Sögur til næsta bæjar: Kettir borða ekki brauð

Kettir borða ekki brauð

Eftir Júlíu Karínu Kjartansdóttur

Ég ligg á rúminu, sængin ofan á mér og heimurinn ofan á sænginni eins og þyngdarteppi. Ef ég ætti memory foam dýnu þá væri fullkomið mót af líkama mínum greypt í hana en ég á bara gömlu gormadýnuna sem mamma fékk í fermingargjöf. Mér er illt í bakinu. Ég ætti kannski að skipta um stellingu. Ég ætti kannski að fara fram úr.

Það eru tólf göt eftir nagla í veggnum andspænis rúminu, fimm blettir í loftinu þar sem málningin er farin að flagna og sjö dagar síðan ég fór í sturtu. Samlokubrauðpokinn á náttborðinu er næstum tómur, bara endarnir eftir, svo á morgun verða núðlur í kvöldmatinn. Loftið í herberginu er næstum því jafn þungt og heimurinn. Ég ætti kannski að opna gluggann.

Ég man þá tíð þegar ég fór á fætur um leið og ég vaknaði, bjó um rúmið og herbergið lyktaði alltaf af hreinu líni. Þyngdaraflið átti ekki við um mig og ég sveif um íbúðina, strauk fingrunum yfir fallegu grænmáluðu veggina í stofunni og gróf þeim í háu flosmottuna á gólfinu. Hún minnti mig á grasið í bakgarðinum hjá ömmu og afa sem fékk að vaxa eins og villt engi. Við tilhugsunina fann ég ósjálfrátt lyktina af túlípönunum sem amma gróðursetti á víð og dreif um garðinn og mér fannst þeir vera komnir inn í stofu til mín. Ég sat á kvöldin við hlýtt kertaljós og ljúfa tóna úr plötuspilaranum og málaði túlípana í tugavís svo að ég gæti alltaf verið með túlípana í stofunni. Ég þakti grænu veggina með túlípönunum og stofan var orðin að mínu villta engi sem ég átti alveg út af fyrir mig. Ég lá langt fram á nótt á mottunni og horfði upp í stjörnubjartan himininn sem ég málaði á loftið og hló svo dátt að fegurð heimsins að ég var með harðsperrur í maganum í marga daga eftir á.

Ég þarf svo mikið að pissa en fótleggirnir eru þyngri en heimurinn og til þess að komast inn á baðherbergi þarf ég að labba í gegnum stofuna, sára áminningu um konuna sem var einu sinni ég. Ég ætti kannski að setja svefngrímuna yfir augun og fara blinduð fram úr og í gegnum stofuna en þá færi ég kannski óvart út á svalir í staðinn fyrir inn á bað og hallaði mér of langt yfir handriðið. Við nánari athugun virðist það kannski ekki svo slæmt. Bara ef fótleggirnir væru ekki svona þungir.

Amma fór í sumarlandið á meðan ég lá á enginu mínu og var of upptekin af túlípönum og fegurð heimsins til þess að svara símanum. Hún er eflaust með sitt eigið engi þar, með grasi sem nær manni upp að hnjám og þúsundum blóma. Ég beið og beið eftir að hún kæmi að sækja mig, en þetta er kannski ferð sem kona þarf að leggja upp í sjálf. Ég vona bara að hún taki á móti mér. Ég ætti kannski að fara að koma mér.

Ég heyri þrusk frammi en átta mig ekki strax á hvaðan það kemur. Síðan fylgir lágvært mjálm og heimurinn verður í augnablik aðeins léttari. Ég lyfti höfðinu af koddanum. „Kssss ksssss, Fjóla komdu!“ kalla ég fram og hlusta eftir henni. Það er grafarþögn í íbúðinni en svo heyrist aftur mjálm, aðeins hærra í þetta skiptið. Ég hnykla brýnnar. „Ertu svöng?“ Ég lít í kringum mig. „Viltu… brauð?“ Kettir borða ekki brauð Lilja, hugsa ég með mér. Ég ligg grafkyrr um stund og safna kjarki, dreg sængina af mér með erfiðismunum og slengi fótunum fram af rúminu. Anda þungu loftinu alveg ofan í lungu og stend varlega á fætur. Sveipa mig sjalinu hennar ömmu og geng fram í stofu. Fjóla liggur á flosmottunni og malar þegar hún sér mig. Ég tek hana í fangið, haska mér inn í eldhús og helli kattamat í skálina hennar. Fyrst ég er komin fram í eldhús ætti ég kannski að fara inn á bað og pissa.

Ég sit á klósettinu og mana mig upp í að standa á fætur þegar Fjóla trítlar inn á baðherbergið og stekkur upp í kjöltuna á mér. Hún leggst út af, snýr maganum upp og byrjar að mala. Ég gref fingurna í mjúkan feldinn og um stund finnst mér ég finna ögn af túlípanalykt. Ég ætti kannski að fara í sturtu.

Júlía Karín er íslensku- og ritlistarnemi, skúffuskáld til margra ára og fiskur í stjörnumerki. Hún er frá Akureyri en ekki erfa það við hana að hinn fagri norðlenski hreimur sé horfinn, harðmælið var strítt úr henni í grunnskóla Seltjarnarness. Júlía elskar að fara í langa göngutúra á ströndinni og þess háttar klisjur.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.