Svínið Pétur lifir yndislegu, mínímalísku lífi. Hann á einn sandala og gítar sem hann glamrar á á götuhorni. Hann á húsið Setur og er bara alsæll í sínum heimi. Það kemur honum því spánskt fyrir sjónir þegar önnur dýr fara að ágirnast alla hans hluti og bjóða honum gull og græna skóga í skiptum. Svíninu Pétri þykir samt lítið til koma, hafnar gylliboðunum og heldur áfram sínu einfalda en þó svo fullnægjandi lífi.

Svínið Pétur er skemmtileg barnabók sem er skrifuð í nokkurs konar bundnu máli af Guðmundi Steingrímssyni, fyrrverandi Alþingismanni. Hann segir í viðtali við mbl.is að bókin sé undir einhverjum áhrifum frá Kettinum með höttinn og ég sé það vel á textanum.  Í textanum ríma nokkur orð og úr verður skemmtilegur hrynjandi þegar lesið er upphátt. Boðskapurinn með bókinni er ekki síðri, maður á ekki alltaf að leita eftir einhverju betra þegar það sem maður á er bara alveg prýðilegt. Græðgin er óþörf, það er óþarfi að eiga alltaf það besta og flottasta og taka þátt í öllum þessum endalausu tískustraumum. Bókin er skrifuð í nóvember árið 2007; á hápunkti góðærisins. Guðmundur segir í sama viðtali að í bókinni sé kannski örlítil gagnrýni á geðveikina sem var allsráðandi á þeim tíma. Bókin er myndskreytt af Halldóri Baldurssyni, sem er hvað þekktastur fyrir skopmyndir sínar í Fréttablaðinu.

En þótt Svínið Pétur sé skemmtileg bók með notalegum hrynjanda kemur oft fyrir mað tungan þvælist fyrir manni við lesturinn þegar lesið er upphátt. Nú tel ég mig ágætis lestrarmanneskju, orðin þaulvön að lesa upphátt og skýrt og greinilega. En þegar ég les Svínið Pétur fipast mér ansi oft. Bókin er 32 blaðsíður og á hverri síðu er þó nokkur texti. Við höfum því aldrei náð að klára alla bókina í einni lotu, þótt tuðað sé um það. Ég hugsa að tungan myndi hreinlega ekki lifa það af. En bókin er skemmtileg.

Lestu þetta næst

Litskrúðug gleðisprengja

Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu....

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...