Stundum slysast inn á borð til mín bækur sem ég mögulega hefði annars ekki valið mér að lesa. Fullorðið fólk eftir Marie Aubert, er einmitt ein slík bók.  Bókaútgáfan Benedikt gefur hana út en hún er nýjasta viðbótin í Sólinni,  áskriftarklúbbi útgáfunnar. Þar sem ég á það til að velja bækur eftir kápunni er ég ekki svo viss um að þessi bók hefði gripið augað við fyrstu sýn.  Því eru það oft bækur eins og þessi sem minna mig á að dæma ekki bók eftir kápunni, lífsmottó sem gott er að heimfæra á allt mögulegt í lífinu.  Bókin Fullorðið fólk er sum sé hér til umfjöllunar, því þó freistandi sé að þvaðra um mín lífsins gildi er það brunnur sem er ótæmandi og öðrum lítt til skemmtunar.

 

Ekki fer allt eftir áætlun

Aðalpersóna bókarinnar er Ida, rúmlega fertugur arkitekt, einhleyp og barnlaus, sem upplifir að hennar innri líkamsklukka er farin að síga á seinni helminginn og hún því að falla á tíma. Glötuð Tinderstefnumót og algjörlega misheppnuð samskipti við hitt kynið eiga einnig sinn þátt í að hún ákveður  að taka til sinna ráða og eignast barn, ein og óstudd, með aðstoð tækninnar. 

Þegar sagan hefst er Ida á leið í sumarbústað fjölskyldunnar til að fagna 65 ára afmæli móður sinnar, en einnig til að færa þeim þær fréttir að hún sé búin að panta tíma í frjósemismeðferð.  Í sumarbústaðnum hittist fjölskylda Idu; Marta, litla systir hennar og  Kristófer, sem er maður Mörtu,  Olea, dóttir Kristófers úr fyrra sambandi og móðir Idu ásamt sínum manni.  En hlutirnir fara öðruvísi en Ida ætlaði. Marta byrjar á að tilkynna að hún sé ófrísk eftir mikla frjósemiserfiðleika. Þar með hefst tilfinningarússibani Idu, sem upplifir öfund, afbrýðissemi og skömm – tilfinningar sem hafa kraumað innra með henni frá barnæsku.  Minningar úr æsku blossa upp. Idu finnst Marta hafa hrifsað til sín eða jafnvel eyðilagt fyrir henni tækifæri, móðir þeirra hafi ávallt tekið Mörtu fram yfir hana. Idu finnst sem Marta hafi í höndunum eitthvað sem hún eigi ekki skilið og hafi ekki unnið fyrir. Og enn og aftur upplifir Ida óléttu Mörtu sem sigur í kapphlaupi.  Því þó Ida gefi í skyn að hún sé búin að þrá fjölskyldu og barn í langan tíma er ýmislegt sem gefur til kynna að hún sé í keppni við Mörtu.

„Ég ræði stundum við samstarfsfólkið mitt í matarhléinu um litlu systur mína sem er svo upptekin af því að eignast barn, ég segist ekki skilja hvernig hún hafi orku í þetta, það hljóta að vera aðrir hlutir sem vert er að eyða lífi sínu í en að reyna og reyna.“ bls 13

Fjölskylduflækja

Bókin er mjög vel skrifuð, Ida er trúverðug persóna, upplifun hennar af því að vera orðin fertug, einhleyp og barnlaus er sársaukafull. Hún upplifir allt í senn söknuð eftir einhverju sem mögulega á ekki eftir að verða, tilhlökkun til þess sem mögulega gæti orðið og svo reiði, afbrýðissemi og öfund út í litlu systur sína sem að hennar mati hefur fengið allt upp í hendurnar á kostnað Idu og án þess að hafa þurft að hafa nokkuð fyrir því. Mörtu og hina í fjölskyldunni sjáum við aðeins með augum Idu. Þegar líður á læðist að manni sá grunur að Ida sé ekki alveg sanngjörn í lýsingum sínum á Mörtu við okkur lesendurna. Hún lýsir Mörtu sem latri, sérhlífinni og mögulega óhæfri móður. Sálfræðihernaður, leynimakk og óheiðarleg samskipi Idu við fólkið sitt hristir upp í samskiptum fjölskyldunnar og búa til átök og ekkert verður þar á eftir eins og það var.  Þetta tilfinningaflóð er kunnuglegt, pirringur innan fjölskyldu sem aldrei er almennilega ræddur, kraumar jafnvel árum saman og endar á að búa til fjarlægð og algjört samskiptaleysi; þetta fyrirfinnst í mörgum fjölskyldum. Og það er athyglisvert að skoða tilfinningauppgjör Kristofers, hvernig hann byrgir allt inni þar til áfengið fer að losa um.

„Konur eru konum bestar“ er slagorð sem hefur mikið verið hampað. En er það svo? „Þarf ég að rífa eina niður til að hífa mig upp?“ syngja stelpurnar í hljómsveitinni FLOTT og það er eiginlega spurningin sem lesandinn situr uppi með í lok bókarinnar og fær svar við.  Öfund og afbrýðissemi tætir þann upp sem leyfir slíkum tilfinningum að ráða ferðinni og getur búið til sár og miska sem erfitt getur verið að græða eða bæta fyrir. En þegar öllu er á botninn hvolft þarf Ida að sætta sig við það líf sem hún hefur og hætta að láta sig dreyma um líf sem hún getur ekki fengið.

Og þá komum við aftur að lífsmottunum, dæmum aldrei bókina (eða fólk) eftir kápunni og látum okkur nægja það sem við höfum kost á að öðlast.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...