Grátvíðir eftir Fífu Larsen er spennusaga með rómanísku ívafi (eða mögulega er það öfugt) og fjallar um Jóhönnu, íslenska konu búsetta á Ítalíu.  Hún er einstæð móðir, ekkja, og býr í sama húsi og tengdafaðir hennar.  Þegar lík af konu finnst í nágrenninu er hún kölluð til af lögreglu til að bera kennsl á hina látnu þar sem símanúmer Jóhönnu finnst á líkinu. Er það eina vísbendingin sem rannsóknarlögreglumaðurinn Roberto hefur til að byrja með.  En þó Jóhönnu finnist konan kunnugleg hefur hún ekki hugmynd um hver hin myrta er. Þar til að tengdafaðir hennar flækist inn í atburðarásina sem fljótlega fer að taka á sig ákveðna mynd. Til að leysa þetta mál og finna út af hverjum líkið er, leggja þau land undir fót um þvera Ítalíu, Jóhanna og lögreglumaðurinn Roberto, þar sem grunur leikur á að æskustöðvar tengdaföðurins geymi svörin sem þeim vantar.

Ást í hægagangi

Ég get ekki sagt að þessi bók hafi gripið mig. Ég kláraði hana meira af þrjósku en löngun. Það er eins og höfundur hafi ekki almennilega ákveðið í hvorn fótinn hann ætti að stíga þegar bókin var skrifuð. Persónurnar eru ósannfærandi, Jóhanna er einhvern veginn stöðnuð i lífinu og syrgir eiginmanninn en samt er það heldur ekki sannfærandi.  Hún fær fljótlega áhuga á lögreglumanninum Roberto og hann á henni, en bæði eru þau hálf klaufaleg í þeim tilfæringum, ástin er forboðin enda konan vitni í máli sem er á hans borði. En fyrir lesandanum er þetta allt frekar augljóst og fyrirsjáanlegt og þessi forboðna ást þegjandaleg og skilar ekki mikilli ástríðu til lesandans.

Lögreglumaðurinn er eins og dæmigerð persóna í Rauðu seríunum, þögull karlmaður með duldan harm, algjörlega á valdi vinnunnar. Hann lítur ekki við kvenfólki enda búinn að missa eina konu sökum vinnufíknar og ætlar ekki að lenda í því aftur.  Þar til íslenska konan grípur athygli hans og án þess að það komi nokkurn tímann í ljós hvernig henni tókst það eða hvað var sem heillaði hann.

,Lágspenna en ekki háspenna

Spennuvinkill bókarinnar er einnig frekar máttlaus. Ferðalag þeirra skötuhjúa er fyrirferðarmikið í bókinni, en samtölin milli þeirra stirð og stundum er eins og það liggi ekki alveg ljóst fyrir hvernig þau eigi að kveikja ást úr þessu þó öllum sé ljóst að það endi þannig. Sem lögreglumaður fer Roberto langt út fyrir allt sem eðlilegt getur talist í samtölum sínum við vitnið Jóhönnu, fagmennskan, sem drýpur af honum í hverju spori, fýkur út um gluggann strax í fyrsta kafla. Úrlausn morðmálsins er svo leyst á nokkrum blaðsíðum en er samt lesandanum frekar augljós töluvert fyrr. Roberto reynist ekki sá sem Jóhanna telur hann vera og afskrifar hún hann því alveg, en á síðustu síðu verður algjör og tilefnislaus viðsnúningur svo allt endar vel.

Málfar bókarinnar er á köflum stirt, setningar koma fyrir sem fara illa í rituðu máli og enn verr lesnar upphátt. Sem dæmi má nefna í byrjun bókarinnar þegar Jóhanna lítur líkið af konunni augum í fyrsta og eina sinn:

Á jörðinni liggur dökkklædd kona á hlið ofan á hörðum maísgrasstilkunum. Hörð hvíla það. bls 9

„Hörð hvíla það“. Ég á ávallt í vandræðum þegar ég rekst á setningar sem mér finnast ekki falla að textanum og ósjálfrátt fer ég að leita uppi fleiri slík dæmi.  Eins og ég ýja að hér að ofan olli persónusköpunin mér einnig vandræðum, ég náði engri tengingu við þau Jóhönnu og Roberto, það var lítið sem gaf mér einhverja sýn á þau.  Og þar sem sagan er sögð í fyrstu persónu sér maður einungis í huga Jóhönnu og hún gefur lítið uppi.

Grátvíðir er ástarsaga, skrifuð undir rós fyrir þá sem vilja lágstemmda rómantík  í bókum. Ástin á milli Jóhönnu og Roberto minnti mig stundum á ástina í bókum Ingibjargar Sigurðurdóttur hér áður fyrr, þar sem ekkert mátti segja er mögulega gæti þótt óviðeigandi eða dónalegt.  Og Grátvíðir er spennusaga fyrir þá sem eru með of háan blóðþrýsting og þola ekki óbærilega spennu. Með öðrum orðum, fínt mótvægi við þær bækur sem sumum lesendum af eldri kynslóðinni (og þá á ég við móður mína) þykir fara yfir strikið. En að því sögðu þá liggur það ljóst fyrir að kemistríið milli mín og þessarar bókar er af skornum skammti og var ég því fljót að snúa mér að þeirri næstu.

En meira um það síðar.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...