Kristín Ómarsdóttir og Kristín Eiríksdóttir tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Kristín Ómarsdóttir er tilnefnd fyrir ljóðabók sína Kóngulær í sýningargluggum og Kristín Eiríksdóttir fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt.

Skáldkonurnar Kristín Ómarsdóttir og Kristín Eiríksdóttir eru tilefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2019 fyrir hönd Íslands. Kristín Ómarsdóttir er tilnefnd fyrir ljóðabókina Kóngulær í sýningargluggum og Kristín Eiríksdóttir fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt. 

Kristín Eiríksdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017 í flokki fagurbókmennta fyrir Elín, ýmislegt.

Í rökstuðningi dómnefndar með Elín, ýmislegt segir meðal annars:

Skáldsaga Kristínar fjallar um sjálfsmynd kvenna frá mörgum hliðum, það má gefa af sér góða mynd, búa til betri myndir eða falsa sjálfsmyndina sem öðrum er sýnd. Í sýndarveruleika okkar tíma er allt mögulegt. Aðalpersónan Elín er leikmyndasmiður og býr til líkama og líkamshluta sem þurfa að vera sannfærandi. Þeir eru einskis virði nema þeir líti rétt út. En veruleikinn lítur ekki alltaf þannig út. Meiddur kvenlíkami er þema sem birtist nokkrum sinnum í bókinni, ýmist sem leikmunur eða veruleiki.

Ríkjandi þemu í skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eru þrá eftir ást og skilningi, baráttan við sambandsleysi, einmanaleiki, misnotkun, ofbeldi og óhugnaður. Skáldsagan Elín, ýmislegt er skýrt dæmi um þetta. Þar birtist öflug rödd ungrar konu í listrænum og markvissum texta.

Rökstuningur dómnefndar með ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur er meðal annars sagt:

Í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur lítur sakleysið út eins og skyrsletta á vegg, bréfið undir koddanum spyr: ertu þarna? Spegillinn handsamar mynd ljóðmælandans þegar hann greiðir morgunbleikt hárið, landdreymnar hafmeyjar stinga höfði upp úr sjónum, glerbrjóst eru auglýst og torgið snarað með sjóndeildarhringnum. Kristín Ómarsdóttir hefur alltaf reynt hressilega á þanþol tungumálsins. Frumlegar ljóðmyndir hennar eru óvæntar og stundum súrrealískar.

 

Báðar bækurnar komu út árið 2017 og vöktu mikla athygli. Handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verður tilkynntur við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi 29. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....