Allavega einhver bjartsýni

 

Á meðan ég kljáðist við lesefnisleysi í sumarbústaðnum fyrir nokkrum vikum mundi ég skyndilega eftir því að ég get hlaðið niður rafbókum á lesbrettið mitt. Rafbækur eru fínar aflestrar, sérstaklega ef þær eru lesnar á lesbretti þar sem ekki er mikil baklýsing. Það er heldur ekki verra að maður getur stækkað og minnkað letrið að vild, lesið í myrkri (því minn er með þægilegri baklýsingu), vistað tilvitnanir og margt fleira. Ég mæli hiklaust með því að kíkja á möguleikana á því að lesa af lesbretti.

Allavega.

Það var einmitt bókin sem ég valdi mér. Allavega eftir Ernu Agnesi Sigurgeirsdóttur er fyrsta bók hennar og ein þriggja sagna sem verðlaunaðar voru í samkeppni Forlagsins um Nýjar raddir 2018 og gefnar út sem rafbækur. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri að fara að lesa þegar ég byrjaði, en skyndilega var ég búin með bókina, komið langt fram á nótt og ég var öll léttari í huganum. Mér fannst einhvern veginn allt vera svolítið auðveldara.

Ég er búin að velta bókinni fyrir mér í nokkurn tíma. Er hún hugsanir höfundar skrifaðar niður? Er hún skáldsaga? Sjálfshjálparbók? Og ég komst að því að það skiptir í raun ekki máli. Erna nær að láta frásögnina flæða áreynslulaust og svo skemmtilega að stundum hló ég upphátt. Hún náði að halda mér við efnið fram á nótt, og það er langt síðan ég hef lesið fram á nótt. Hún fékk mig til að gráta, hlæja og gleðjast að lokum yfir lífinu.

Erna hefur ótrúlegt vald á pennanum og tungumálinu og stíllinn hennar er ólíkur nokkru sem ég hef lesið. Hún veður úr einu í annað í einhvers konar óreiðu, en samt nær hún alltaf sínu striki á ný og þótt hún hafi tekið mann á allt annann stað í smá stund, þá veit maður alltaf nákvæmlega hvar maður er. Ég naut þess að lesa Allavega og mæli hiklaust með því að aðrir kíki á bókina. Sérstaklega ef þú ert að glíma við eitthvað erfitt, því einhvern veginn smitast maður af æðruleysinu og bjartsýninni sem ríkir í bókinni. Því allir erfiðleikar taka enda, þótt maður geymi kannski alltaf smá part af þeim inni í sér áfram.

Lestu þetta næst

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....

Hvorki fugl né fiskur

Hvorki fugl né fiskur

Á dögunum las ég bókina American Wife eftir Curtis Sittenfeld sem vakti mikla athygli við útgáfu...