Ljóðlegur hversdagsleiki í lífi Hryggdýrs

Sigurbjörg Þrastardóttir hefur meðal annars verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir ljóðabók sína Blysfarir.

Ég hef það stundum á tilfinningunni að það að lesa ljóð sé aðeins sport sem bókmenntaséní og fræðifólk brilleri í; að alþýðleg Reykjavíkurmær, eins og ég, eigi þar með ekkert í að vera að spá og spekúlera í merkingu ljóða. Ég tók þessar efasemdir um hæfni mína til að rýna í ljóðabækur og lagði þær til hliðar þegar Hryggdýr eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, rithöfund og leikskáld, barst mér í hendur. Ljóðabókinni er skipt í fimm kafla og hönnun bókarinnar er einföld og í mjúkspjalda formi.

Ég byrjaði að lesa og kolféll strax fyrir henni. Yfirleitt þá hef ég gripið í ljóðabækur og lesið eitt og eitt ljóð og fyllst af andargift og ljóma yfir mætti íslensku tungunnar. Í Hryggdýri Sigurbjargar er svo sannarlega að finna mátt íslenskunnar. Hún lýsir augnablikum og sjónarhornum á þann hátt að lesanda líður eins og hann sé ljóðmælandi; skynjunin er svo sterk.

Í byrjun ætlaði ég að merkja við þau ljóð sem töluðu mest til mín. Ég endaði með að merkja við um 80 prósent bókarinnar. Það gerist ekki oft. Oftast er það eitt og eitt ljóð sem maður tengir virkilega sterkt við en Sigurbjörgu tekst á stórkostlegan hátt að vippa lesanda inn í hringrás orða sem flæða út af blaðsíðunni og inn í sál og vitund þess sem les.

Fyndin, sorgleg og allt þar á milli

Ljóðin eru hversdagsleikinn, sem Sigurbjörgu tekst að gera einstakan á sinn eigin hátt. Sum þeirra eru fyndin, svo fyndin að ég skellti upp úr, samanber sagan af aumingja konunni sem fékk blöðrubólgu af því að hún sat of lengi á steini í fjöru til að forðast að heilsa sjósundgörpum, sem hún segir vera svo lengi að synda. Önnur eru hins vegar sorgleg. Það ljóð sem mér fannst hvað magnaðast lýsir missi á svo sannan og einfaldan hátt. Söknuður er oft ekki endalaus grátur. Stundum er hann bara skilningsleysi á því hvernig heimurinn og tíminn getur haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist; eins og þessi manneskja sem var manni svo kær hafi ekki dáið.  Ljóðmælandi færir sig að heitum ofni sem yljar þegar söknuðurinn og kuldinn nístir inn að beini. Heitur ofninn, dauður hlutur, er stundum það sem maður þarf þegar ósanngirni dauðans ríður yfir.

Sigurbjörg er enginn viðvaningur þegar kemur að orðlistinni. Það sýnir hún og sannar með þessari stórkostlegu ljóðabók. Þetta er bók sem ég mun lesa aftur og aftur og alltaf mun ég sjá eitthvað nýtt.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...