Aðgát og örlyndi, ó elsku Jane

Ég hef alltaf verið aðdáandi lávarða og hertoga, búningadrama hefur heillað mig frá því ég nánast lærði að lesa. Ég er alin upp við Sögusafn heimilanna og þið sem munið þær bækur, og lásuð hér á árum áður, munið eftir bókartitlum eins og AðalheiðiKapítólu og Ævintýri í Þanghafinu.  Hversu ljúft var ekki lífið hér áður fyrr með þessum eðalbókmenntum?

Þessar bækur áttu það sameiginlegt að enda vel, fátæka munarlausa stúlkan reyndist á lokablaðsíðunni vera aðalsborin eftir að týnd erfðaskrá látna hertogans fannst af tilviljun. Og þar með gat hún gifst lávarðinum af Blueberryhills og eignast með honum litla lávarða og arflausar dætur.  Sem sagt, búningadrama af bestu gerð í rituðu máli.

Opinberun í Kolaportinu

Í æsku, og langt fram á unglingsárin, heyrði ég aldrei minnst á rithöfundinn Jane Austin. Ekki fyrr en ég varð fullorðin og rakst af tilviljun á bók í Kolaportinu sem hét Hroki og hleypidómar.  Hmm… ólesið búningadrama, hugsaði ég hissa og furðaði mig á því hvers vegna þessi höfundur prýddi ekki bókahillur móður minnar ásamt Sögusafninu góða.  Hroki og hleypidómar er svo sannarlega búningadrama en lengra nær samsvörunin við Sögusafnið ekki.  Jane Austin er einn af merkari rithöfundum síns tíma, prestsdóttir, fædd 1775 en bjó við þann veruleika að verða, ásamt móður sinni og systur, húsnæðislausar eftir dauða föður Jane. Bróðir hennar hins vegar sýndi af sér ómælda góðvild og skaut skjólshúsi yfir móður sína og systur.  Jane giftist aldrei, hóf snemma að skrifa en þá í laumi og um þrítugt hafði hún lagt drög að þremur skáldsögum, Sense and Sensibility, Northanger Abby og Pride and Predjudice.

Það er ekki fyrr en árið 1956 sem fyrsta íslenska þýðingin á bók eftir Austin kom út en Hauksútgáfan réðst þá í að láta þýða Pride and Predjudice. Bókin fékk titilinn Ást og hleypidómar. Engan þekki ég þó sem á þá bók eða hefur lesið hana.  Ekki er getið þýðanda en mér tókst að komast yfir eintak á bókasafni og verð að segja að sagan er talsvert mikið stytt.  Eintakið sem ég fann í Kolaportinu kom út 1988 og er þýðing af sömu bók en hafði þá fengið nafnið Hroki og hleypidómar, þýdd af Silju Aðalsteinsdóttur.
Ekkert bólar svo meira á Jane Austin í bókmenntaflóru þýddra skáldsagna hér á Íslandi fyrr en viti menn! árið 2012 kemur skáldsagan Emma út á vegum Forlagsins í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur.   Áhugaleysi bókaútgefenda á verkum Austin hefur vakið furðu mína. Bækur hennar teljast til merkustu bókmenntaverka Englendinga, búningadrama á sér dyggan aðdáendahóp og það verður nú að segjast eins og er að annað eins er gefið út af allskonar mis-vönduðum bókum. Það er því undarlegt að heimsbókmenntir eins og bækur Austin hafi ekki fengið meira pláss og meiri athygli hér heima.

Þrekvirki Silju Aðalsteinsdóttur.

Nú hefur þriðja bókin litið dagsins ljós í íslenskri þýðingu en Silja Aðalsteinsdóttir hafði ekki gleymt Jane frá því hún þýddi Hroka og hleypidóma og tók sig til og þýddi fyrstu og jafnframt eina af frægustu bókum hennar, Sense and Sensibility. Þýðingin er listaverk ein og sér, gríðarlega mikið þrekvirki og hlaut bókin titilinn Aðgát og örlyndi, ég nota hér með tækifærið og þakka Silju af öllu mínu hjarta. Mig langar að beina athyglinni að þessari bók í þessum pistli og eftir þennan langa formála. En þið fyrirgefið, Jane Austin er rithöfundur sem er hreinlega ekki hægt að hlaupa yfir á hundavaði.

Aðalpersónur sögunnar eru þær systur Elinor og Marianne Dashwood sem, ásamt móður sinni og yngstu systur, búa við það hlutskipti að lenda á götunni eftir fráfall föðurins.  Sonur föðurins úr fyrra hjónabandi erfir óðalið og þar sem eiginkona sonarins hefur til að bera bæði eigingirni og sjálfhverfu hrökklast þær systur ásamt móðurinni burt og fá upp á náð og miskunn húsnæði sem fjarskyldur frændi býður þeim til afnota.   Miðað við ævi Jane sjálfrar var þetta veruleiki kvenna á þessum tíma, dætur erfðu ekki feður sína heldur synirnir og gilti þá engu hvar þeir voru í systkinaröðinni. Ef enginn var sonurinn fór arfurinn til þess karlmanns sem næstskyldastur var í röðinni.

Sú skynsama og sú hvatvísa.

Elinor og Marianne hafa því þann eina kost í stöðunni að giftast til fjár ellegar vera upp á náð og miskunn frændans sem reynist þeim þó vel. Gifting til fjár er ekki takmarkið sem þær systur einblína á, né ætla þær sér að hanga í pilsfaldi frændans ævina á enda. Elinor hefur augastað á Edward Ferrars en hann er bróðir mágkonu hennar og kominn af gríðarlega auðugu fólk. Svo auðugu að búið er að ákveða fyrir hann verðugt konuefni svo öruggt sé að hann giftist ekki niður fyrir sig og verði móður sinni þar með til skammar.

Auðæfi Edwards eru þó ekki það sem heillar Elinor, hún laðast að persónunni sjálfri og auðæfi og metorð Edwards skipta hana engu. Og þar sem Elinor er hvorki auðug né af réttu fólki komin yrði það hlutskipti Edwards að verða gerður arflaus fari hann eigin leiðir í kvennamálum. Elinor þarf þó ekki að hafa örlög Edwards á samviskunni þar sem hann reynist trúlofaður enn aumara kvonfangi og því fátækt og basl sem við blasir við veslings manninum.  

Marianne er sú hvatvísa og verður ástfanginn af ómerkilegum glaumgosa sem svíkur hana illa og þar sannast orðatiltækið að oft er flagð undir fögru skinni.  Þökk sé helmingi eldri herramanninum Brandon ofursta rætist þó að lokum úr öllum hennar vandamálum. Að velja manninn eingöngu eftir útliti og fagurgala er því ekki vænlegt, hann þarf að hafa aðra kosti til að bera og á þessum tíma þótti aldursmunur ekkert tiltökumál.

Aðalkvenpersónurnar í bókum Austin eru því þessar skynsömu  konur sem vissu hvað þær vildu, stóðu við eigin sannfæringu, trúðu á eigin verðleika og framkvæmdu umfram allt alltaf af skynsemi og hógværð.

Í aukahlutverkum voru það svo hinar, sem voru andstæðan, óskynsamar og hvatvísar, töluðu af sér áður en þær hugsuðu og létu tilfinningarnar algjörlega ráða ferð, voru sjálfumglaðar og lausmálga. Og margar hlutu því fyrir vikið frekar ömurleg hlutskipti, líkur sækir líkan heim og allt það.

Þær sem sáu að sér, eins og Marianne, náðu að snúa blaðinu við, sáu villur síns vegar og bættu ráð sitt. Og hlutu fyrir vikið ágætis lendingu í lífinu. Það er eins og Austin sé með því að segja að andlegan þroska þurfi til að manneskjan njóti velgengni í lífinu og þá er ekki verið að tala um efnislega velgengni. En kvenpersónur Austin eru þó keimlíkar að mörgu leyti, burtséð frá yfirvegun og skynsemi. Lífið snýst um útsaum og píanóspil, slúður um náungann og endalausar spekúlasjónir um næsta dansleik. Allar dæma þær hvora aðra hart, dæma vonbiðlana hart, dæma eftir stétt, menntun, ætterni og hvort viðkomandi kona ætti viðeigandi móður. Hún var sérlega aumkunarverð sú unga stúlka sem átti móður sem ekki kunni að haga orðum sínum á viðeigandi máta, hló of hátt, of mikið og á vitlausum stöðum.

Örlög auðugra karlmannanna réðust af því hvort réttu konurnar vildu þá eða ekki, eða hvort þeir kynnu yfirhöfuð að velja réttu konuna. Hvort þeir ættu von á arfi og hvort þeir kynnu þá að fara vel með hann. Edward Ferrars er vonlaus í að velja sér konu, hann er óframfærinn og seinheppinn í mannlegum samskiptum á meðan glaumgosinn hennar Marianne á ekki í vandræðum með að heilla stúlkurnar og jafnvel fleira en eina í einu. Sem á endanum kemur honum um koll.  Vesalings Barton ofursti situr svo á kantinum og bíður, vonar og þráir. Verst var að fá augastað á konu sem hafði sjálfstæða hugsun en sem betur fer voru þær fáar í bókum Austin, oftast bara ein eða tvær og þá jafnan systur. Og slíkar konur var erfitt að vinna. Fyrir fátækan karlmann var það ekki síður mikilvægt að eignast auðuga konu.  Á tímum Jane Austin, þar sem staða kvenna snérist í raun um að eignast auðugan mann, var fyrirbæri eins og ást og virðing húmbúkk sem ekki þótti taka að láta sig dreyma um.

“I say when; I say who; I say when…”

En Jane Austin er full af mótþróa á þessu fyrirkomulagi. Hún er ekkert endilega hlynnt eintómum ástríðum en leggur áherslu á að þau sambönd reynist best sem þróast hægt, þar sem gagnkvæm virðing og væntumþykja er grunnurinn sem hjónabandið er byggt á. Hún hæðist að titlatogi og útlitsdýrkun, rífur miskunnarlaust niður ríkjandi viðhorf og deilir á samfélagið eins og það virðist hafa verið á þessum tíma.  Hún hæðist að yfirborðskenndum og oft á tíðum rætnum samræðum um náungann, sjálfsdýrkun og hroka þess fólks sem taldi sig öðrum æðri sökum stétta og auðæfa. Með öðrum orðum, Jane Austin gerir stólpagrín að yfirstéttinni, dregur fram í dagsljósið mynd sem sýnir tilgerð, drambsemi og iðjuleysi.

Þar að auki eru sumar þessara kvenpersóna hennar beinlínis í uppreisn. Þær hika ekki við að hryggbrjóta auðuga og eftirsótta piparsveina í trássi við vilja og reglur samfélagsins, þær standa upp fyrir sjálfum sér, hafa skoðanir og ákveða sjálfar hvað þær vilja fá út úr sínu lífi, með hverjum og hvenær.  Ósjálfrátt dettur mér í hug sena úr Pretty Woman þar sem Julia Roberts, í hlutverki gleðikonunnar Vivian, stendur fyrir framan Richard Gere, í hlutverki vellauðugs viðskiptavinarins, og segir þrjóskulega og ákveðið:  “I say who; I say when; I say who..“   Það er því ótrúlegt að þessi kona, Jane Austin, hafi náð að skipa sér sess meðal fremstu rithöfunda Bretlands. Eða nei, ég ætla að umorða þetta, það er ótrúlegt að þessi kona, Jane Austin, hafi verið samþykkt sem einn af fremstu rithöfundum Breta og það nánast í sinni samtíð, þar sem rithöfundar voru eingöngu karlmenn. Ein kona í hópi meðal karla og naut virðingar sem skáld.

Margar greinar hafa verið skrifaðar um áhrif Jane Austin á skvísusögur og rómantískar skáldsögur í gegnum tíðina.  Þið, sem viljið kynna ykkur enn frekar þann vinkil,  þá vil benda ykkur á fyrirlestra og greinar eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur en hún hefur sérhæft sig í áhrifum Jane Austin á rómantískar kvennabókmenntir. En ég vil ekki horfa þangað, fyrir mér er hún ekki ástarsagnahöfundur þrátt fyrir vísun í rómantísku myndina Pretty Woman hér ofar. Fyrir mér er Jane svo miklu miklu meira og stærra. Hún rífur í sig feðraveldið, tætir í sig sjálfskipað yfirvald, blæs á hagkvæmnisástir og örlög, og hlær svo að öllu saman.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.