Lilja Magnúsdóttir

Lilja er Selfyssingur, fjögurra barna móðir og skólavörður skólabókasafnsins í Grundarfirði. Hún hefur alltaf haft þráhyggju fyrir bókum, á erfitt með að leggja bók frá sér sem hún byrjar að lesa og þegar hún var krakki var henni skammtaður tími til lestrar. Hún var 11 ára þegar hún fékk fyrstu ástarsöguna í jólagjöf en það var bókin Systurnar eftir Danielle Steel. Móðir hennar tók bókina og faldi, þar sem henni fannst barnið of ungt til að sökkva sér niður í ástarsögur. Það sem móðir hennar hinsvegar vissi ekki var að Lilja hafði þá þegar laumast til að lesa allar ástarsögur Ingibjargar Sigurðardóttur sem og Dalalíf Guðrúnar frá Lundi sem prýddu bókahillur heimilisins. Lilja er alæta á bækur, þó ævisögur og spennusögur séu kannski síst í uppáhaldi. Fyrir nokkrum árum vann hún í Bókakaffinu á Selfossi en fékk lítið útborgað um hver mánaðarmót sökum hárra úttekta í fornbókadeild verslunarinnar. Bókahillur heimilisins eru því löngu sprungnar og bókakassarnir í bílskúrnum farnir að breiða úr sér. Fyrir þremur árum stofnaði Lilja leshóp í Grundarfirði sem nú telur um fimmtán konur og hittast þær mánaðarlega allt árið um kring. Þeirra markmið er ekki aðeins lestur alls kyns bóka heldur hafa þær lagt sitt að mörkum til að efla yndislestur barnanna í samfélaginu í Grundarfirði og gáfu þær grunnskólanum farandbikar sem er afhentur ár hvert þeim bekk sem hefur staðið sig best í lestri undanfarinn vetur. Halldór Laxness er í sérlegu uppáhaldi hjá Lilju, hún er yfirleitt með bók eftir hann á náttborðinu til að grípa og Íslandsklukkan er sú bók sem hún hefur oftast lesið enn sem komið er.

Fleiri færslur: Lilja Magnúsdóttir

Grátvíðir

Grátvíðir

Grátvíðir eftir Fífu Larsen er spennusaga með rómanísku ívafi (eða mögulega er það öfugt) og...

Fullorðið fólk

Fullorðið fólk

Stundum slysast inn á borð til mín bækur sem ég mögulega hefði annars ekki valið mér að lesa....