Í vor hlaut Halla Þórlaug Óskarsdóttir Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir ljóðsöguna Þagnarbindindi sem kemur nú út hjá Benedikt bókaútgáfu. Bókin er uppfull af prósaljóðum eða stuttum minningarleiftrum úr lífi ungrar konu sem er að gera upp líf sitt. Segja má að ljóðsagan fjalli um ástarsorg, móðurmissi, sársauka, móðurhlutverkið og lífið sjálft. En tilvitnunin á bókakápunni sem má sjá hér til vinstri er frekar lýsandi fyrir verkið.
Þegar sorgin tekur yfir
Það sem mér finnst hitta beint í mark er umfjöllunin um sorgina og sársaukann. Þetta eru tilfinningar sem nísta ljóðmælanda djúpt og hafa mikil áhrif á líf hennar. Það er bæði ástarsorgin og móðurmissirinn sem hrjá hana en hún á erfitt með að sjá í gegnum myrkrið:
„Bróðir minn sagði mér að horfa aldrei í spegil í sorginni. Hann sagði að spegillinn magnaðu sársaukann upp, maður færi að vorkenna sjálfum sér – finna til með spegilmyndinni – sorgin sveiflaðist fram og til baka eins og hljóðbylgja sem lenti á sömu tíðni og magnaðist upp.“ (bls. 19)
En ljóðmælandi vill velta sér upp úr sorginni: „ég hunsaði þessar ráðleggingar Mér fannst gott að dvelja í sársaukanum, finna hann umlykja mig, þéttar, þetta var eins og að segja eiturlyfjafíkli að halda sig frá sterkari efnum.“ (bls. 19) Þetta eru lýsingar sem hver syrgjandi manneskja getur tengt við.
Sársauka sambandsslita
Stóran part í bókinni spilar ástarsorg og söknuður. Ljóðmælandi stendur á tímamótum og þarf að ganga frá íbúð sem hún er að yfirgefa eftir sambandsslit og allt virðist minna hana á ástina sem slokknaði: „Allt í kringum okkur eru leifar sprunginna tímasprengja. Lítil brot vekja upp fortíðina; sára, ljúfa, ljúfsára, góða, vonda, slæma, dásamlega, allt í bland.“ (bls. 88) Þetta er sárt og nístir inn að beini.
Bæling tilfinninga
Rauður þráður í gegnum bókina er þögnin, leikur þagnarinnar. Á baksíðu kápunnar er sterk tilvitnun úr ljóðsögunni: „Ég hef tvisvar sinnum verið beðin um að hætta að öskra, í bæði skiptin á sjúkrahúsi. Fyrra skiptið var mamma mín að deyja. Í seinna skiptið var dóttir mín að fæðast.“ (bls. 15) En þögnin er birtingamynd bælingar þar sem tilfinningar og ósögð orð grafast niður í undirmeðvitundina en munu alltaf valda usla seinna meir: „Eitt er að þagga reiðióp. Sársaukaöskur. / Annað er að byrgja tilfinninguna inni, eins og gítar sem stillt er upp á öruggum stað, fjarri fálmandi höndum. Inni í skáp, til dæmis, þar sem ekki einu sinni eigintíðnin eða titrandi farsími nær að hreyfa við strengjunum.“ (bls. 91)
Það er átakanlegt að fylgjast með þessari ungu konu kjálst við sársaukann sem hrjáir hana. Hún virðist vera svo ein í heiminum, ásamt barnungri dóttur sinni sem er enn ómálga. Hún býr í landi þar sem móðurmál hennar er ekki talað og siðir eru aðrir en hún á að venjast. Ljóðmælandi virðist ekki vera búin að finna frið né samastað. Yfir heildina litið er þetta fallegt verk um leit að sátt við sorgina sem hefur fundið sér bólstað innra með ljóðmælanda.