Sitthvað um mörgæsir og menn

Í miðju samkomubanni kom út stutt skáldsaga eftir Stefán Mána hjá Sögum útgáfu. Hún ber heitið Mörgæs með brostið hjarta en hefur undirtitilinn „ástarsaga“. Stefán Máni er vinsæll rithöfundur og er þekktastur fyrir spennusögurnar sínar. Því kom svolítið á óvart að hann væri að gefa út stutta ástarsögu að vori til en hann á marga aðdáendur sem bíða í ofvæni eftir nýrri spennusögu úr hans smiðju fyrir hver jól. Ótrúlegt en satt þá er þetta fyrsta bókin sem ég les eftir Stefán Mána og get því miður ekki borið hana sama við fyrri bækur hans, en honum tókst allavega að ná til nýs lesanda með þessari bók!

Ástarsagan fjallar um unga rithöfundinn Ómar sem er að skrifa sögu um mörgæs á gamla ritvél. Tæknin hefur ekki verið honum hliðholl og því ákvað hann að skrifa handritið á gamla mátann til að tryggja að tölvan gæti ekki tekið upp á því að gleypa það upp úr þurru. Dagleg rútína hans felst í skrifum og svo gönguferð á kaffihús í miðbæ Reykjavíkur til að fara yfir síðurnar sem hann ritaði fyrr um daginn. Á uppáhalds kaffihúsinu á hann sér uppáhalds þjónustustúlku sem hann dáir í laumi. En hann er feiminn og veit ekki hvernig hann á að tjá henni tilfinningar sínar. Þetta er aðeins einn þráður bókarinnar, hinn þráðurinn liggur hjá karlkyns mörgæs á suðurskautslandinu sem er verðandi faðir. Óvæntar hremmingar henda mörgæsina og fer hún frá hópnum til að þurfa ekki að horfast í augu við sorgina og afleiðingarnar.

Leikur með mörk raunveruleikans

Bókin er skipt í átta hluta og flakkar sjónarhornið á milli mannsins og mörgæsarinnar sem er gædd öllum mannlegum tilfinningum líka. Textinn er ljóðrænn og leikur sér með mörk raunveruleikans. Fyrsti hluti hefst á einhversslags prósaljóði þar sem meðal annars kemur fram: „Allt var einfalt. Síðan sló eldingu niður í líf okkar, í huga minn. Tilveran klofnaðist, opnaðist. Það varð til sprunga, heimsmyndin gliðnaði sundur. Ofan í sprungunni er myrkur, tóm.“ (bls. 11) Hér er sleginn ákveðinn tónn, lesandinn er settur í ákveðnar stellingar áður en hann hefur lesturinn. Búast má við heimspekilegum vangaveltum um tilveruna, hugann en myrk sprunga hefur tekið yfir skyndilega. Svo hefst fyrsti hlutinn og heimkynnum Ómars er lýst ítarlega sem vegur upp á móti þessari ljóðrænu byrjun.

Klofningin, eða gliðnunin, hefst fyrir alvöru í öðrum hluta sem er frá sjónarhorni mörgæsarinnar, „Eitthvað brast innra með mér. Sprungan klauf mig í tvennt. Hjartað, höfuðið – kjarnann í mér. Ég fékk vitund. Ég vaknaði. Ég varð ég.“ (bls. 28) Mörgæsin fær vitund og eiginleika til að sjá aðstæður sínar í nýju ljósi, „Veröldin opnaðist, yfir mig steyptist flóðgátt af orðum, minningum, upplýsingum, þekkingu og samhengi. […]. Allt í einu hætti ég að fljóta með straumnum sem stýrði okkur öllum.“ (bls. 28) Þessi kafli er einstaklega sterkur og vekur mikla samlíðan lesandans með kvíða og sorg mörgæsarinnar. Ég vil ekki uppljóstra hver sú sorg er, það er lesandans að komast að.

Myndrænn texti

Bókin byrjar hversdagslega frá Ómars hlið en verður svo töluvert óræð á köflum þar sem lesandinn þarf virkilega að velta fyrir sér hvort að Ómari sé að dreyma eða hvort að raunveruleiki hans sé búinn að varpast í ókennilega veröld sem er á barmi heimsenda, eða jafnvel nú þegar búin að enda. Hamfarir eru í nánd, sú vitneskja vofir yfir allri sögunni. En aftan á bókinni stendur: „Ástin á tímum hamfarahlýnunar“. Þar fær lesandinn þá vísbendingu að bókin sé umfjöllun, eða ádeila, um hamfarahnýnun jarðar.

Textinn er afskaplega myndrænn og fallegt finnst mér þegar Ómar hugsar um handritið sitt, „Í það minnsta fannst honum að sagan hans væri lifandi. Hann skapaði hana jú – dró hana upp úr vitund sinni eins og silfurþráð, mótaði hana í huga sínum og hamraði hana á pappír, staf fyrir staf, orð fyrir orð.“ (bls. 96) Myndirnar eru dregnar upp af nærgætni, sagan hans er dregin upp úr vitund eins og silfurþráður sem gefur í skyn hversu viðkvæm og merkingarbær hún er fyrir Ómar. Handverk rithöfundarins er einnig undirstrikað með því að líkja starfinu við hamarshögg, hver einasti stafur og hvert einasta orð er mikilvægt.

Viðlíkingarnar og myndirnar sem Stefán Máni dregur upp í þessari bók eru oftast fallegar og vel heppnaðar, „Fyrir aftan hann eru svört fótspor í silfurgráu öskulaginu, eins og bókstafir á blaði – eins og upphafslínan í langri sögu. Eða lokasetningin?“. (bls. 85)

Nóvellan ryður sér til rúms

Mörgæs með brostið hjarta er ljóðræn nóvella, eða stutt skáldsaga, en það form hefur verið að ryðja sér til rúms í íslenskum bókmenntaheimi. Margir höfundar gefa nú út styttri bækur en lesendur hafa verið vanir og hafa þær flestar vakið mikla lukku. Sem dæmi um nóvellur sem hafa komið nýlega út eru Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Korngult hár, grá augu eftir Sjón og Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þessu formi er ekki nógu mikið fangað hér á landi að mínu mati en nóvellur eru oft kallaðar skáldsögur af útgefendum, ástarsaga í tilviki Stefáns Mána. Þetta stutta form hentar lesendum nú til dags mjög vel þar sem mikil samkeppni er um athygli fólks hvað varðar afþreyingu og menningu.

Þroskaferðalag mörgæsar og manns

Ég hafði virkilega gaman af hlutum bókarinnar sem voru frá sjónarhorni mörgæsarinnar og hefði í raun viljað fylgja henni jafnvel meira. Ómar er tiltölulega vel sköpuð persóna, hann er vandræðalegur og seinheppinn maður sem þráir í raun ekkert annað en að vera elskaður. Ég hefði viljað sjá meiri raunverulega ást í bókinni þar sem hún er skilgreind sem ástarsaga, ég las bókina meira sem þroskaferðalag, bæði mörgæsarinnar og mannsins, leit þeirra að tilgangi sínum og þeim sjálfum. Þetta eru persónur sem standa á krossgötum, í heimi sem stendur frammi fyrir ógnvekjandi breytingum. Mörgæs með brostið hjarta er falleg, furðuleg og nokkuð spennandi bók sem gerir kröfur til lesandans. Hún er einkar athyglisverður lestur og það verður spennandi að sjá hvort að Stefán Máni mun halda áfram á þessari braut í skrifum sínum eða hvort að spennusagan haldi áfram að vera meginform hans.

 

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...