Á sumrin koma út bækur með verma hjartað, fá mann til að slaka á og njóta. Minna mann á að lífið er til að lifa því! Bækur Jenny Colgan hafa verið áberandi sumarbækur síðan Angústúra hóf að gefa þær út á íslensku hér á landi. Ég hef heyrt af konum sem endurlesa sömu bókina aftur og aftur á hverju sumri, til að koma sér í sumargírinn. Konur kaupa þessar bækur í bílförmum, en ég á enn eftir að hitta karlmann sem hefur lesið bækurnar. Markhópur Colgan er án nokkurs vafa konur.
Í sumar kom út bókin Litla bókabúðin við vatnið eftir Colgan í prýðilegri þýðingu Ernu Erlingsdóttur. Konur sækja sér bókina, tryggar sínum höfundi, og lesa hana yfir eina helgi. Sagan segir frá hinni tæplega þrítugu Zoe sem á soninn Hari, sem talar ekki þótt hann sé orðinn fjögurra ára gamall. Zoe hefur misst samband við barnsföður sinn, Jaz (litla bróður Surinder úr hinum bókabúðabókunum) og berst í bökkum í rándýrri London. Í von um betra líf flyst hún til Skotlands til að sjá um móðurlaus börn á herrasetri, sem hefur slæmt orð á sér, og leysa Ninu af í bókabílnum.
Ástin blómstrar!
Bókin er nokkuð fyrirsjáanleg og Colgan styðst við þrautreynda formúlu, sem hefur fleytt henni langt. Sjálf hef ég ekki enn lesið fyrri bækur Colgan sem hafa komið út á íslensku, en hef þó nokkuð góða mynd af þeim í huganum (og langar að lesa þær). En þrátt fyrir að vera mjög fyrirsjáanleg þá naut ég þess að lesa bókina. Ég hneykslaðist á réttum stöðum, fann hlýjuna á öðrum og var pirruð með Zoe yfir þumbaragangi Ramsey Urquart. Það er auðvelt að detta inn í þessar bækur, sé maður þannig þenkjandi. Að sama skapi er auðvelt að leggja þær frá sér og gleyma þeim að lestri loknum.
Bækur sem þessar eru að mínu mati fullkomnar í fríið. Þær eru auðveldar og aðgengilegar í lestri, þær krefjast ekki mikils af lesandanum, ekkert slæmt á sér stað og ástin fær að njóta sín í öllum sínum dýrðleik. Í heimi þar sem allt er ennþá svolítið skakkt og erfitt þá er gott að eiga afdrep í bókum sem þessum, þar sem allt gengur upp fyrir sögupersónuninni. Þar fyrir utan gerist bókin í Skotlandi, sem gerir allt einhvern veginn enn meira töfrandi.