Sögur til næsta bæjar: Fyrsta skrefið

Fyrsta skrefið

Eftir Davíð Sigurvinsson

Klukkan er tvö um nótt á þriðjudegi, borgin sefur líflaus og gráa sumarnóttin hylur hana með þokunni sem fylgdi regninu. Svitadropi lekur af hökunni á mér á stálhandriðið sem ég held svo fast í. Spegilmynd mín er það eina sem ég sé þegar ég reyni að horfa niður á leiðarenda minn handan handriðsins. Bólgin augu mín eru galopin en samt svo dimm og þreytt. Ég nota allan styrkinn sem ég get þvingað fram til að lyfta hægri fætinum yfir kalt handriðið. Fóturinn festir sig á syllunni svo hinn geti fylgt honum. Báðar hendur kreista handriðið og hnén eru læst saman. Ég loka augunum og dreg inn andann dýpra en ég hef áður gert, en mér líður eins og ég sé að kafna. Mig langar að gera það, ég verð að gera það en ég hreyfist ekki. Ég er föst. Ég finn fyrir gulu sokkunum mínum. Þeir eru gegn blautir eftir að ég hljóp hingað í rigningunni. Rifnu gallabuxurnar mínar og svarti jakkinn minn eru líka blaut en ég finn sérstaklega fyrir sokkunum. Blautir sokkar eru þannig séð næg ástæða til gera það. Ég hef nú þegar staðið þarna lengi en ég get ekki látið augun mín kíkja niður. Þakið á húsinu er fremur flatt, fyrir utan veggina utan um stigaganginn sem stendur við miðju þaksins. Byggingin er há. Nógu há að ég mun ekki þurfa að finna fyrir neinu. Ég er viss, alveg viss en ég get samt ekki bara hoppað. Það er svo erfitt að framkvæma svona endanlega hluti vitandi að það verður það síðasta sem ég geri. Það á að vera það, en ég get samt ekki gert það.

***

Klukkan er þrjú um nótt á þriðjudegi, augu mín eru enn þá límd saman. Grip mitt jafn fast og handriðið jafn kalt. Ég get enn ekki andað. Ég opna augun hægt og lít niður á göturnar. Bílarnir líta út eins og litríkir maurar, þeir eru allir kjurrir fyrir utan þá sem keyra fram hjá öðru hverju. Þeir eru líklegast á hundrað en fyrir mér líta þeir út fyrir að vera fastir í umferð. Heimurinn er frosinn í kringum mig. Það er bara ég hérna uppi. Ein. Eins og áður. Eins og alltaf. Ég kreisti handriðið svo fast að mér líður eins og ég er að fara að beygla það. Með hverjum slætti úr hjartanu líður mér eins og það er að fara að stökkva úr mér.

„Ok ok, einn,“ Ég loka augunum, „tveir,“ Ég losa gripið. „Og þrí-“

„Hvaddað gera~?“

Mér bregður svo mikið að ég gríp aftur í öruggt stálið með báðum höndum, síðan horfi ég til hægri að röddinni sem ég bjóst ekki við. Á handriðinu situr drengur, lágvaxinn og grannur, ekki mikið yngri en ég. Nefið hans er örlítið bogið þó annars er andlit hans samhverft og fallegt. Hann er klæddur skrítnum, litríkum fötum, eins og hann hafi misst af síðustu tíu tískubylgjum. Dökkt hárið hans dansar í golunni og hann sveiflar fótunum áhyggjulaust. Skærblá augu hans stara á mig með ákveðnu sakleysi eins og spurningin komi af eintómri forvitni.

„Það kemur þér ekki við!“ hvæsi ég.

„Er borgin ekki falleg á næturna.“ Strákurinn breytir umræðuefninu.

„Ha?“ Ég dæsi.

„Sjáðu bara,“ Hann bendir niður á göturnar. „Trén dansa mjúklega með vindinum, sólin sem er byrjuð að rísa, litar allt og heimurinn fer að glansa á ný eins og hann gerir á hverjum einasta degi. Allt er svo rólegt og fallegt, eins og maður sé einn í heiminum. Þó maður viti náttúrulega að bak við hvern einasta glugga er fólk að upplifa sinn eigin harmleik, vafið í sæng og hlýju.“

„Ertu að reyna að sannfæra mig um að koma niður?“ Ég flissa veikburða, „Ef svo ertu ekki að standa þig vel.“

„Nei, ég kom bara til að spjalla aðeins við þig áður en þú gerir það!“

Brosið mitt hverfur „Shit, ég veit ekki hvor okkar er veikari í hausnum.“

Strákurinn sveiflar enn fótunum kærulaust. „Þú hefur heyrt allar klisjurnar, ‘við elskum þig’, ‘þú ert enn ung og hefur allt lífið fram undan’ bla bla blah. Það hjálpar ekki neitt. Það er ekki hægt að rökræða við manneskju sem sér ekki tilganginn í að lifa lengur.“

Strákurinn stendur upp, enn á handriðinu og stingur út höndum til að halda jafnvægi.

„HVAÐ ERTU AÐ GERA?” hrópa ég, „Farðu niður áður en þú de-“

„Dettur?” Hann grípur fram í mér og glottir. „ Nú? Var það ekki það sem þú ætlaðir að gera?“

Ég hörfa frá augnaráði hans.

„Er það ekki annars þess vegna sem þú ert hérna uppi?“ Hann sest aftur á handriðið við hliðina á mér.

„J- Jú“ Ég horfi niður á göturnar aftur.

„Af hverju?“ Spyr hann með sömu forvitni.

Ég hika.

 „Þegar ég var yngri… hann-“

„Það skiptir ekki máli og það var heldur ekki það sem ég spurði.“ Hann grípur fram í mér aftur

Ég gef honum illt auga, ringluð. „Hvað meinarðu?“

„Það skiptir ekki máli hvað kom fyrir þig. Sama hvað það er, eins og svo margir áður þá ákvaðst þú að koma hingað. Af hverju?“

***

Klukkan er fjögur um nótt á þriðjudegi. Ég stari á hann örstutt, síðan sný ég aftur að borginni. Hann bíður þolinmóður án þess að segja orð.

„Lífið er fokking vonlaust og heimurinn er ósanngjarn. Gott fólk deyr og ÞEIR sem eiga skilið að brenna í helvíti flytja til fokking Noregs, áhyggjulaust. Hvernig er það sanngjarnt?“ Ég gríp andann á ný og horfi á hann með hvössum, rökum augum.

Strákurinn horfir á mig blíðlega. „Hver dó?”

„Mamma” Ég horfi upp í loftið til að reyna að koma í veg fyrir fossinn. „Hún varð veik fyrir ári, það lá við að hún bjó á spítalanum. Hún dó nokkrum mánuðum eftir það og-”

„Það er ekkert, eða enginn eftir til að stoppa þig?”

„J-Já”

Hann hoppar af handriðinu og styður sig við það, „Ertu viss?”

Ég toga ermarnar yfir hendurnar mínar og þerri tárin. „Já”

„Má ég giska, vinir þínir myndu ekki skilja, þú villt ekki vera byrði annars eða heldurðu að allir hati þig?” Hann stekkur aftur upp á handriði og stendur með hendurnar breiddar út eins og fugl að gera sig klárann í flug, „Væri það ekki auðveldara að binda enda á sársaukann þinn og auðvelda þeim lífið.”

„Hættu að gera grín að mér,” hvæsi ég.

Hann lætur hendur sína síga og horfir á mig, „Nei!”

„Fokkaðu þér.”

Hann sest við hlið mér aftur, „ég er ekki að gera lítið úr hvernig þér líður, en þetta er ekki lausnin… þetta er aldrei lausnin. Treystu mér hún hjálpar ekki. “

Ég stari á malbikaða þakið, renni augun í gegnum hverja rifu og skrámu. „Þau myndu ekki skilja, og já, ég vil ekki verða vandamál annars.”

„Það eru fáir sem skilja, en þau þurfa þess ekki.”

 „Hver er þá tilgangurinn í að tala við þau?” Ég næ að slíta störukeppni mína við jörðina og horfi aftur í bláu augu hans.

„Hefurðu talað við einhvern um þetta áður?”

„Nei, eða já eitthvað pínu. Aldrei um sjálfsmorð, en ég talaði eitthvað við mömmu um hvernig mér líður.”

„Prófaðu þá á mér,” Hann snýr líkama sínum að mér, “Segðu mér hvað gerðist og hvernig þér líður.”

„Svo það skiptir máli allt í einu?” Segi ég í hæði.

„Þá vorum við að tala um af hverju þú komst hingað upp, nú erum við að tala um að koma þér niður.”

Hann flissar, „Og ef það var ekki skýrt er ég að tala um stigann.”

Ég tek undir hláturinn hans, síðan anda ég djúpt og dæsi.

***

Klukkan er fimm um nótt á þriðjudegi. Ég tek minn tíma að finna svar við spurningu hans. Ég veit ekki hvað er of mikið eða hvort hann mun dæma mig. Mun hann gera grín að mér? Eftir að íhuga það í smá stund ákveð ég bara að byrja að tala og sjá hvað gerist.

„Þetta er ekki bara einn hlutur,” ég kreisti handriði fastar. „ég hef aldrei verið voða vinsæl. Krakkarnir hafa gert grín að mér og skilið mig út undan frá því að ég byrjaði í skóla. Það breytist ekki mikið í menntó, ég lærði bara að velja umhverfið mitt betur. Pabbi vildi ekkert með okkur hafa,” Strákurinn situr þarna bara og horfir á mig með áhuga. Það er pínu truflandi. „ Hann fór þegar ég var sex ára. Mamma á systur sem býr í borginni, en restin af fjölskyldunni býr erlendis. Ég hætti í menntó þegar að mamma dó og hef unnið hræðilega vinnu til að halda uppi litlu íbúðinni sem hún skildi mig eftir í.”

Hann lyftir hönd sinni upp til að biðja um að tala sem er óvenjulegt miðað við hversu mikið hann grípur fram í.

„Hefur frænka þín ekki boðið þér að vera hjá henni?”

„Jú reyndar, en þau eru svo fokking fullkomin. Ég hata það.”

„Ertu afbrýðisöm?”

„Auðvitað, ætlarðu að reyna að sannfæra mig að ég ætti að taka við boðinu hennar?”

„Nei.”

Ég hika, hann horfir bara á mig.

„Þú mátt halda áfram, ef þú treystir þér.”

„Ok, um… eftir að pabbi fór þá byrjaði mamma með algjörum dólg. Þau voru saman í tíu, ellefu ár. Hann barði mömmu… og mig.” Ég dreg inn andann. Ég finn fyrir kjálkanum stífna og vörunum titra. „Hann gerði meira en það.” Ég hef aldrei sagt það upphátt, ég veit ekki hvort ég get það. Strákurinn starir en þá bara á mig, engin breyting á svipnum hans. Ég segi ekki meira í bili og eftir stutta stund byrjar strákurinn að fylgjast með ráfandi bílunum.

„Þú ert en þá ekki búin að segja mér hvernig þér hefur liðið.” Segir hann loks.

„Frekar standard bara, ég hata líkamann minn, persónuleikann minn og ég ýti fólki frá mér viljandi af því að ég þori að veðja að um leið og þau byrja að kynnast mér fatta þau strax hversu skelfileg ég er og flýja burt.”

„Eins og pabbi þinn?”

Ég hika aðeins og hugsa. „Já, og stjúp-pabbi minn. Hann basically ól mig upp. Hagaði sér eins og að nau-”. Ég ræski mig, „Eins og þessi hegðun væri eðlileg. Mér líður bara eins og það er tilgangslaust að halda áfram, ég er of gömul til að vera tekin inn af annarri fjölskyldu og of ung til gera þetta ein.”

Ég finn fyrir hitanum rjúka í gegnum andlitið mitt og sársaukanum í fasta gripi mínu.

„Þessi heimur meikar engan sens. Fólk fær sér gagnslausa menntun til að fá starf og láta lífið líða hjá án þess að skilja nokkuð eftir sig og síðan er það búið. Menntunin er ekki í boði fyrir mig hvort sem er svo hvað? Á ég að vinna á bensínstöð alla æfi? Hver er tilgangurinn? Ég er bara að flýta fyrir þessu.“

Strákurinn situr hugsi í nokkrar mínútur, á meðan stilli ég andann minn og pirring.

„Fólkið á bakvið gluggana eru ekki hérna uppi, af því þau sjá ekki harmleikinn í því að vakna á sama tíma hvern morgun til að gera það sama, fara síðan heim og þvinga fram einhverskonar unað til að geta sannfært sig í að gera það aftur daginn eftir.“ Hann færði sig nær mér, „Sjálfsvíg er hættan á því að fatta hversu tilgangslaus og fáránlegur heimurinn er. Það er þeirra leið til að viðurkenna að lífið er of erfitt fyrir sig. Til að halda áfram þarf maður að búa sér til tilgang í tilgangslausum heimi því ef það er hægt, hættir hann að vera tilgangslaus.“

„Þegar sársaukinn er of mikill er mjög erfitt að sjá tilgang í lífinu.“

„Já, hann fer ekki. Hann minnkar samt með tímanum, þegar þú ert tilbúin til að slást við hann. Þú verður að lifa andspænis sársaukanum, en aldrei neita tilveru hans.“

Ég kreisti handriðið fastar, „Það er auðvelt að segja það þegar maður hefur ekki þurft að ganga í gengum mikið.“

Strákurinn týndi brosinu sínu og faldi úlnliðina. „Að hífa þig upp úr þinni stöðu mun vera það erfiðasta sem þú munt nokkurn tímann gera, og það gerist ekki um leið. Þetta gerist skref fyrir skref og fyrsta skrefið þitt er að sleppa handriðinu, opna hurðina og fara niður stigann. Næsta skrefið er óskýrara. Þú gætir hringt í frænku þínu og beðið um hjálp eða sagt vinum þínum frá því hvernig þér líður. Það er þitt að velja en við hvert skref þarftu að finna allan styrkinn sem býr í þér til að stíga það og með hverju skrefi… verður það næsta auðveldara.“

„Hvað ef ég get það ekki?“

„Allir geta það. Þú þarft samt að vilja það.“ Hann lítur á borgina aftur,  „Ég kom ekki til að tala þig niður af brúninni. Þú gerir það sjálf.“

„ Hve-“ Ég sný mér að honum en sé engan. „…-rnig?“

Ég horfi snöggt í kringum mig en hann er hvergi sjáanlegur. Ég stend þarna lengi ein, ég veit ekki hversu lengi.

***

Klukkan er sex á miðvikudagsmorgni. Sumargljái nýs dags snertir litríku borgina sem er að lifna við. Loftið er kalt en golan liðast mjúklega eftir líkama mínum. Ég dreg djúpt inn andann, sleppi handriðinu og teygi úr höndunum á mér. Ég lít aftur í kringum mig til að sjá hvort drengurinn sé kominn aftur og brosi þegar ég sé engann. Ég geng að hurðinni sem leiðir að stigaganginum og gríp í hurðarhúninn.

„Ok, einn… tveir… þrír!“

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst