Fljúgandi heimspekingurinn Skarphéðin Dungal

Skarphéðin Dungal er snjöll fluga. Hann veit að heimurinn er mikið stærri en bara Háborgin sem hann býr í. Heimurinn er meira en bara flöt slétta, það er meira að frétta. Þegar Skarphéðin viðrar skoðanir sínar við aðra íbúa Háborgarinnar, að mögulega leynist eitthvað meira þarna úti, er honum umsvifalaust hent fram af Háborginni. En til allrar hamingju svífur hann áfram með vindinum og uppgötvar að hann hafði bara rétt fyrir sér eftir allt saman, það er mikið meira að frétta. Hann kemst meira að segja að því að Háborgin hans er hrossataðshraukur.

Sagan um Skarphéðin Dungal, sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins er nýjasta bókin úr hugarheimi Hjörleifs Hjartarsonar og Ránar Flygenring, sem sendu frá sér bókina Fuglar (2017) sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2017 . Hjörleifur semur textann, líkt og í fyrra samstarfi þessa tvíeykis, sem að þessu sinni er í bundnu máli. Kvæðið er auðlesið og grípandi og leikandi létt að lesa. Ég stóð mig meira að segja að því að lesa margraddað, mér til ánægju og strákunum mínum til enn meiri ánægju. Ég prófaði að lesa úr bókinni fyrir hóp af börnum í bókaklúbbi á Bókasafni Akraness, krakkarnir voru mjög spenntir fyrir bókinni og þótti kvæðið grípandi. Það er gaman að lesa bundinn texta fyrir krakka, næstum dáleiðandi.

Teikningarnar eru úrklippumyndir eftir Rán Flygenring í appelsínugulum, svörtum og gráum lit. “Undarleg litasamsetning” – gætu sumir sagt. “Skrýtnir litir í barnabók” – myndu aðrir segja. Ég var sammála þegar ég sá bókina fyrst. Svo las ég bókina, skoðaði teikningarnar og las kvæðið. Myndskreytingin er öðruvísi, það verður að segjast eins og er, en hún er líka alveg ótrúlega falleg. Appelsínuguli liturinn heimtar athygli og teikningarnar eru fallegar og grípandi.

Bókin er ekki eingöngu barnabók. Hún er fjölskyldubók og með því að gera myndskreytinguna örlítið framúrstefnulegar, miðað við barnabók, þá höfðar hún til breiðari aldurshóps, að mínu mati.

Sagan sjálf sem leynist á bak við rímið hefur þann boðskap að það sé mikið meira en til í heiminum en það sem augað fær numið í fyrstu. Heimurinn er stór og það þarf að kanna hann og víkka út sjóndeildarhringinn. Kvæði Hjörleifs er, eins og áður segir, leikandi létt og auðvelt í lestri og hrynjandinn þægilegur. Ég fagna komu fjölskyldubóka á íslenskan bókamarkað. Fjölskyldubækur sem hægt er að skoða saman. Sagan af Skarphéðni Dungal er stofustáss (alla vega passar hann ágætlega í skipulega óreiðuna í minni stofu), kvæðið hentar vel til upplestrar fyrir krakka og myndirnar eru nautn að skoða. Sérlegum álitsgjöfum mínum þóttu þó myndirnar frekar furðulegar og hefðu viljað eitthvað hefðbundnara (ég er þeim ekki sammála).

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...