Sóley í Undurheimum – skemmtileg saga, með fallegan boðskap.

Sóley í Undurheimum er nýjasta viðbótin í áskriftarklúbbi Bókabeitunnar, Ljósaseríunni. Þetta er önnur bókin um hana Sóley en höfundurinn Eygló Jónsdóttir hefur þar að auki gefið út tvær ljóðabækur.

Bókin fjallar um Sóleyju, sem ásamt hundinum sínum Bóbó hrapar alveg óvænt niður í myrkan heim Undurheima. Í fyrri bókinni um Sóleyju hafði galdrastelpan Trilla gefið henni galdra-armband sem hafði þann eiginleika að geta galdrað Sóleyju í heimsókn til Trillu ef rétt var farið að. En þar sem Sóley stillir armbandið vitlaust lenda þau Sóley og Bóbó hins vegar óvænt í Undirheimum. Þar í skóginum er alltaf kolsvart myrkur og furðulegar verur á ferli. Allt fer þetta vel að lokum án þess þó að endir sögunnar verið tíundaður hér.

…ef við töpum voninni og glaðværðinni þá er voðinn vís.

Bókin skiptist í ellefu kafla og hver kafli samanstendur af stuttum senum sem eru svo brotnar upp með efnisgreinum. Sagan er skemmtilega skrifuð, auk þess er textinn  lipur og skýr, setningar stuttar sem auðveldar lesturinn fyrir unga lestrarhesta. Bókin er fallega myndlýst en Hafsteinn Hafsteinsson sá um myndlýsingu. Athygli vekur sérlega vel gerð og girnileg bókakápa sem vafalaust grípur athygli barnanna auðveldlega. Mikilvægi þess að bókakápa sé falleg skyldi aldrei vanmeta.

Sagan er sögð í þriðju persónu og sjónarhornið hlutlægt, lesendur fá eingöngu að skyggnast inn í huga Sóleyjar. Persónurnar eru frumlegar, brokkolíaparnir, bananamennirnir og sveppaskrímslið eru kostulegar verur þó stundum geti farið um lesandann þegar ógnvekjandi vera eins og sveppaskrímslið mætir í öllu sínu veldi. Innri tími sögunnar er sólarhringur en ytri tíminn er óræður. Fléttan í sögunni raknar upp á óvæntan máta í lok bókar og boðskapurinn er skýr, ef við töpum voninni og glaðværðinni þá er voðinn vís.

Sóley í Undirheimum minnir á margan hátt á bók Andra Snæs Magnasonar, Sagan af Bláa hnettinum. Í báðum þessum bókum er um að ræða framtíð sem gæti verið lituð svörtum litum, það er þó á valdi kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi að bjarga henni. Örlítið minnir þetta einnig á Gretu Thunberg og hennar baráttu fyrir jörðinni fyrir okkur öll.  Í heimi þar sem loftslagsváin er orðin alvöru ógn gagnvart börnum sem eru að vaxa úr grasi veitir ekki af sögum þar sem vonin er haldreipið. Því án hennar er flest barátta glötuð, hverju nafni sem hún nefnist. Líka er hægt að finna vísun í Lísu í Undralandi eftir Lewis Carrol, báðar eru sögupersónurnar litlar stelpur með hund sem slysast á einhvern yfirnátturlegan hátt í ferðalag, sem við fyrstu sýn sést ekki fyrir endann á.

Ekki bara fyrir byrjendur

Sóley í Undurheimum er skemmtileg saga með fallegan boðskap. Hún er spennandi og á köflum fyndin og ætti að höfða til breiðs aldurshóps. Ljósaserían er sérstaklega markaðssett sem lestrarefni fyrir þau börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í lestrinum. Hins vegar gætu þessar bækur hæglega höfðað til þeirra sem örlítið lengra eru komnir. Það er því gleðilegt að efni, ætlað þeim sem eru að læra að lesa, sé það vel unnið og vandað að það höfði til þeirra sem örlítið eldri eru og lengra eru komnir í lestrarhæfninni. Eygló Jónsdóttir kann greinilega að skrifa fyrir börn, Sóley í Undirheimum er því bók sem krakkar ættu að hafa gaman af og eiga auðvelt með að lesa.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...