Af einhverju ástæðum las ég aldrei bækur Roald Dahl þegar ég var yngri. Ég sé hve miklu ég hef misst af núna. Ég er líklega ekki að segja neinum fréttir þegar ég tilkynni að sögurnar hans séu ævintýralega skemmtilegar. Það er ekkert ómögulegt eða asnalegt hjá Dahl. Allt sem gerist í sögunum hans er fullkomlega rökrétt í því samhengi sem það er sagt.
Fyrir stuttu barst mér í hendur bókin Nornirnar eftir Dahl í nýrri þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur með upprunalegum teikninum Quentin Blake. Sagan er hrottalega hryllileg! Ungur drengur missir foreldra sína í byrjun bókarinnar og þarf því að alast upp hjá aldraðri norskri ömmu sinni. Amman segir honum sögur af konum sem eru ekki konur, heldur NORNIR. Þær þurfa að ganga með hanska til að fela klærnar, ganga í támjóum skóm til að fela tálausar kubbslegar fæturnar, eru með hárkollur sem valda hræðilegum kláða til að fela hárlausan hausinn, með blátt munnvatn og það versta af öllu; þær hata börn. Þær koma börnum fyrir kattarnef, láta þau hverfa, setja þau í málverk, breyta þeim í dýr. Skemmtilegast finnst þeim ef þær ná að láta foreldrana sjálfa drepa börnin sín og helst éta þau. Nornir eru hræðilegar verur sem líta út eins og konur. Drengurinn í sögunni verður svo fyrir því óláni að ramba inn á aðalfund norna í Englandi, þar sem samankomnar eru allar nornir Englands. Fundinum stjórnar æðsta aðalnornin sem Dahl lýsir svona:
“Andlit hennar var eitthvað það ógurlegasta og hræðilegasta fyrirbæri sem ég hafði nokkru sinni séð. Ég skalf við það eitt að horfa á að. Það var samankrumpað og skorpið, svo samanfallið og hrukkótt að það leit út fyrir að hafa verið súrsað í edikslegi. Þetta var ógnvænleg og hrikaleg sjón. Það var eitthvað svo hræðilegt við þetta allt, eins og andlitið væri úldið og rotið og farið væri að slá í það. Andlit hennar virtist bókstaflega vera að rotna yst en fyrir miðju hjá nefinu og munninum sá ég að húðin var öll í litlum bólum og ormétin, eins og maðkar væru a iði rétt undir yfirborðinu.” (Bls. 64)
Drengurinn verður vitni að stóru samsæri nornanna sem felur í sér að losna við ÖLL börn í Englandi á einu bretti. Til allrar ólukku sleppur drengurinn ekki alveg heill frá þessum fundi. En drengurinn og amma hans brugga launráð til að losna við allar nornir á Englandi.
Það var ekki fyrr ég ég var búin að lesa tæplega hálfa bókina sem ég gerði mér grein fyrir að ég þekkti söguna. Á viðkvæmum aldri hafði ég séð bíómyndina Witches sem síðar átti eftir að valda mér óteljandi martröðum.
Eins og oft vill vera, þá finnst mér bókin betri. Lýsingar Dahl á nornunum og hryllingnum sem þær framkvæma eru virkilega litríkar. Ég velti stundum fyrir mér hvort sagan sé kannski til þess gerð að valda ungum ómótuðum hugum óþarfa hugarangri og áhyggjum og ótta á afskiptasömum konum. En ég var fljót að kveða þær áhyggjur niður. Ímyndunaraflið getur aldrei gengið eins fram af manni og bíómynd. Annars er gaman að skjóta því að, að sagan verður aðlöguð að hvíta tjaldinu aftur á næstunni. Í þetta sinn mun myndin fylgja söguþræði bókarinnar betur.
Nornirnar eru hrottalega, hræðileg bók með litríkum lýsingum, skemmtilegum myndum og núna gefin út í nýrri þýðingu. Dahl hefur einstakt lag á að skrifa skemmtilega sögur þar sem börn eru aðal söguhetjurnar. Sögurnar eru einfaldar og auðlesanlegar fyrir krakka á öllum aldri.