Sögur til næsta bæjar: Skrattanum er ekki skemmt

Skrattanum er ekki skemmt

Eftir Ásdísi Björnsdóttur

Klukkan var langt gengin í fjögur og hjarta konunnar á leið út úr brjóstinu. Varenúkha, framkvæmdastjóri fjölleikahússins var dauður, ofurliði borinn af hyski Wolands. Hún var að lesa söguna í fyrsta skipti, hafði fært sig úr stofunni og upp í rúm.

Þremur klukkustundum síðar var hún vöknuð. Morgunskíman þröngvaði sér inn um rauð flauelsgluggatjöldin. Hún fór fram í eldhús og skrúfaði frá krananum. Er ískalt vatnið nam við tunguna, barst inn í vitund hennar lágvært muldur sem virtist koma innan úr stofunni. Hún gekk hikandi á hljóðið. Í sófanum sátu karl, og kona sem steig samstundis upp og nálgaðist hana með opinn faðminn.

 „Sæl, ég heiti Margaríta og með mér er meistarinn. Þú þekkir okkur,“ sagði hún og hrollkalt faðmlagið nísti konuna inn að beini. „Við turtildúfurnar þurftum næði og stofan þín er mjög notaleg,“ bætti hún við með töfrandi brosi en eilítið lymskulegu ef betur var að gáð.

Í sömu andrá var bankað hressilega á dyr íbúðarinnar. Konan hljóðaði upp yfir sig, leit í átt að gangholinu en kom ekki upp orði. „Vertu þú sjálf, hann þolir ekki sýndarmennsku,“ hvíslaði Margaríta uppörvandi. Konan flýtti sér fram og opnaði hurðina en við henni blöstu tveir slánar sem hún bar strax kennsl á.

„Góðan og blessaðan daginn frú mín góð,“ bauð sá sem framar stóð. Í gegnum áberandi nefklemmuna sá hún að hann blikkaði hana. Það vantaði annað glerið en hitt var sprungið. Án þess að bíða eftir viðbrögðum hennar kynnti hann félaga sinn.

„Hér sérðu Azazello. Hann ber fegurðina ekki utan á sér en örvæntu eigi, andinn er þeim mun meira heillandi.“

Azazello steig fram, tók samstundis um hönd hennar og bar upp að herfilegri vígtönninni sem skagaði úr munni hans. Hún komst ekki hjá því að sjá áberandi fjólublátt vaglið á öðru auga hans er eldrauður flókinn nam við enni hennar. Þeir biðu ekki boðanna heldur stormuðu fram hjá henni inn í íbúðina. Angist hennar magnaðist með hverju andartaki og hún fann fyrir sársaukanum undan ískrandi nálinni sem eins og boraðist í gegnum ennið. Þá barst henni til eyrna dauft fótatak í stiganum. Það tilheyrði Woland. Hún þekkti hann strax, hávaxinn, dökkan yfirlitum. Undir hendinni bar hann svarta stafinn með hundshausnum en á höfðinu hvíldi grá alpahúfa sem konan sá að stakk berlega í stúf við jakkafötin því að þrátt fyrir örvinglan endurfundanna greindi hún strax að þau voru frá hjá Kormáki og Skildi.

„Sæl. Þakka þér fyrir að opna fyrir okkur hús þitt en erindið er brýnt, vittu til,“ sagði hann, lyfti svartri augabrúninni og brosti skakkt svo skein í gull- og platínuhúðaðar tennurnar.

Hann hvarf inn í stofuna. Hún rak höfuðið í örvæntingu fram á ganginn. Gestirnir voru ekki fleiri. Átti hún að fara inn í stofuna eða láta sig hverfa? Henni kom á óvart eigin kerskni, vissi eftir lestrarreynslu næturinnar að föruneytið vílaði ekki fyrir sér að senda fólk til fjarlægra staða ef á þyrfti að halda, mögulega Jöltu, en þar var ekki friðvænlegt þessa stundina. Hún valdi fyrri kostinn, kom sér fyrir svo lítið bar á innan við dyrnar.

„Þú ert nú meiri gaurinn,“ heyrði hún Margarítu segja hlæjandi. „Við meistarinn vorum á trúnó og þú ert búinn að hanga þarna í alla nótt!“

„Mér tókst nú að dotta þrátt fyrir allt. Óþarfi að hafa áhyggjur, segi engum,“ malaði kötturinn letilega á bak við stólinn sem konan hafði rétt áður tyllt sér á. Hún kippti að sér fótunum og niðurbælt ískur barst úr horninu.

„ÞÖGN!“ Það var rödd Wolands, hæg en ísköld. „Tíminn er naumur. Meistarinn og Margaríta hafa þegar fundið fullnægjandi vistarverur fyrir boðið.“

Þau höfðu skoðað ráðherrabústaðinn daginn áður og í kjölfarið gengið beint í flasið á flóttafólki sem mótmælti fyrirhuguðu gerði sem til stóð að reisa utan um landlausa hælisleitendur. Efst á Skólavörðuholtinu höfðu þau síðan rambað á fallegan höggmyndagarð sem duldist innan hárra múra og komið auga á reisulegt hús í jaðri hans sem þau mæltu með.

„Hefði samt frekar kosið Kringluna, skemmtilegir rúllustigar þar, hægt að klekkja á kapítalistunum í leiðinni,“ barst undan stólnum og í ljós kom kötturinn sem reis upp á afturfæturna. Hann laut niður að eyra konunnar og tróð loðnu trýninu niður í hálsmálið svo gróf veiðihárin strukust við kinn hennar.

„Takk fyrir síðast,“ muldraði hann skelmislega. Hún tók andköf af hryllingi, minntist draumfara næturinnar og rétt áður en meðvitundin fjaraði út fann hún myglukennda andremmuna umlykja sig. „Þetta verður allt í lagi góða,“ hvíslaði kötturinn en hún var þá þegar horfin í annan heim.

Hann settist andspænis félögum sínum og fékk sér kaffi.

„Djöfull er kalt hérna!“ mjálmaði hann og hristi loðinn feldinn, teygði sig síðan letilega eftir rauðum konfektmola sem var í laginu eins og þríforkur.

„Já, og það mun frjósa í Helvíti ef ekki tekst að grípa í taumana. Alþingismenn hafa þegar fengið boðskort í hendur er það ekki Korovjof?“ spurði Woland.

„Jú,“ svaraði sá með vígtönnina. „Ég fékk þingmanninn, þennan sem keyrir allan sólarhringinn, til að koma út boðskortunum.“ 

„Og veitingarnar Azazello. Fékkstu þann gráðuga með hakkið til að henda í nokkur buff? Skilst að hann lumi líka á nokkrum bröndurum um heitar konur, feita og fatlaða. Það gæti þurft að hressa upp á stemmninguna, sérstaklega í lokin,“ sagði Woland kaldhæðnislega.

 „Já, ég þurfti samt að beita fortölum. En hann er á staðnum og hefur sett upp svuntuna,“ svaraði Azazello.

„Teningnum hefur verið kastað. Því miður verður umræðan ekki á léttum nótum núna, enginn svartur galdur. Behemot, þú verður gestgjafinn og vísar til borðs. Settu öldunginn og skáldið Hadith, gamlan vin minn frá Gaza, niður við hlið ráðherra dómsmála, það er vel við hæfi. Er ekki örugglega búið að koma honum út? Nasistar voru á sínum tíma í stökustu vandræðum með listafólk og hugsuði, erfitt að láta það hverfa, eða „gasa“ það. Auðveldara að eiga við sauðsvartan almúgann,“ bætti hann við kuldalega um leið og hann snéri sér að Margarítu.

„Jæja. Rifjaðu nú aðeins upp fyrir mér staðreyndir er varða umræðuefni kvöldsins.“

„Það snýr að innfluttum koltvísýringi sem stendur til að dæla ofan í berglög í vík einni rétt fyrir utan borgina en til þess þarf að fórna 2,500 lítrum á sekúndu úr grunnvatnsstraumi svæðisins,“ upplýsti Margaríta sem hafði orðið sérfræðingur í umhverfismálum á allra síðustu dögum. „Ég renndi líka í gegnum tölvukerfi ráðuneytisins og þar kom orðið „orkuskipti“ oftast fyrir en það virðist vera í miklu uppáhaldi hjá ráðherranum,“ sagði hún og rétti Woland þéttskrifaða örk sem hann renndi augunum yfir.

Mislit augu Wolands skutu gneistum. Það var auðséð að honum var ekki skemmt.

„Vatn er síður en svo óþrjótandi auðlind, gera þau sér virkilega ekki grein fyrir því?“ þrumaði hann ógnandi. „Við vitum það að minnsta kosti,“ sagði hann napurlega og glotti.

„Eruð þið nokkuð að gleyma mér,“ greip kötturinn fram í með tilgerðarlegum rómi. „Átti ég ekki að sitja hjá dís fjármála?“

„Nei,“ svaraði Margaríta um hæl. „Þú færð þann sem virðist vera þekktur undir nafninu Teflonmaðurinn.“

 „Ja, ja, kannast við kauða,“ muldraði kötturinn og þóttist verða fyrir vonbrigðum. „Meistari minn,“ sagði hann og snéri sér að skáldinu sem lítið hafði lagt til málanna fram að þessu. „Segðu mér. Hvaða hitastig þolir það, altso teflonið,  – í neðra?“

Woland bandaði frá sér hendinni og þaggaði samstundis niður í kettinum. Hann snéri sér alvarlegur í bragði að Margarítu og spurði hægum rómi:

„En hver er það þá mín kæra sem stýrir svo þessum bófaflokki?“

 

Prjónað við uppáhaldssögu, Meistarann og Margarítu eftir Mikhaíl Búlgakov sem kom út árin 1966-1967. Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi árið 1981.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Ásdís Björnsdóttir er nemi á meistarastigi í íslenskum bókmenntum. Hún hefur ávallt unað sér vel við lestur alls konar sagna, hvort sem það hafa verið ævintýri, fantasíur, spennusögur, fagurbókmenntir eða ljóð; nú síðast fjölbreyttar smásögur í ritlistarnámskeiðinu Sögur til næsta bæjar.

Ásdís hefur kennt íslensku við Fjölbrautaskólann í Garðabæ frá haustinu 2006, þar með talinn yndislestur. Hún veit að lestur góðra bóka stuðlar að víðsýni og bættum heimi og hefur orðið vitni að því hvernig lestur hefur án undantekninga haft jákvæð áhrif á nemendur sem hafa meðal annars birst í meiri lestraráhuga, auknum orðaforða og auknum lestrarhraða. Nemendur hafa upplifað vellíðan við lesturinn og hann hefur dregið úr tíma þeirra á samfélagsmiðlum og bætt gæði svefns að þeirra sögn.

Ásdís er tveggja barna móðir og amma sem býr í miðbænum og nýtur þess að vera í námsorlofi; rölta í skólann, hlusta á fjölbreytta fyrirlestra, taka þátt í skemmtilegum umræðum í tímum og drekka gott kaffi yfir námsefni um ritlist og yfirnáttúru í bókmenntum.

Þann 1. desember 2023 gaf Ásdís út ljóðabókina Harðangur hugans.

P.s. Ásdís leyfir sér að mæla með bókinni HHhH eða Heilinn í Himmler heitir Heydrich sem Sigurður Pálsson skáld þýddi árið 2014. Hér má lesa viðtal við skáldið.

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.