Ég átti mjög erfitt með að byrja á Litlu bókabúðinni í hálöndunum eftir Jenny Colgan, en þegar ég komst inn í hana varð ég algjörlega hugfangin. Bækur Jenny Colgan hafa verið vinsælar í sumar og nýjasta bókin hennar, Sumar í litla bakaríinu við strandgötu situr í öðru sæti á metsölulista Eymundsson. Bókunum fylgir léttur andi sem henta þessu blauta sumir á suðvesturhorninu ágætlega.

Ég hélt að þetta yrði bara enn ein rómantíska skvísubókin en það er hún svo sannarlega ekki. Aðal sögupersónan Nina greip mig og heillaði með þessari hugrökku breytingu sem hún ákvað að gera á lífi sínu. Hún ákveður að kaupa gamlan sendibíl og opna í honum bókabúð sem hún getur farið á hvert sem er. Á þessu annars ágæta plani hennar eru þó nokkrir hnökrar og hún getur ekki verið með bílinn í Birmingham þar sem hún býr.

Hún lætur það þó ekki stoppa sig og ákveður að flytja til Skotlands. Þar leigir hún hlöðu hjá bónda sem er skapstór og fúllyndur. Samskipti þeirra eru að mestu leyti stirð og stíf og hann pirrar sig á nánast öllu sem að Nina tekur sér fyrir hendur. Inn í bókabúðarævintýri Ninu fléttast ástarævintýri við lestarstjóra, fjörug vinkona úr borginni og aðrir líflegir karakterar sem hún kynnist og afgreiðir.

Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn spennt og ég var að komast heim til þess að lesa þessa bók. Að hverfa til Skotlands í huganum og lifa mig inn í bókabúðarævintýri Ninu. Þetta var afskaplega skemmtileg lesning.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...