Sögur til næsta bæjar: Veiðimaður

Veiðimaður

Eftir Katrínu Brynju Valdimarsdóttur

Þegar Una var á barnsaldri voru krakkar sífellt að safna alls konar hlutum líkt og servéttum, frímerkjum, límmiðum, eldspýtustokkum og þess háttar. Slík söfnunarárátta eldist af flestum sem á fullorðinsaldri fara frekar að sanka að sér greiningum, like-um á samfélagsmiðlum,  múmínbollum, og ýmsum skrautmunum sem eru í tísku hverju sinni.

Þetta átti alls ekki við um Unu.

Hún hafði aldrei safnað neinu að viti og skeytti engu um tískustrauma. Hún lifði minimalískum lífsstíl og átti hvorki merkjavörur í fataskápnum né samstætt leirtau. Foreldrum Unu til mikillar gremju streittist hún á móti þeim svo árum skipti og veik von þeirra um að hún safnaði í tólf manna kaffi- og matarstell eins og fullorðinni konu sæmir, varð að engu.

Svo breyttist allt.

 

Dag einn í desember gekk Una fram á spil á miðri umferðargötu – spaðaás. Einhver dulmagnaður kraftur dró hana að þessu spili – hún varð að eignast það. Una setti sig í glæfralega lífshættu þegar hún óð út á götuna og hársbreidd munaði að hún myndi enda uppi á bráðamóttöku.

Það var ekki aftur snúið og Una blindaðist af sjúklegum áhuga á spilum og fór markvisst að safna öllum sem urðu á vegi hennar. Markmiðið var að safna í heilan stokk. Hún ráfaði um götur Reykjavíkur og mændi niður á malbikið í áráttukenndri leit sinni að spilum.

Hún setti sér skýrar reglur varðandi söfnunina og sór þess eið að svindla ekki.

 

Regla 1: Ef mörg spil úr sama stokki liggja á víð og dreif, má hún eingöngu taka upp eitt spil.

Regla 2: Það má alls ekki þiggja, kaupa, stela eða nota spil í stokkinn sem hún á fyrir.

Regla 3: Taka skal upp öll spil sem verða á vegi hennar sama hvort þau séu blaut, skítugt, hálf, rifin eða á stöðum sem erfitt er að ná til.

 

Una fékk spilasöfnunina á heilann sem fljótt breyttist í sjúklega þráhyggju. Daglega fór hún í langar gönguferðir í leit að spilum og veiddi þau upp úr drullupollum, stökk út úr bíl á rauðu ljósi og klifrað yfir girðingar. Eitt skiptið óð hún út í Tjörnina – laufadrottning.

Þegar hún fann tígulsexu í Covid -19 faraldrinum hikaði hún í fyrstu, en tók það samt upp, íklædd bláum plasthanska og setti í sóttkví í tvo mánuði. Kókaínrörið sem hún fann fyrir utan B5 – tígulgosi. Spilið sem hún fann undir þröskuldi í íbúð í Hafnarfirði þar sem verið var að skipta um parket – líka tígulgosi.

Una hélt nákvæma dagbók um stað og stund þar sem hún fann spilin og lagði ýmsa merkingu í hvar þau fundust út frá stöðu stjarnanna á himni, vikudögum og húsnúmerum.

Mestu líkurnar á því að finna spil var þegar rigndi, eftir hádegi á miðvikudögum og í miðbæ Reykjavíkur.

Árin liðu og eftir tíu ára söfnun taldi safn Unu 86 spil. Vinsælustu spilin í stokknum hennar voru jókerar og spaðaníur, hún átti sex af hvoru. Spilunum vafði hún inn í leðurpjötlu sem áður umvafði tarrotspil sem gáfu ítrekað frá sér vonda spá svo hún þurfti að farga þeim. Una vildi fullmanna stokkinn en hana vantaði enn sex spil til þess. Það olli henni hugarangri og hélt fyrir henni vöku á nóttunni. Söfnunin var farin að stjórna lífi hennar og hún einangraði sig.

Dag einn, eftir hádegi á miðvikudegi, fór Una út að veiða spil í miðbæ Reykjavíkur. Hún var komin fyrir utan Prikið á Laugarvegi þegar hún rakst á hálf frosið spil á grúfu í polli.

 Var þetta  nýtt spil í stokkinn?

Hún teygði sig í átt að pollinum og tók það upp. Helmingurinn var frosinn og hinn rennandi blautur. Hún tók krapklumpinn varlega upp til að rífa spilið ekki frekar og reyndi að bræða ísinguna með volgum fingurgómunum – hjartakóngur!

Una fann hvernig gleðihormónin flæddu um allan líkamann og hrópaði upp yfir sig.

„Loksins nýtt spil! YES.“

Hvítskeggjaður öldungur sem gekk við staf birtist skyndilega fyrir framan hana og sagði óttablandinni röddu.

„Farðu varlega vinan! Veistu hvað þú ert að gera?“

Gamli maðurinn horfði á hana með stingandi augnaráði sem náði inn í dýpstu sálarkima hennar.

„Veistu ekki að myrkraöflin búa í spilum sem hafa týnt stokk sínum? Villuráfandi púkar! Þessum forboðna leik skaltu hætta hið snarasta. Hvað heldur þú að gerist þegar þú ert búin að finna fullan stokk? Varasamt er að óska eftir athygli djöfulsins. Brenndu bölvuð spilin hið snarasta og biddu til Guðs,“ frussaði hann út úr sér frávita af skelfingu.

„Hann kemur, hann kemur, hann kemur,“ tautaði gamli maðurinn fyrir munni sér á meðan hann þokaðist upp Laugaveginn og hvarf. Una blikkað augunum ítrekað því hún var alls ekki viss. Var öldungurinn raunverulegur eða dagdraumur? Þennan mann sá Una aldrei aftur og  hjartakóngurinn sem hún fann þennan dag var líka með sítt hvítt skegg og staf líkt og gamlinginn.

Eftir þennan afdrifaríka dag fór djöfullinn að eltast við Unu og sat fyrir henni á ýmsum stöðum. Hún varð vænisjúk og fór að sjá skrattann alltumlykjandi og var með stöðugan kuldahroll niður eftir bakinu. Veggfóðrið í stofunni fór að mygla, hárið að grána, hún steypist út í útbrotum á líkamanum, fékk króníska sveppasýkingu og gnísti tönnum í gríð og erg. Myrk augu á veggjum íbúðarinnar störðu á hana í sífellu og eltu í húminu. Hún hætti að fara í sturtu því vatnið var mórautt og ódrykkjarhæft. Drunurnar í lagnakerfinu hvísluðu taktfast, „hann kemur, hann kemur.“

Una fann hvernig skrattinn krafsaði með beittum klónum innan úr holum veggnum þegar hún lagðist á koddann. Hann ásótti hana í síendurtekinni martröð þar sem hann hélt á hjartagosa sem stóð í ljósum logum og urraði.

„Sál þín er mín Una! Brátt kem ég og sæki þig.“

Una  hrökk upp úr svefni með andköfum á hverri nóttu. Svefnleysið var farið að taka sinn toll því ásókn djöfulsins var slíkt að hún var komin í þrot.  Hún huldi alla spegla í íbúðinni því ef hún leit í spegil sá hún eldtungur og svartnætti. Hún ákvað að tala við prest því hún var loksins farin að meðtaka að hún væri fórnarlamb í sálareltingaleik myrkrahöfðingjans. Ef stokkurinn yrði fullkomnaður, þá tilheyrði sál hennar kölska – en hún gat ekki hætt, þráhyggjan var slík.

Loks rann upp sá dagur að aðeins vantaði eitt spil í stokkinn – spaðagosa.

Eftir vikulegar heimsóknir til prests, ýmissa sáluhjálpara og  miðils var samróma álit allra að hún yrði að hundsa spilin sem yrðu á vegi hennar. Hún þyrfti að taka örlögin í eigin hendur og ekki storka forsjóninni frekar. Það væri á hennar valdi að ákveða hvort hún tæki upp spil eða ekki. Aðeins með þeim hætti gæti hún bjargað sál sinni  – hennar reglur!

Kölska gramdist þetta klóka útspil hennar því þrátt fyrir máttinn varð hann að fylgja aldargömlum grunnreglum kosmósins og regluverki sálasöfnunar. Una varð sjálfviljug að fullmanna stokkinn til að hann gæti réttilega eignast sál hennar.  Skrattinn var snjall og ákvað að leggja gildru fyrir Unu. Hann tók hamskiptum og breytti sér í myndarlegan og vöðvastæltan dökkhærðan mann með millisítt hár. Hann var herðabreiður og með stingandi grængul augu – sannkallaður draumaprins. Ef hann, í líki spaðagosa gæti fangað hjarta hennar, þá væri sálin hans um alla eilífð.  

Una var orðin viðþolslaus af langvarandi svefnleysi. Hún lá uppi í sófa í fósturstellingu og gnísti tönnum þegar dyrabjallan hringdi. Hún átti ekki von á neinum enda hafði hún einangrað sig frá vinum og fjölskyldu eftir að spilasöfnunin hófst – píparinn var kominn til að kíkja á lagnirnar.

Katrín Brynja er með gráðu í leikstjórn frá kvikmyndaskóla St. Pétursborgar í Rússlandi. Hún er með víðtæka reynslu úr kvikmyndagerð en í dag rekur hún eigið fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hún er með magann fullan af sögum og þar sem skapandi hliðin togar sífellt í hana ákvað hún að skella sér í ritlist og bókmenntafræði í Háskóla Íslands.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...