Aldingarðurinn okkar

Eden í Tjarnarbíó

Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými. Tjöldunum hefur verið sveipað yfir bekkina, svo rýmið verður mjúkur og náinn hellir. Áhorfendur sitja fremst eða á sviðinu sjálfu, í leikmyndinni sem er mjúk og aðlaðandi. Sviðið er aldingarðurinn Eden, skreytt blómum, mosa, eplum, vatni, hjólastól og vafningsjurtum. Allt sem hugurinn girnist og meira til. 

Hönd rís úr iðrum jarðar, handleggur teygir sig í átt til sólar. Handleggurinn er stilkur og höndin blóm, hún hreyfir sig í takt við innri þrá, hún tekur sinn tíma. Hún kynnist heiminum. Fótleggur fylgir og svo annar, önnur hönd leitar upp á við. Hendurnar tvær og handleggirnir sem þær tengjast vefja sig saman. Útlimir tveggja manneskja verða að einni heild.

Leikarar verksins rísa upp úr leikmyndinni, þau eru nakin og þau eru fullkomin, hinn fyrsti maður og hin fyrsta kona, eða hið fyrsta kynhlutlausa fólk, þú ræður. Nína Hjálmars og Embla Guðrúnar Ágústsdóttir eru höfundar og flytjendur verksins Eden, þar sem áhorfendum er boðið að kíkja í aldingarð þar sem eitthvað er aðeins á ská og Adam og Eva leika hlutverk sín öðruvísi en við eigum að venjast. Um tónlist sér Ronja Jóhannsdóttir, dramatúrg er Gréta Kristín Ómarsdóttir og Rósa Ómarsdóttir sér um sviðshreyfingar. Verkið er aðeins sýnt tvisvar á listahátíð 2024, en ég vona innilega að það verði sett upp aftur síðar meir því það er eitt það besta sem ég hef séð á íslensku leiksviði.

Mikilvægi hinseginleika á sviði

Er eitthvað sem ég gæti talað um í 46 ár, en höfum það stutt hér. Það að sjá Nínu fæðast sem Adam í aldingarðinum, að undirbúa sig fyrir hlutverkið á sviðinu með því að klippa og útbúa transteip til að breyta kyneinkennum bringunnar í rólegheitum var ein fallegasta og áhrifaríkasta stund sem ég hef séð á sviði. Gæsahúð. Kannski er ég sérstaklega viðkvæm fyrir akkúrat svona kynusla, en ég geri ráð fyrir að við séum mörg sem fáum þessa tilfinningu. Kyngervisflæði í höndum Nínu, sem notar bæði hún og hán fornöfn, er nákvæmlega það sem þurfti á íslenskt svið einmitt núna. Þá leikur Nína hinn fyrsta mann á tilfinninganæman og djúpan hátt, en um leið gerir hún pláss fyrir húmorinn í kynhlutverkunum, í mannslíkamanum og mennskunni allri, og snertir áhorfendur djúpt.

Embla leikur fyrstu konuna, og fyrsta konan gengur með fyrsta barnið. Embla er í raunveruleikanum komin á seinasta hluta meðgöngu og það að geta farið fram úr rúminu, hvað þá að eiga leiksigur á sviði í þessu ástandi er auðvitað klikkað. En Embla gerir það samt. Þetta er annað sviðsverkið sem hún tekur þátt í á síðustu árum, en hún fékk Grímutilnefningu sem dansari ársins fyrir hlutverk sitt í Góða ferð inn í gömul sár í Borgarleikhúsinu. Þá, og aftur núna, sýnir Embla að hún er fullmótaður og virkilega hæfileikaríkur performer, en leikur, textaflutningur og dans- og sviðshreyfingar hennar eru mikið listaverk. Hún er auk þess með mjög fallega rödd sem lokkar áhorfendur djúpt inn í verkið, og góða tímasetningu á húmor svo hann virðist óþvingaður og náttúrulegur og áhorfendur hlæja með.

Kanónan afklædd

Það er annað sem ég er voðalega veik fyrir, og það er biblíu- og sköpunarsögur í hinsegin nálgun. Það er eitthvað magnað galdrabragð að taka gamla texta eins og trúarrit, hvort sem það er ásatrúar eða kristið, og fletta ofan af því. Fletta í gegn um það. Fletta það klæðum og kíkja inn í kjarnann, klæða það á ný í stakk eftir sniðum okkar sem föllum ekki í harðnað mót tvíkynjahyggju og heterósexisma. Nína og Embla strippa gamla texta, snúa þeim við, snúa þeim á hvolf, vitna í og fara með, breyta til og brjóta formið. Þó það hafi verið gert áður gera þau þetta samt nýtt og spennandi. Þau vísa í Milton, þau gægjast í gamla testamentið, drepa niður tásu í Mósebók, heimsækja Auðhumlu, Óðin, Vila og Vé og tengja fortíðina og textasöguna við nútímann, með viðkomu í Glæsibæ, í bakaríi, á götum Reykjavíkur nútímans. 

Í texta um sýninguna segir að í Eden sýningarinnar sé lykt af píkum og nýslegnu grasi. Það setur tóninn fyrir nautnir og hið forboðna, hið viðsnúna, hið frelsaða frá því sem hefur verið stimplað sem óhreint og öðruvísi á neikvæðan hátt. Við erum öll með í Eden, við erum ein lífvera, erkienglar sem sameinast, sem eru karlkyns eða kvenkyns til skiptis eins og avókadótré. Við erum velkomin í aldingarð fyrir alla, í Eden hinseginleikans, heiðarleikans, húmorsins og líkamans. Í Eden þar sem fegurð er endurskilgreind, endursköpuð og mótuð í nýrri mynd.

Fatlaðir höfundar og leikarar

Eitt smá innskot. Pælið í því hvað það er mikið rugl að ég sé 33 ára leikhúsgagnrýnandi og sé í fyrsta sinn að sjá ólétta fatlaða konu á sviði. Ég fer í leikhús svona þrisvar í mánuði yfir annatímann. Ég sé næstum aldrei fatlaða leikara yfir höfuð, og það er ekki eingöngu við mig að sakast og hvar ég fer í leikhús heldu líka framboðið. Fatlaðar konur eru almennt afkynjaðar og barngerðar í samfélaginu okkar og að sjá ólétta fatlaða konu sem er líka sexy og nakin og kynvera og allur pakkinn er eitthvað sem við hefðum öll átt að sjá mun fyrr. Íslenskt leikhús tekur hænuskref í átt að einhverskonar fjölbreytileika sem á að endurspegla samfélagið okkar og ég vona að við förum að drulla okkur aðeins hraðar þann veg.

Þá er vert að geta þess að þetta líka aðgengileg sýning, það komust fleiri sem nota hjólastól inn í einu en einhverjir tveir í sérskipuð sæti úti í horni, það var gert pláss því fatlað fólk skiptir máli, fatlaðir áhorfendur skipta máli. Fatlaðir áhorfendur eru ekki eitthvað sem er hugsað til eftir á sem vanda til að leysa heldur er sjálfsagður partur af ferlinu að tryggja þeim aðgengi. Þessi dæmi eru hluti af ástæðum þess hvers vegna það skiptir máli að fatlaðir listamenn séu við stjórnvölinn í öllu ferli leikhúss. Í skipulaginu, leikstjórninni, hugmyndavinnu, sem höfundar, flytjendur og allt þar á milli. 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...