Þórarinn Eldjárn sendi frá sér nýja barnaljóðabók í vikunni, Ljóðpundari. Bókin svíkur engan, ekki frekar en hinar barnaljóðabækurnar hansLjóðpundari er myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn, systur hans líkt og aðrar ljóðabækur eftir Þórarinn.

Þórarinn hefur einstakt lag á að setja saman skemmtileg kvæði sem fá meira að segja óáhugasöm börn til að pæla í ljóðum og orðum, þori ég að alhæfa.

Á yngri árum kunni ég ekki að meta ljóðlist. Fannst hún skrýtin og furðuleg. Á því hefur orðið algjör breyting, og þar er eiginlega Þórarni fyrir að þakka. Ég les mest af ljóðunum hans fyrir syni mína sem hafa gríðarlega gaman af og fyrir vikið hef ég lesið eldri bækurnar hans aftur á bak og áfram nokkrum sinnum. Ég kemst ekki hjá því að flissa sjálf að nokkrum snúnum orðum, skringilegum kvæðum og skemmtilegum útúrsnúningum. Þórarinn er nefnilega sniðugur þannig.

Við mæðginin glugguðum í Ljóðpundara fyrir svefninn, eins og svo oft áður var það Þórarinn Eldjárn og hans kvæði sem urðu fyrir valinu fyrir kvöldlesturinn. Við erum svolítið ánægð með að það sé komin út ný ljóðabók eftir hann. Áður en við vorum búin að lesa tvö ljóð höfðu þeir þegar spurt út í orðalag og beðið um skýringar á hinu og þessu orðinu. Ljóð eru nefnilega svo sniðug til þess að auka orðaforða og læra ný, skemmtileg og kannski sjaldgæf orð. Þeir ráku upp óp við einni gróteskri mynd af manni (ef það er hægt að kalla mynd af manni í sakleysislegum strigaskóm gróteska) sem hafði rist upp á sér kviðinn og út flugu fiðrildi. Mig grunar að ljóðið sem fylgir myndinni verði þeirra uppáhaldsljóð héðan í frá:

Þórður fékk flugu

 

Þórður gamli hefur fengið flugu,
hann fékk hana í hausinn.
Kvikindið sér smokraði inn um smugu,
það smaug með suð og tuð og nuð og raus inn

 

Svo fékk hann líka fiðrildi í magann, 
sem friðlausan hreint gerðu’ hann,
og einhver skrýtin skriðildi sem naga’ hann 
í skrokkinn innanverðan.

 

Út af þessu er hann hreint að tjúllast
-ekki telst það sérlegt-
eyrun blakta, augun titra og rúllast,
áreitið er ferlegt.

 

En verst er þó öll vinnan
við að þurfa að klóra sér að innan.

 

Höf. Þórarinn Eldjárn, Ljóðpundari (2018)

Lestu þetta næst

Hamingjusöm sögulok?

Hamingjusöm sögulok?

Þessi umfjöllun inniheldur spilla.  Ég er nýflutt í íbúð með góðar svalir sem baðaðar eru...

Hinsegin hugarheimur

Hinsegin hugarheimur

Sjálfsævisögulegi söngleikurinn Góðan daginn faggi kom fyrst á svið árið 2021 og hlaut mikið og...

Að sleppa tökunum

Að sleppa tökunum

Spennusagan Bylur er önnur bók höfundarins Írisar Aspar Ingjaldsdóttur sem hefur áður gefið út...

Mega þorskar segja frá?

Mega þorskar segja frá?

Þorskasaga  eftir HAFstein Níelsson og Ólíver Þors(k)teinsson    Nú er loksins komið að því! Ég...

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muniGunnella eftir Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur hjá Afturámóti Á sviðinu er...

Rústaðu mér

Rústaðu mér

Vinkona mín gerði mér á dögunum tilboð sem ég gat ekki hafnað. Hún var með tæplega 800 blaðsíðna...