobee, sem þekktust er sem söngkona, stendur sig ótrúlega vel í sínu hlutverki, en hún hefur mikið vald á sterkum tilfinningum auk þess að vera mjög fyndin og góð í að tímasetja orð sín.
Óvænt leynivopn sýningarinnar er Sedley Francis, bretinn sem flutti til Íslands, elskar Hjálma og tónlist, nýtur þess að vera partur af samfélaginu og kynnir áhorfendur fyrir sögu ska og reggae. En það er samt samspil allra leikaranna sem gerir verkið svo magnað því það er augljós ást, væntumþykja, styrkur og traust á sviðinu. Það er í raun magnað að þessi sýning sé eitthvað sem selt er inn á, það er ómetanlegt til fjár að fá að deila svona innilegri og hrárri stund með svona hæfileikaríku og töfrandi fólki.
Breyting frá fyrra verki
Það er þó eftirtektarvert að mun minna er fjallað um rasisma og áhrif hans á litaða Íslendinga en í upprunalega verkinu, og meira er lagt upp úr gleðinni og tengingunni við Ísland og önnur móðurlönd. Í upprunalega verkinu, sem aðgengilegt er á netinu, er beinni ádeila og frekari reynslusögur af fordómum og ofbeldi. Þó er ádeilutónninn ekki farinn, hann er aðeins mildari og kannski settur fram öðruvísi, áherslur höfundar hafa hugsanlega tekið breytingum eða nálgun hennar á málefninu aðlagast erfiðum tímum. Svo er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að brúnir Íslendingar séu alltaf tilbúnir að opna á sinn mesta sársauka til að kenna hvítum áhorfendum að rasismi sé særandi. Þó tekst vel að koma skilaboðunum á framfæri.
Þá er samtal Skúla og Þórdísar um rasisma virkilega áhrifamikið, það hvernig hún er látin réttlæta illa meðferð í nafni toxískrar jákvæðni er svo lýsandi fyrir samskiptin sem eiga sér svo oft stað þegar kynþættur einstaklingur dirfist að nefna að honum sé mismunað. Er hann ekki örugglega að misskilja, ofhugsa eða gerði hann kannski bara eitthvað vitlaust?
Eins og Skúli svarar Þórdísi þá getur ekki verið að allt sé alltaf í hausnum á manni, stundum er fólk bara rasistar.
Allir í leikhús
Búningar, sviðsmynd, ljós og tónlist, allt var þetta akkúrat fullkomið en skyggði aldrei á flytjendurna sem héldu áhorfendum hugföngnum í greipum sér frá fyrstu mínútu. Tónlistarstjórn Sonny Bouraima og leikmynd og búningar Bjarts Arnar Bachmann og Dýrfinnu Benitu eru afbragð í alla staði.
Leikhópurinn allur, og auðvitað Erna Kanema, eiga mikið lof skilið fyrir þessa sterku og einstöku sýningu. Ég hefði viljað horfa á hana klukkutímum saman.

