Sögur til næsta bæjar: Afturganga á gatnamótum með tómt kort í vasanum

Afturganga á gatnamótum með tómt kort í vasanum

Eftir Hrafnhildi Emmu Björnsdóttur

Skjálfandi hendur styðja sig við keramíkbrúnina og fingurgómar blæða vegna sprungna á yfirborðinu. Hún stendur svipbrigðalaus við vaskinn og starir á spegilmynd sína gráta. Tár leka úr krananum og elta hvert annað ofan í niðadimmt niðurfallið. Fötin eru svört, svört höfuðslæða og síður svartur kjóll. Klæðin gegnvot væta gólfið. Gráta á gólfið. Dripp! Dropp! Droparnir vökva gólfið. Í djúpum polli blána berar tær er bláu augun blína enn á spegilinn. Mamma sagði alltaf að maður ætti að líta í spegil til að kynnast sjálfum sér. Spegilmyndir bera ekki grímur.

dh, dh.

dh, dh.

dh, dh.

dh, dh.

Taktföst slög berjast um í brjósti hennar. Hjartsláttur telur sekúndur, mínútur, klukkutíma, ár og aldir. Meðfram flísunum reyna smáar spírur að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Dökkur, mjúkur mosi drekkur í sig vökvan og breiðir úr sér á gólfinu, rætur hans faðma fætur hennar.  Mikilfenglegar grænar jurtir rísa upp og gnæfa yfir mosanum. Þær blómstra í myrkrinu. Svartar rósir teygja höfuð sín í átt að svarta síðkjólnum. Veggirnir brotna, molna, verða að bráð tímans. Fólk fæðist og fólk fellur frá, tillitslaus taktur tímans tekur og tekur.

Tikk.

Tikk.

Tikk.

Tikk.

Áður lýsti loginn upp skuggann en að lokum brann kertið út. Innra með henni reisti myrkrið ríki sitt.

Gefa, gefa, gefa, gefa en aldrei fékk hún að þiggja. Hún faðmar, er til staðar, hún huggar, hún hjálpar, hún fórnar… sér.

Lifandi liðin losnar hún en ekkert er eftir til að gefa. Brenna.

Myrkrið heltók hana. Hún fór aftur á bak á meðan tíminn þaut áfram. Henni sjálfri fannst hún standa í stað sem afturganga á gatnamótum með tómt kort í vasanum. Hún snýr sér undan, hún hunsar, hún lokar augum, hún bregst. Aldrei til staðar, ekki í eigin líkama. Ekki fyrir neinn. Hún gerði ekkert, fór ekkert.

Lifði ein í grafarþögn.

dh, dh.

dh, dh.

Lágt skrölt berst til eyrna gegnum mosann…

dh, dh.

dh, dh.

…er þúsund litlir fætur skríða gegnum lagnirnar í leit að samastað.

Eitt símtal og veröldin hrynur.

Í baðinu hafa agnarsmáir krabbar hreiðrað um sig. Þeim fjölgar hratt og bráðum vella þeir upp úr karinu, skella á hörðum skeljum hvers annars og leita skjóls í mjúkum mosanum.

Mamma, sem áður hafði mikla útgeislun bindur nú allar sínar vonir við inngeislun. Bálið sem kveikti á kertinu brennur út, eitt og yfirgefið.

Rauðar klær klípa í tær og klippa niður svörtu rósirnar.

Eitt.

Tvö.

Þrjú.

Fjögur…

Rauðir krabbar skríða upp eftir skrokknum og slíta af henni spjarirnar.

…fjörutíu ósvöruð símtöl og tvöfalt fleiri skilaboð.

Þeir hylja hana alla og hún er við það að kafna.

Mynd eftir mynd fangar athygli augna hennar. Konan á skjánum er orðin óþekkjanleg…

Rætur mosans sleppa takinu er þær deyja.

…nema á seinustu myndinni.

Hún er fangi huldra fjötra sem draga hana alltaf til baka.

Allt, sem eftir var af engu, fór í að klæðast fötum mömmu.

Krabbarnir fylla blóðugan  vaskinn og skríða svo út eftir rústum veggjanna.

            Eitt.

            Tvö.

            Þrjú.

            Fjögur skref út fyrir hússins dyr áður en hún féll saman og skreið inn á bað.

Þeir láta spegilmyndina í friði.

Hún fór ekki í jarðarför móður sinnar. Gat ekki farið.

Hún hatar sig –

Fyrirlítur sig –

Niðurlægir sig.

Hún guggnaði. Sneri bara við og fór heim.

Hún grét ekki.

Hún fann ekkert.

Hún gerði ekkert.

Hún stendur svipbrigðalaus við vaskinn og starir á spegilmynd sína gráta.

Hrafnhildur Emma eða Hremma eins og hún er oftast kölluð er tæplega 26 ára Hafnfirðingur, listakona og rithöfundur. Hún á íbúð og hund með eiginkonu sinni Cat og er núna að ljúka BA námi í Almennri bókmenntafræði með Ritlist sem aukafag. Síðustu tíu ár hefur hún tekið þátt í uppsetningum ýmissa leikrita, skrifað nokkur leikrit sjálf, samið tvö jóladagatöl og föndrað ýmislegt þess á milli. Smásagan „Afturganga á gatnamótum með tómt kort í vasanum“ er byggð á gamalli einræðu sem hún samdi árið 2017 fyrir leiklistarprufu.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...