Ævar Þór Benediktsson sendi frá sér tvær nýjar léttlestrarbækur um miðjan ágúst, rétt fyrir skólabyrjun. Bækurnar eru léttlestrar útgáfan af “Þín eigin”-bókaflokknum, sem hefur verið mjög vinsæll síðustu ár og náð á vel flesta metsölulista. Nýju bækurnar heita Þín eigin saga: Búkolla  og Þín eigin saga: Börn Loka og mér finnst nafnið á bókunum gefa til kynna möguleika á enn fleiri skemmtilegum léttlestrarbókum úr smiðju Ævars. Bækurnar eru ætlaðar börnum á aldrinum 6-8 ára, þessum aldurshópi sem þarf hvað mest á því að halda að fá áhugaverðar og skemmtilegar bækur til að skapa lestraráhuga. Bækurnar eru listilega myndskreyttar af Evönu Kisu, rétt eins og aðrar bækur í “Þín eigin”-bókaflokknum.

Ég bý það vel að eiga tvo drengi á þeim aldri sem lesa léttlestrarbækur. Þeim voru fengnar bækurnar í hendur og dómur þeirra kom mjög fljótlega í ljós. “Ég fór með Óðni að drepa skrímsli!” var hrópað eftir einn lesturinn á Börnum Loka. Spenningurinn var svakalegur. “Ég ætla að fara að drepa skrímsli með Óðni,” var sagt næst þegar lesturinn átti að halda áfram. Það er sá sex ára sem er svona morðóður á skrímsli. Ég velti fyrir mér hvort allt í bókinni væri svona ofbeldisfullt, en komst svo fljótlega að því þegar ég fletti í gegnum hana að svo er alls ekki. Bókin er stórskemmtileg! Eldri strákurinn, 9 ára, kíkti á Búkollu fyrir mig. Hann las heilan söguþráð til enda, hann velur oftast öruggustu leiðina í gegnum “Þín eigin”- bækur Ævars. Hann sagði yfirvegaður að honum hefði líkað bókin og ætti eftir að lesa meira í henni. Hann náði í fyrsta söguþræði að narra tröllskessurnar í dauða sinn, svona allt eins og það á vera. Bækurnar vöktu mikla lukku hjá strákunum og kveiktu hjá þeim áhuga og spenning fyrir því að taka bókina upp aftur og halda áfram að lesa og prófa aðrar leiðir í bókunum. Hver bók er með tíu sögulok, svo í raun er maður að fá tíu léttlestrarbækur, mislangar, í einni.

Síðustu ár hafa bækur Ævars verið gefnar út með sérstöku lesblindu letri, til dæmis bækurnar hans sem hann hefur skrifað eftir lestrarátak Ævars, og þessar bækur eru með því letri. Ég vil trúa því að hann nái með því móti til breiðari hóps lesenda og jafnvel til lesenda sem hefðu síður tekið upp bók. Ég fagna þessum léttlestrarbókum! Hér eru komnar skemmtilegar, spennandi og fyndnar bækur fyrir yngstu lesendurna.

 

 

Lestu þetta næst