Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler. Þau mynda saman teymið sem hefur fært okkur barnabókagull á borð við Greppikló, Öll í hóp á einum sóp og fleiri perlur. Ég segi perlur vegna þess að þetta eru virkilega vandaðar og vel skrifaðar bækur. Allar eru þær skrifaðar í rími eða vísnasniði, og það vel. Ekkert er verra en þegar reynt er að ríma í barnabókum með illum árangri, en það er ekki raunin hér. Þýðingin er einnig í góðum höndum Sigríðar Ástu Árnadóttur en það er vandasamt verk að ná að miðla slíku verki og viðhalda bæði tón og leikgleði en á sama tíma heimfæra það yfir á góða íslensku sem hljómar vel í upplestri.

Lesturinn ánægjulegur fyrir mörg

Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru greinilega bækur ætlaðar ögn yngri lesendum heldur en Greppikló og Öll í hóp á einum sóp. Það segi ég vegna þess að þær eru prentaðar harðspjalda, en hinsvegar þá finnst mér þessar bækur alveg tilvaldar fyrir mjög vítt aldursbil. Þær hentuðu vel á heimili mínu þar sem einn eins árs og ein þriggja ára búa. Engin hætta er á að sá yngsti krumpi blaðsíðurnar í lestrargleðinni og sagan og rímið er nógu vel skapað til þess að það örvi þá eldri einnig. Svo eins og flestir sem eiga börn vita að þá eru flipamyndir auðvitað einum of eftirsóknarverðar og skemmtilegar. Ég kann líka að meta gæðin sem lögð eru í efnisval þar sem fliparnir eru úr þykkum pappa og þar með sterkbyggðir. 

Rímið eflir hljóðkerfisvitund

Út frá rýni minni í þessar bækur fór ég að velta fyrir mér ýmsu, eins og hvers vegna rím er svona víða að finna í barnabókmenntum? Jú það er vegna þess að rímið er mjög gott tól því það eflir

hljóðkerfisvitund barna. En hljóðkerfisvitundin er gríðarlega mikilvægur grunnur að læsi en hún er það sem einstaklingar nota til að heyra hljóðuppbyggingu tungumálsins, sem á endanum hjálpar við að læra að lesa. Rím gerir það einnig að verkum að það styður við minni barnsins og barnið getur því betur gert ráð fyrir því hver framvindan er við endurlestur. Vísnalestur er því mjög góð leið til að efla við læsi barna.

Þarf ekki alltaf að finna upp hjólið

Myndirnar eru síðan mjög fallegar og litríkar eins og von er og vísa frá Axel Scheffer og fyrri verkum hans og Juliu. Rauðrefurinn og kanínan eru auðvitað sterk minni sem börn kannast við, börnum líður vel í endurtekningunni. Refiurinn er þekktur fyrir leikgleði, gáska og seiglu á meðan kanínan táknar sakleysi, þroska og forvitni.

Bækurnar tvær komu upphaflega út á ensku árið 2000 og 2003 og ég sé að fleiri bækur í þessari seríu, sem kallast Sögur úr Litlaskógi, hafa verið gefnar út og ég vona innilega að þær verði einnig þýddar á íslensku því mér þykir ekki nóg til af nýjum, vönduðum og jafnframt skemmtilegum harðspjaldabókum fyrir yngstu lesendurna. Best er þegar lesturinn er ánægjulegur fyrir alla. 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...