Sögur til næsta bæjar: Þú, eins og svo oft áður

Þú, eins og svo oft áður

Eftir Kristínu Svanhildi Helgadóttur

Þú vaknaðir við vekjaraklukkuna kl. 9:00 en varst fljót að slökkva á henni og snúa þér á hina hliðina.  Þú varst auðvitað meðvituð um að þú ættir ekki að mæta neins staðar og hugsaðir með þér, eins og svo oft áður, að það hefði gengið illa að sofna og þú yrðir bara að hvíla þig aðeins lengur.  Ekki samt svo lengi að þú hefðir ekki tíma til að vinna verkefnið sem beið þín. 

Hann bauð upp á kaffi og fréttir kl. 10:00. Þú þakkaðir pent, settist upp í rúminu og naust þess að drekka kaffið og hlusta á fréttirnar með honum.  Æ, hvað hann gat nú verið næs!

Ekki fórstu fram úr fyrr en svona hálf ellefu, ellefu og bara af því að þú gast ekki haldið lengur í þér.  Svo varstu eitthvað að dútla, fá þér morgunmat, taka pillurnar, þrífa klósettið, brjóta saman þvott, setja í aðra vél. 

Já, þú varst að spá í hvort þessi bolur hans með blekblettunum í ætti að fara með í vélina á 60 gráður.  Kannski færi blekið úr á þeim hita því það hafði ekki farið úr í 40 gráðum.  En það á auðvitað bara að þvo svona boli á 40 svo þú ert ekki viss.  Hann gæti orðið eitthvað leiðinlegur ef hann færi á 60.  

Þú opnar inn í skrifstofu til hans og spyrð hann hvort hann vilji að bolurinn fari með á 60 en þá vill hann endilega reyna að setja einhver efni í blettina og spyr þig hvort það sé til asetón eða própanól eða eitthvað.  Þú setur bara vélina af stað án þess að þessi bolur fari með.  

Flettir svo upp leiðbeiningastöð heimilanna í tölvunni og athugar hvað sagt er um blekbletti þar.  Jú, þar stendur:

Brennsluspritt nær flestum tegundum af bleki af fatnaði og húsgögnum.

Ok, er sótthreinsunarsprittið upp í skáp brennsluspritt?  Þú skoðar Vísindavefinn og athugar hvort eitthvað komi fram um brennsluspritt og líka Wikipedíu en þú finnur ekkert um brennsluspritt.  Ef þú gúglar bara brennsluspritt færðu færslu frá einhverju málningarfyrirtæki sem segir:

RAUÐSPRITT er unnið úr etanóli og má t.a.m. nýta sem brennsluspritt og til þrifa.

Ok, en það kemur ekki fram hvað sé í sótthreinsunarspritti eða hvort það sé jafngott.  Ef þú gúglar bara spritt er bara umfjöllun um Kófið og handsprittun. 

Mein Gott!  Þarf þetta að vera svona erfitt?  

Þú skoðar síðuna hjá leiðbeiningastöð heimilanna aðeins betur og rekst á að annars staðar, í lista yfir efni sem duga gegn algengustu blettum stendur:  

Brennsluspritt eða rauðspritt (síður bóluspritt, própanólum, sem er í olía)

Ok, própanólum er örugglega það sama og própanól þannig að það virkar ekki.  

En svo sérðu allt í einu að það er verið að fjalla um sveppamyndun í heimilistækjum þarna á síðunni líka.  Já, þú ert einmitt búin að vera að spá í að það sé komin einhver helvítis tuskulykt af þvottinum.  Þetta er örugglega einhver sveppamyndun svo þú lest þér til um það.  

Hann kemur fram og þú eyst yfir hann öllum þessum upplýsingum sem þú ert búin að vera að afla þér nema hann hlustar ekkert á þig eða heyrir ekki hvað þú ert að segja.  

Hann bara fær sér kaffi og hlustar ekkert á þig. Alveg týpískt hann! Svona er að búa með manni með athyglisbrest.  

Þú tekur eftir að klukkan er að verða hálfþrjú og þú ert enn þá á náttfötunum og orðin svöng aftur og þér er líka mál að kúka en þú þarft að stafa ofan í hann það sem stendur á síðu leiðbeiningastöðvar heimilanna: 

Áhrifaríkast er að setja Rodalon í sápuhólf + tromlu, stilla á 40°hita (prógramm) og láta vélina taka inn á sig vatn smástund, slökkva síðan á henni og láta standa í henni yfir nótt.

Loksins náði hann því sem þú varst að tala um!  Einmitt, og auðvitað vissi hann alveg nákvæmlega hvað brennsluspritt var!  Hann var meira að segja með stærðarinnar brúsa af því inni í vínskápnum!  Ekki spyrja hvað það var að gera þar!  

Þú drífur þig á klósettið og veltir fyrir þér, eins og svo oft áður, hvernig er hægt að búa með þessum manni!  Hann gat ekki einu sinni vakið þig í morgun svo lunginn úr deginum er farinn fyrir ekki neitt og þú ekki byrjuð á verkefninu.

 

Kristín Svanhildur Helgadóttir fæddist 1968 og ólst upp í Hafnarfirði, yngst fjögurra systkina.  Hún er kona margra hatta.  Meðal hatta sem hún hefur skreytt sig með eru hattur leiðsögumannsins, tónmenntakennarans, jógakennarans, bókarans, bílstjórans, þýðandans, leikarans og söngvarans.  Fyrir utan auðvitað hatt móðurinnar, dótturinnar, systurinnar, vinkonunnar auk allra hatta heimilishaldsins svo sem hatt skúringakonunnar, þvottakonunnar, kokksins, bakarans og hannyrðakonunnar.  Nú er komið að því að máta hatt rithöfundarins.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...